Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 10:57:43 (1170)

2002-11-07 10:57:43# 128. lþ. 25.1 fundur 228#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001# (munnl. skýrsla), Flm. HBl (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[10:57]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Hér er til umræðu skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2001. Eins og lýst er í bréfi því til Alþingis sem fylgir skýrslunni er áfram fylgt því fyrirkomulagi sem tekið var upp í skýrslu umboðsmanns fyrir árið 1998 að birta í henni að meginstefnu til aðeins útdrætti vegna mála sem umboðsmaður hefur lokið með áliti eða bréfi og ákveðið að birta opinberlega. Er í bréfinu vakin athygli á því að álit umboðsmanns birtast nú ásamt útdrætti á heimasíðu hans jafnóðum og málunum er lokið.

Í ræðu minni á síðasta löggjafarþingi við umræður um skýrslu umboðsmanns fyrir árið 2000 taldi ég óhætt að fullyrða að þetta aukna aðgengi að úrlausnum umboðsmanns hefði reynst mikilvægt innlegg í þjóðfélagsumræðuna. Hefur þannig verið náð því markmiði að upplýsa bæði almenning og starfsfólk stjórnsýslunnar um þær lagareglur sem gilda í samskiptum þessara aðila og umboðsmaður Alþingis hefur fjallað um. Ljóst er að þetta fyrirkomulag á birtingu álita og annarra afgreiðslna umboðsmanns hefur frá síðustu umræðu um skýrslu umboðsmanns áfram náð að viðhalda því markmiði að vekja athygli borgaranna og stjórnvalda á þeim verkefnum sem umboðsmanni er með lögum falið að fjalla um.

Sú skýrsla umboðsmanns sem hér er rædd er að meginstefnu til byggð upp með sama hætti og skýrslur sl. þriggja ára. Þó er að finna nokkrar breytingar og viðbætur sem ég mun víkja að sérstaklega á eftir.

Í I. kafla er fjallað um starf umboðsmanns Alþingis og rekstur skrifstofu hans árið 2001. Þá er í kaflanum vikið að helstu viðfangsefnum umboðsmanns á árinu, að frumkvæðismálum og viðbrögðum stjórnvalda í tilefni af frumkvæðisathugunum umboðsmanns. Þá er loks vikið að erlendu samstarfi umboðsmanns og fundum.

[11:00]

Ég vek athygli á því að í I. kafla er vikið sérstaklega að afgreiðslutíma stjórnvalda á erindum umboðsmanns. Þar er rakið að umboðsmaður hafi á árinu ákveðið að láta taka saman yfirlit um hversu langur tími hafi liðið á árunum 2000 og 2001 frá því að hann sendi stjórnvöldum einstök bréf og fyrirspurnir og þar til svör bárust frá stjórnvöldum. Er gerð nánar grein fyrir því hvernig könnunin var framkvæmd, niðurstöðum hennar lýst í töfluformi og rakið að á því tímabili sem könnunin náði til hafi umboðsmaður að jafnaði ekki fengið svör frá stjórnvöldum innan 30 daga frá útsendingu fyrirspurnarbréfs nema í 45% tilvika og ekki nema í rúmlega 65% tilvika innan tveggja mánaða. Þá er því lýst að meira en þriggja mánaða bið hafi verið í um 17% tilvika.

Í II. kafla skýrslunnar eru töflur og tölfræðilegar upplýsingar um þau mál sem umboðsmaður kannaði á árinu svo og tölfræðilegar upplýsingar um áður afgreidd mál. Við þennan kafla hafa nú bæst tveir nýir undirkaflar. Í þeim fyrri eru birt yfirlit um viðbrögð stjórnvalda við sérstökum tilmælum umboðsmanns sem hann beindi til þeirra í álitum á árinu 2001 vegna einstakra mála. Í yfirlitinu koma aðeins fram þau mál þar sem umboðsmaður beindi tilmælum til stjórnvalds um að taka þá ákvörðun sem var tilefni kvörtunar til meðferðar að nýju kæmi fram ósk um það frá þeim sem bar fram kvörtun.

Í yfirlitinu eru tilgreind alls 43 álit. Í níu tilvikum hefur sá sem bar fram kvörtun ekki leitað til stjórnvaldsins að nýju. Í 26 málum verður ekki annað ráðið en að stjórnvöld hafi farið eftir tilmælum umboðsmanns, en í tveimur málum virðast stjórnvöld ekki hafa leyst úr máli í samræmi við þau sjónarmið sem fram komu í áliti umboðsmanns. Loks voru sex mál enn til meðferðar hjá viðkomandi stjórnvaldi þegar skýrslan var tekin saman.

