Ummæli ráðherra

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 10:53:32 (1167)

2002-11-07 10:53:32# 128. lþ. 25.93 fundur 231#B ummæli ráðherra# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[10:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli forseta á því að í umræðum hér áðan um störf þingsins lét hæstv. iðn.- og viðskrh. ákaflega þung orð falla í garð ónafngreinds en tiltölulega fámenns hóps vísindamanna. Það vill nú svo til að það eru ekkert óskaplega margir vísindamenn sem bera ábyrgð á þeim grunnrannsóknum í Þjórsárverum sem hér hafa verið til umræðu. Það nægja svona nokkurn veginn fingur beggja handa ef ekki annarrar handar til að telja þá upp sem þar hafa verið langfyrirferðarmestir. Það er vissulega rétt að birst hafa viðtöl í blöðum við nokkra þeirra og þeir hafa tjáð hug sinn til Þjórsárvera, jafnvel tekið afstöðu til þess að þeir telji að það ætti ekki að ráðast í þessar framkvæmdir. En hefði þá ekki verið heiðarlegra og meiri manndómsbragur að því hjá hæstv. ráðherra að (Gripið fram í.) nafngreina þessa vísindamenn til þess að forseti gæti svo metið hvort þá ætti við að gera athugasemdir eins og hér hafa iðulega verið gerðar þegar tilteknir einstaklingar hafa verið nafngreindir, eins og framkvæmdastjóri Sjálfstfl. Þá hefur forsetavaldinu verið beitt til þess að tala um að það væri ekki hæverska að nafngreina slíka menn. En þegar vegið er fámennum hópi vísindamanna, sem allir vita hverjir eru, með þessum ómaklega og ég vil segja löðurmannlega hætti, látið liggja að því að ekki sé treystandi faglegum og vísindalegum niðurstöðum vegna þess að menn hafi skoðun á málinu og talað jafnvel um pólitíska skoðun í því sambandi, látið að því liggja og það er svona næsti bær við að segja að það sé þá flokkspólitísk skoðun, þá heyrist ekki múkk héðan úr forsetastólnum.

Ég gagnrýni þessa fundarstjórn. Mér finnst í raun sýnu alvarlegra þegar í skjóli nafnleysis er vegið að hópi fólks með þessum hætti heldur en þegar menn eru þó menn til þess að nafngreina þá sem þeir eiga við. Ég hefði því gjarnan viljað að forseti í þessu tilviki, ef sá siður er almennt uppi að gera athugasemdir við það þegar talað er um fjarstadda menn og menn utan þings sem ekki eru hér til staðar til að verja heiður sinn, horfi ekki síður til þess þegar það er gert með þessum hætti heldur en í hinum tilvikunum þegar menn eru nafngreindir.