Norðlingaölduveita og Þjórsárver

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 10:48:32 (1165)

2002-11-07 10:48:32# 128. lþ. 25.91 fundur 229#B Norðlingaölduveita og Þjórsárver# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[10:48]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Í raun var mjög gott að ég skyldi fá orðið núna á eftir hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni vegna þess að hann sagði að við ættum að breyta lögum þannig að sjálfstæð umhverfisstofnun annaðist matið. (Gripið fram í.) En þá værum við ekkert að ræða þetta mál í dag. Þá væri málið búið vegna þess að Skipulagsstofnun heimilar framkvæmdina. Þetta er nefnilega stóra málið.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon heldur alltaf að hann geti snúið málum sér í hag. En nú skjátlaðist honum. Svo mikið er víst. Ég vil ítreka að stjórnvöld eru ekkert að fjalla um þetta mál. Þetta mál er í hinum stórkostlega lögformlega farvegi sem allir hafa beðið um. Stjórnvöld koma ekkert að þessu. Landsvirkjun hefur heimild til þess lögum samkvæmt að fara út í mat á umhverfisáhrifum á framkvæmdum. Og ég tek fram að þetta er ekki virkjun. Þetta er veita. Það er búið að halda því fram í fjölmiðlum og af hv. þingmönnum og fleirum að þetta sé virkjun. Þetta er veita. Landsvirkjun hefur þessa heimild. Hún fer í ferlið og nú stöndum við frammi fyrir því að Skipulagsstofnun hefur heimilað þetta. Síðan er sú niðurstaða kærð til ráðherra og ráðherra er með málið. Stjórnvöld hafa ekki komið að þessu máli. Að halda því fram að ég nánast stjórni málinu úr iðnrn. er algjörlega hlægilegt.

Að sjálfsögðu væri hægt að segja margt fleira um það sem hér kom fram. En ég vil segja það aftur sem ég sagði í ræðu minni áðan --- og ég kasta því fram sem möguleika --- að vísindamenn sem eru yfirlýstir andstæðingar --- þeir eru það margir, búnir að lýsa því yfir að þeir séu andstæðingar þessara framkvæmda --- er ekki hugsanlegt að þeir eigi aðeins erfitt með það að greina á milli þess sem er pólitík og þess sem eru vísindi? (SJS: Er allt í lagi ef þeir væru yfirlýstir stuðningsmenn? Væri þá allt í lagi?) Ég kasta þessu fram sem möguleika. (SJS: Heyr á endemi!)