Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 11:42:56 (1181)

2002-11-07 11:42:56# 128. lþ. 25.1 fundur 228#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001# (munnl. skýrsla), JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[11:42]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. sagði um að taka þyrfti á því að endurskoða þessi lög.

Mér þótti hins vegar svolítið nýstárlegt að heyra sumt af því sem hann sagði. Hann hafði mestar áhyggjur af því að Orkuveita Reykjavíkur hefði lagt fjármuni í annars konar veitustarfsemi en hún hefur stundað til þessa. En veitustarfsemi er það nú samt. Ég sé ekki hvers vegna orkuveitan getur ekki staðið í slíkri starfsemi.

Ég held að sporin frá fyrri tíð ættu frekar að vera hér til umræðu, er menn byggðu hér hallir og fóru út í rekstur veitingahúsa. Ég veit ekki betur en að peningar frá þessu fyrirtæki hafi verið notaðir til að byggja Perluna og peningar frá Hitaveitu Reykjavíkur hafa verið notaðir til að halda uppi því fyrirbrigði með miklum undirballans alla tíð.

Mér finnst nú að skotin komi úr hörðustu áttum hjá sjálfstæðismönnum þegar þeir tala um að verið sé að nota fjármuni Orkuveitu Reykjavíkur í annað heldur en eigi að gera.

Hins vegar er sannarlega um veituframkvæmdir um að ræða þegar verið er að tala um Línu.Net. Ég held að menn sem gera sér ekki grein fyrir því séu bara ekki komnir inn í nútímann.