Norðlingaölduveita og Þjórsárver

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 10:36:02 (1159)

2002-11-07 10:36:02# 128. lþ. 25.91 fundur 229#B Norðlingaölduveita og Þjórsárver# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[10:36]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að hæstv. iðn.- og viðskrh. hefði átt að sleppa síðustu setningunni. Ég held að það bæti ekki þetta mál að vega með þessum hætti almennt ónafngreint að vísindamönnum eins og hérna var gert. Ég hvet hæstv. iðn.- og viðskrh. til þess að velta því fyrir sér hvort hún dragi ekki þessi ummæli sín til baka eða nefni þá einhver nöfn og geri ekki svona hluti, þ.e. að vera með almennar dylgjur af þessum toga í garð þeirra vísindamanna ónafngreint sem sinna störfum á þessum vettvangi. Svona framsetning mála gengur auðvitað ekki, herra forseti.

Hér eru náttúrlega mjög alvarlegar, grafalvarlegar ásakanir á ferð og nú er þetta komið upp á yfirborðið með þeim hætti að það er ekki lengur hægt að horfa fram hjá því. Sá orðrómur hefur verið í gangi lengi að í hinu litla þrönga vísindasamfélagi þar sem menn eru í ákaflega erfiðri stöðu vegna hagsmunatengsla og eiga vinnu sína og afkomu jafnvel undir þessum stóru vinnuveitendum sem eru Landsvirkjun og helstu aðilar aðrir á þessu sviði, sé beitt þrýstingi af þessu tagi. Nú geta menn ekki lengur skotið sér lengur undan því að takast á við þessa hluti.

Það vill svo til að endurskoðun laganna um mat á umhverfisáhrifum stendur fyrir dyrum og ég sé enga aðra leið en að taka þetta fyrirkomulag til gagngerrar endurskoðunar. Ég held að til sögunnar verði að koma óháð opinber matsstofnun sem starfar fullkomlega óháð framkvæmdaraðilunum, sem hafa hér allt of sterk ítök, t.d. í skjóli Alþingis eins og Ríkisendurskoðun, umboðsmaður Alþingis o.s.frv.

En eitt er alveg ljóst, herra forseti, og það er að komnar eru fram svo alvarlegar ásakanir gagnvart þessu mati um Þjórsárver og Norðlingaölduveitu að það verður að henda því. Það er ónýtt. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er nokkuð annað að gera í þessu máli en henda matinu og byrja upp á nýtt og sjá þá til þess að ekki verði haft rangt við eins og margt bendir til að hér hafi verið gert?