Norðlingaölduveita og Þjórsárver

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 10:50:54 (1166)

2002-11-07 10:50:54# 128. lþ. 25.91 fundur 229#B Norðlingaölduveita og Þjórsárver# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[10:50]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég kann illa við það sem hæstv. ráðherra hefur látið hér falla um vísindamenn. Ég las upp það sem ungur vísindamaður segir í fjölmiðlum, að hún eigi heiður sinn sem vísindamanns að verja og þarf aðstoð lögfræðinga til. Mér finnst að hæstv. ráðherra hafi gengið of langt þegar hún segir eða ýjar að því að pólitískar skoðanir vísindamanna sem eru þekktir fyrir fagleg vinnubrögð og sem hæstv. ráðherra hefur notað í öðrum tilvikum, ráði niðurstöðum þeirra.

Um hvað snýst þetta, herra forseti? Þetta snýst ekki um það ferli sem er í gangi núna. Þetta snýst um vinnubrögð stofnunar sem er undir hæstv. iðnrh. Þetta snýst um vinnubrögð Landsvirkjunar. Við skulum bara ræða það kalt og yfirvegað. Komið hafa fram ásakanir sem hv. formaður iðnn. kallar grafalvarlegar, mjög alvarlegar, og þær lúta að því að starfsmenn Landsvirkjunar sem eru formlega undir hæstv. iðnrh. hafi beitt óeðlilegum þrýstingi, sem m.a. liggur fyrir í skriflegum gögnum, til þess að ýta út óþægilegum staðreyndum sem kynnu að draga úr möguleika á því að niðurstaðan í matsferlinu hefði verið önnur. Það er alvarlegt. Spurningin sem ég beindi til hæstv. ráðherra áðan var hvort hún teldi ekki rétt að láta kanna hvort starfsmenn hennar hefðu orðið uppvísir að þessu. Mér finnst að það þurfi að liggja fyrir áður en menn fara að kveða upp dóma eins og settur umhvrh. þarf að gera í næstu viku.

Fyrir liggja ásakanir um að sleppt hafi verið hluta af gögnum sem dr. Ragnhildur Sigurðardóttir vann fyrir stofnunina af því að það var óþægilegt og sleppt var einkunnagjöf hennar um áhrif virkjunar á ýmsa þætti. Ef þetta er rétt þá finnst mér það mjög alvarlegt. Ég veit ekki hvort það er rétt. En þetta er staðhæfing og þess vegna segi ég: Telur ekki hæstv. ráðherra að þetta þurfi að kanna áður en menn ljúka þessu dæmi? Nú er hæstv. ráðherra búin með málfrelsi sitt í þessari umræðu þannig að hún getur ekki svarað því. En ég beini því til hennar að gera það og ég áskil mér allan rétt til þess að taka þetta mál upp aftur innan tíðar.