Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 11:55:20 (1186)

2002-11-07 11:55:20# 128. lþ. 25.1 fundur 228#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001# (munnl. skýrsla), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[11:55]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég hef áður gert grein fyrir meginsjónarmiðum mínum varðandi skýrslu umboðsmanns Alþingis. Ég kveð mér hljóðs að nýju vegna þeirra umræðna sem spunnist hafa um upplýsingaskyldu forsvarsmanna fyrirtækja og stofnana í eigu almennings. Ég tek undir það meginsjónarmið sem fram kom hjá umboðsmanni að þær eigi að lúta almennt sömu reglum, og lögum þess vegna, og stofnanir sem eru reknar á vegum ríkis og sveitarfélaga. Í framhaldi af þeim umræðum sem spunnist hafa um Orkuveitu Reykjavíkur þá tek ég undir það að mér finnst eðlilegt að upplýsingar sem snerta það fyrirtæki séu að sjálfsögðu stjórnarmönnum opnar en einnig almenningi, eigendum Orkuveitunnar. Stjórnarmenn eru þar væntanlega innan borðs til að gæta hagsmuna almennings. En ég fæ ekki séð hvaða upplýsingar það gætu verið í fyrirtækjum og stofnunum á borð við orkuveitur sem rétt er eða réttlætanlegt er að halda leyndum fyrir eigendum sínum. En það var afdráttarlaus niðurstaða umboðsmanns Alþingis, eftir því sem ég skil þessa skýrslu, að almennt eigi þessar stofnanir --- og það gildi einnig um Orkuveituna --- að lúta sömu lögmálum og almennar stjórnsýslustofnanir. Ég tek því undir það sjónarmið.

Ég fagna því ef orðið hefur áherslubreyting hjá sjálfstæðismönnum hvað þetta snertir vegna þess að þetta er ekki í fyrsta skiptið sem við höfum rætt þessi efni. Umræða hefur spunnist um Landssímann t.d. Þar var neitað að upplýsa um launakjör, ráðningarkjör æðstu stjórnenda þeirrar stofnunar svo að dæmi sé tekið og varð af því talsverð rimma. Fyrir Alþingi liggur núna beiðni til Ríkisendurskoðunar um að fá upplýsingar um starfslokasamning fyrrverandi forstjóra fyrirtækisins og því hefur verið neitað hér á þingi að upplýsa Alþingi um það eða að alþingismann fái í hendur þessa skýrslu.

Varðandi það sjónarmið sem fram kom í máli hv. þm. Björns Bjarnasonar, að orkuveitur eða fyrirtæki og stofnanir af því tagi eigi að forðast að taka þátt í fjárfestingum á markaði þá tek ég almennt séð undir það sjónarmið þó að mjög erfitt sé að draga einhverjar ákveðnar línur í því efni, en minni á að um þetta hafa staðið nokkrar deilur. Og fyrst ég nefndi Landssímann þá minnumst við þess að hann lagðist í miklar fjárfestingar úti um víða veröld og fór að braska með fé. Í einu tilvikinu tapaði hann hálfum milljarði kr. á fjármálabraski, ævintýri í Bandaríkjunum. Einn nefndarmaður í einkavæðingarnefnd sagði að í rauninni væri búið að gera Landssíma Íslendinga að fjárfestingarfyrirtæki því að slík voru umsvif þessara fjárfestinga. En þetta finnst mér vera mjög mikilvægt umræðuefni sem við erum komin inn á og umboðsmaður vekur réttilega máls á hver sé réttarstaða almennings gagnvart þessum eignum sínum þótt rekstrarforminu hafi verið breytt.

Í Bandaríkjunum hefur verið farin sú leið að skylda slík fyrirtæki til þess að opna bókhald sitt og þegar um er að ræða einokunarstarfsemi eru iðulega settar alls kyns kvaðir um arð, hámarksarð sem leyfilegt er að taka út úr slíkri starfsemi og einnig varðandi upplýsingaskylduna.

Fyrir fáeinum árum komu hingað í boði BSRB bandarískir sérfræðingar sem hafa einmitt sérhæft sig í því að leita eftir upplýsingum frá bandarískum orkufyrirtækjum, t.d. hvað varðar verð á orku og þeirri vöru og þjónustu sem þessi fyrirtæki selja, á hvaða forsendum slíkar verðlags\-ákvarðanir eru teknar, og allt er þetta miklu opnara en gerist t.d. í Evrópu. Þessa hluti þurfum við öll að taka til gagngerrar endurskoðunar, ekki síst í ljósi þess að fjöldi stofnana og fyrirtækja sem áður voru almannastofnanir eru orðnar að hlutafélögum.