Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 11:47:09 (1184)

2002-11-07 11:47:09# 128. lþ. 25.1 fundur 228#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001# (munnl. skýrsla), BBj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[11:47]

Björn Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað á þessi upplýsingaskylda jafnt við hvort fyrirtækið er í eigu ríkisins eða sveitarfélaga. Ég hef aldrei viljað draga nein skil þar á milli. Það sem hér er til umræðu og það sem umboðsmaður Alþingis er að vekja máls á er að með því að breyta eignaraðild fyrirtækja, þótt þau séu 100% í eigu opinberra aðila, þá líta ýmsir stjórnendur þeirra fyrirtækja þannig á að þeim beri ekki að veita upplýsingar af því að þeir séu ekki lengur undir upplýsingaskylduna settir. Á það er hann að benda á og það er það sem ég var að nefna og það er reynsla mín úr stjórn eins slíks fyrirtækis að upplýsingum er jafnvel haldið leyndum fyrir stjórnarmönnum hvað þá almenningi í skjóli þess að fyrirtækinu hafi verið breytt. Hvernig heldur hv. þm. að slíkir menn umgangist almenning ef ekki eru sett á þá lög til þess að skylda þá með skýrum hætti að veita þær upplýsingar sem þeim ber?