Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 11:44:35 (1182)

2002-11-07 11:44:35# 128. lþ. 25.1 fundur 228#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001# (munnl. skýrsla), BBj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[11:44]

Björn Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Umræður á þessum forsendum skila náttúrlega engu. Það sem hér er verið að tala um er að eftir að Orkuveitu Reykjavíkur var breytt með lögum í desember 2001 fór fyrirtækið í allt annað starfsumhverfi. Það er í skjóli þess umhverfis sem menn neita að láta í té upplýsingar, m.a. um hvernig staðið er að fjárfestingum varðandi Línu.Net. Það er í skjóli þess að fyrirtækið sé ekki lengur opinbert fyrirtæki eins og það var áður en þessum lögum var breytt að menn neita að leggja fram upplýsingar, meira að segja í stjórn fyrirtækisins til stjórnarmanna um þessar fjárfestingar, halda þeim leyndum og leggja þær ekki fram. Það er það sem umboðsmaður er að benda á, að setja þurfi skýrar lagareglur til að menn geti ekki skotið sér undan því að veita upplýsingar af þeim toga sem hér er um að ræða.

Það er um þetta sem málið snýst en ekki um það hvort Perlan hafi verið reist eða hvaða fjárfestingar er farið í, sem hefur ekki einu sinni verið lagt fram. Allar upplýsingar um Perluna liggja ljósar fyrir. Það er rangt að Hitaveita Reykjavíkur reki það starf. Hún leigir það út. Það liggur allt fyrir. Það er engin spurning um það. Hinu höfum við ekki fengið svar við, m.a. í skjóli þess að fyrirtækjunum hefur verið breytt með lögum á Alþingi. Við höfum ekki fengið upplýsingar um það hvað er að gerast með fjármuni fyrirtækisins í nafni Línu.Nets.