Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 11:23:12 (1177)

2002-11-07 11:23:12# 128. lþ. 25.1 fundur 228#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001# (munnl. skýrsla), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[11:23]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Með stofnun embættis umboðsmanns Alþingis var stigið mikið framfaraspor. Það var gert með lagasetningu árið 1987 en árið eftir tók stofnunin til starfa. Að mínum dómi hefur hún unnið mikið þjóðþrifaverk. Henni er falið það hlutverk að gæta hagsmuna almennings gagnvart stjórnsýslunni, opna hana þar sem hún er lokuð og stuðla þannig að því að gangverk stjórnkerfisins sé skilvirkt, opið og að ekki sé gengið á hlut borgaranna.

Hér er yfirgripsmikil skýrsla frá embætti umboðsmanns Alþingis og auk þess hefur rækileg grein verið gerð fyrir helstu þáttum hennar úr ræðustóli. Ég ætla ekki að endurtaka það sem hér hefur verið sagt en vil víkja að örfáum atriðum.

Í skýrslu umboðsmanns kemur fram að tíminn sem líður frá því að erindinu er beint til stofnana og þar til þær svara styttist. Í einstökum tilvikum líður þó enn óhæfilega langur tími, segir í skýrslu umboðsmanns Alþingis. Þar er sérstaklega vísað til tveggja ráðuneyta, heilbr.- og trmrn. og samgrn. Umboðsmaður tekur þó fram að í nokkrum tilvikum þar sem dregist hafi að svara fyrirspurnum hafi honum borist tilkynningar um að vænta mætti slíks dráttar og hann skýrður.

Mig langar hins vegar til að víkja örlítið að tveimur öðrum atriðum í skýrslu umboðsmanns Alþingis. Annað lýtur að formi rekstrar opinberra fyrirtækja og stofnana og hitt tengist frumkvæðismáli eða málum sem embættið hefur beitt sér fyrir.

Varðandi form rekstrar opinberra fyrirtækja og stofnana vekur umboðsmaður athygli á því að þær stofnanir sem hafa verið gerðar að hlutafélögum séu að ýmsu leyti á gráu svæði. Umboðsmaður telur, og nú ætla ég að leyfa mér að vitna beint í skýrslu hans, með leyfi forseta:

,,Í þessu efni getur verið tilefni til þess að taka til athugunar hvort rétt sé að setja í lög almennar reglur um slík opinber fyrirtæki þar sem tekin væri afstaða til þess hvernig fara ætti um ýmis atriði þar sem álitamál er hvernig hinar hefðbundnu reglur félagaréttarins eiga við.``

Almennt virðist mér umboðsmaður á því máli að stofnanir sem hafa verið gerðar að hlutafélögum, fyrirtæki öllu heldur, þ.e. ef þau eru í eigu almennings, ríkis eða sveitarfélaga, eigi að lúta svipuðum reglum og almenn stjórnsýsla. Hann vísar m.a. í mál sem hafa komið upp hjá embættinu, mál nr. 2440/1998, sem er birt í heild í skýrslunni. Í því máli reyndi á hvort einstaklingur ætti rétt á aðgengi að tilteknum gögnum um framkvæmdir Landsvirkjunar á grundvelli ákvæða laga nr. 21/1993, um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál. Síðan rekur hann nánar efni málsins en segir síðan, með leyfi forseta:

Að þessu virtu taldi ég að starfsemi, lögbundinn tilgangur, eignarhald og lagaleg staða Landsvirkjunar væri þess eðlis að telja yrði að fyrirtækið félli undir ákvæði 1. mgr. 2. gr. laga nr. 21/1993, eins og skýra yrði það með tilliti til þeirra skuldbindinga sem leiddu af samningum um Evrópska efnahagssvæðið.

Hér er niðurstaða umboðsmanns Alþingis sú að stofnun á borð við Landsvirkjun sem er í eigu almennings, eigu þjóðarinnar, eigi að lúta svipuðum lögum, svipuðum reglum og lögum og stjórnsýslan gerir almennt. Þett finnst mér mjög athyglisvert mál. Ég tel að Alþingi eigi að taka til greina þær ábendingar sem koma frá embættinu um hugsanlegar lagabreytingar.

Hitt atriðið sem ég vildi víkja að eru frumkvæðismál sem embættið hefur beitt sér fyrir. Þar er rakið sérstaklega mál fangelsanna. Á árinu 1999 tók umboðsmaður Alþingis upp að eigin frumkvæði að kanna ýmsar reglur sem gilda um rekstur fangelsa og réttarstöðu þeirra sem þar eru innan veggja. Ástæðan er tilgreind með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta:

,,Ástæða þess að ég valdi að beina athugun minni að þessum atriðum er að þar reynir á í hvaða mæli settar hafa verið formlegar reglur sem hafa verið birtar og liggja til grundvallar framkvæmd fangelsisyfirvalda. Tilvist slíkra reglna er liður í því að tryggja réttaröryggi þeirra sem sæta afplánun í fangelsum. Auk þess skiptir það miklu fyrir þá aðila sem sinna eftirliti með stjórnsýslu á þessu sviði eins og umboðsmann Alþingis að geta sannreynt við athuganir sínar hvort afgreiðslu mála einstakra fanga séu í samræmi við slíkar fyrir fram settar reglur.``

Þetta er á árinu 1999, að umboðsmaður Alþingis tekur þetta mál upp. Hann beinir þessu erindi til dómsmrn. sem hefur þetta mál með höndum. Hann sendir ráðuneytinu álitsgerð sína 27. nóvember 2001. Ráðuneytið tekur vel í þetta og segist vilja kanna málið en síðan gerist ekki neitt. Síðan ekki söguna meir. Umboðsmaður Alþingis veltir vöngum yfir því til hvaða ráða sé hægt að grípa til þess að knýja á um úrlausn mála. Við ræddum í þinginu í gær um hvort til stæði að einkavæða fangelsin. Við fengum þau svör að ekki stæði til að gera það. En stendur til að gera þessi mál skilvirkari og fara að þeim uppástungum, hugmyndum og tillögum sem t.d. koma fram hjá umboðsmanni Alþingis varðandi rekstur fangelsa og réttarstöðu fanga?

Herra forseti. Ég sagði í upphafi máls míns að ég ætlaði ekki að hafa um þetta mjög mörg orð. Ég tel starfið sem fram fer á vegum þessa embættis mjög mikilvægt. Ég tel að þetta sé ein af undirstöðustofnunum í okkar lýðræðisþjóðfélagi og tel mikilvægt að þessi starfsemi verði efld. Það hefur komið fram að stjórnvöld bregðast betur við en þau gerðu fyrr á árum, svara erindum skjótar en áður var. Hins vegar eru ýmsar brotalamir. Alþingi þarf að taka til greina hugmyndir umboðsmanns um lagabreytingar sem knýja hlutafélög í eigu almennings til að opna sig gagnvart þjóðinni. Síðan eru greinilega brotalamir á viðbrögðum stjórnvalda við ábendingum embættisins. Ég nefndi þar sérstaklega fangelsismálin.