Í síðari kaflanum er auk þess að finna yfirlit um tilkynningar sem umboðsmaður sendi Alþingi, ráðherra eða sveitarstjórn í tilefni af meinbugum á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum eða framkvæmd. Í bréfi umboðsmanns til Alþingis sem fylgdi þeirri skýrslu sem hér er rædd kemur fram að þessi yfirlit hafi verið gerð til að koma til móts við óskir alþingismanna um að í skýrslu umboðsmanns komi fram í ríkari mæli samandregin yfirlit um framvindu mála, m.a. um viðbrögð stjórnvalda við tilmælum umboðsmanns.

Í III. kafla skýrslunnar eru birtar niðurstöður og álit í málum sem umboðsmaður Alþingis afgreiddi á árinu 2001 og ástæða þótti til að gera sérstaka grein fyrir í skýrslunni. Eftir hverju áliti fylgja tiltækar upplýsingar um viðbrögð stjórnvalda við þeim tilmælum sem umboðsmaður beindi til þeirra í viðkomandi áliti og miðast þær upplýsingar við dagsetningu skýrslunnar.

Í IV. kafla er gerð grein fyrir framvindu mála sem fjallað er um í fyrri skýrslum umboðsmanns.

V. kaflinn geymir loks skrár yfir atriðisorð og skrá yfir mál í númeraröð.

Á árinu 2001 voru skráð 248 ný mál hjá umboðsmanni Alþingis og tók hann tvö þeirra upp að eigin frumkvæði. Skráð mál á grundvelli kvartana voru því 246. Er þetta nokkur fjölgun mála frá árinu 2000 en þá voru skráð mál alls 232. Alls hlutu 303 mál lokaafgreiðslu hjá umboðsmanni á árinu 2001 en til samanburðar voru þau 253 á árinu 2000.

Gert er ráð fyrir því í lögum um umboðsmann að hann geti að eigin frumkvæði ákveðið að taka mál til meðferðar, þá geti hann jafnframt tekið starfsemi og málsmeðferð stjórnvalda til almennrar athugunar. Í þeirri skýrslu umboðsmanns sem við ræðum hér er vikið að þeim frumkvæðismálum sem hófust á árinu 2001 og þeim frumkvæðismálum sem umboðsmaður lauk við á því ári. Er þar um að ræða frumkvæðisathugun umboðsmanns á ákveðnum þáttum sem varða réttarstöðu afplánunarfanga og meðferð þeirra hjá yfirvöldum fangelsismála og eru álit umboðsmanns af þessu tilefni birt í heild sinni í skýrslunni.

Í skýrslunni er einnig farið nokkrum almennum orðum um viðbrögð stjórnvalda í tilefni af frumkvæðisathugunum umboðsmanns og rakið að í nokkrum tilvikum hafi ákvarðanir umboðsmanns um slíkar athuganir orðið tilefni viðbragða hjá hlutaðeigandi stjórnvöldum sem gefið hafa umboðsmanni fullt tilefni til þess að ætla að stjórnvöld hygðust sjálf hafa frumkvæði að breytingum á þeim atriðum sem umboðsmaður áformaði að taka til athugunar, bæði hafi þar komið til beinar yfirlýsingar stjórnvalda og einnig athafnir sem hafi verið til marks um það. Í samræmi við þau lagasjónarmið sem starf umboðsmanns Alþingis hvílir á hafi umboðsmaður lagt áherslu á að í þeim tilvikum þegar stjórnvöld lýsa vilja til að bæta úr þeim atriðum sem til athugunar eru fái þau hæfilegan tíma til þess áður en til frekari athugunar komi af hans hálfu. Það valdi hins vegar nokkrum vanda í störfum umboðsmanns þegar verulegur dráttur verður á því að þessi áform stjórnvalda gangi eftir og umræddar breytingar verði að veruleika. Er sem dæmi nefnt í skýrslunni viðbrögð dóms- og kirkjumálaráðuneytis við þeirri ákvörðun umboðsmanns að hefja framangreinda athugun á ákveðnum þáttum sem varða réttarstöðu afplánunarfanga. Þá er einnig fjallað um viðbrögð stjórnvalda í tilefni af þeirri ákvörðun umboðsmanns á árinu 1996 að hefja frumkvæðisathugun á því hvort lög um heimtu ýmissa gjalda samrýmdust stjórnarskránni.

Ég vil þakka umboðsmanni Alþingis og starfsmönnum hans vel unnin og árangursrík störf á liðnu ári.