Norðlingaölduveita og Þjórsárver

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 10:40:06 (1161)

2002-11-07 10:40:06# 128. lþ. 25.91 fundur 229#B Norðlingaölduveita og Þjórsárver# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[10:40]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það sem hér er rætt er grafalvarlegt mál í okkar litla samfélagi. Nú eru komnar fram upplýsingar sem gefa fulla ástæðu til þess að tortryggja vinnubrögð við undirbúning og rannsóknir og mat á skýrslum um Norðlingaölduveitu.

Herra forseti. Það hlýtur jafnframt á hliðstæðan hátt að vekja manni ugg og tortryggni gagnvart vinnu nákvæmlega sömu aðila við aðrar mjög svo umdeildar virkjunarframkvæmdir, t.d. Kárahnjúkavirkjun. Eru einhverjar líkur á að öðrum vinnubrögðum hafi verið beitt þar? Mér finnst, herra forseti, að nú sé full ástæða til þess að fara rækilega ofan í saumana á þessum vinnubrögðum og þeim þrýstingi sem þarna getur verið á ferð.

Ég get nefnt aðrar virkjanir, þess vegna Villinganesvirkjun. Við vitum um þann gífurlega þrýsting sem lagður er á af hálfu virkjunaraðila og kapp þeirra og meira að segja hafa hæstv. ráðherrar blandað sér inn í á óeðlilegan hátt með því að beita stofnanir og einstaklinga sem vinna á þeirra vegum þrýstingi hvað þessi mál varðar. Þessi mál eru þess eðlis að að taka verður á þeim, bæði með endurskoðun á lögunum um umhverfismat og einnig því sem hér hefur nú verið velt upp á borð í þjóðfélaginu hvað varðar vinnubrögð við þessa mjög svo þýðingarmiklu vinnu við meðferð náttúruauðlinda.