Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 11:59:16 (1187)

2002-11-07 11:59:16# 128. lþ. 25.1 fundur 228#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001# (munnl. skýrsla), HBl
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[11:59]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég tel að þessar umræður hafi verið gagnlegar. Ég tel að þær athugasemdir sem komið hafa fram frá hv. þingmönnum í allshn. sýni og staðfesti að umboðsmaður Alþingis hefur staðið vel að verki og eins og ég tek undir, staðið undir þeim vonum sem við embætti hans eru bundnar.

Um þær sérstöku athugasemdir sem hér hafa komið fram vil ég í fyrsta lagi segja að þær umræður sem hér hafa vaknað um réttarstöðu opinberra stofnana sem breytt hefur verið í hlutafélög eru réttmætar. Eins og stendur í áliti umboðsmanns Alþingis þá hefur hann vakið athygli Alþingis og iðnrh. á niðurstöðum sínum og er sjálfsagt að fylgja því eftir og kanna hvar þetta mál er á vegi statt í iðn.- og viðskrn.

[12:00]

Það er ljóst að það hefur verið litið svo á á Alþingi, a.m.k. af meiri hlutanum, að opinberar stofnanir breyti um eðli um leið og hlutabréf hafa verið sett á markað og einstaklingar eða aðrir aðilar gerst hluthafar og þá sé rétt að um þau fjalli einkaréttarleg ákvæði. Á þetta hefur áður reynt hér og ættu það ekki að vera nýmæli fyrir hv. þingmenn. Á hinn bóginn hef ég skilið vangaveltur umboðsmanns Alþingis svo að hann sé sérstaklega að tala um hvernig almennar reglur stjórnsýsluréttar eigi við um hlutafélög og sameignarfélög í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga. Eins og ég skil ummæli umboðsmanns telur hann að löggjöfin um þau efni sé ekki nægilega skýr sem er auðvitað óviðunandi og óhjákvæmilegt að taka það mál upp þannig að starfsreglur þessara fyrirtækja liggi ljósar fyrir og bæði stjórnendur þeirra, alþingismenn og eftir atvikum sveitarstjórnarmenn geti áttað sig á þeim rétti sem þeir hafa til að veita upplýsingar og einnig til að önnur fyrirtæki sem starfa úti á markaðnum geti glöggvað sig á því hvar þau standa í viðskiptum við slík fyrirtæki.

Eins og hv. þingmenn muna var ein höfuðröksemdin fyrir því að breyta Landssímanum í hlutafélag á sínum tíma sú að hann átti í vaxandi erfiðleikum með samvinnu og viðskipti við önnur sambærileg fyrirtæki í nálægum löndum sem breytt hafði verið í einkafyrirtæki. Af þeim sökum var óhjákvæmilegt að þessi breyting gæti orðið, einmitt til að tryggja þá viðskiptahagsmuni sem tengdir voru því að eiga viðskipti við slík opinber fyrirtæki, fyrirtæki í eigu opinberra aðila. Ég tek þess vegna undir það sem hv. 2. þm. Reykv., Björn Bjarnason, sagði, að ástæða væri til þess fyrir Alþingi og alþingismenn að ýta á eftir því að skýrari reglur yrðu settar um þetta efni. Það hlýtur síðan að fara eftir atvikum hvernig framvindan verður, hvernig málið ber að í þinginu, hvort einstakir þingmenn hafa að því frumkvæði eða frv. verður lagt fram af ríkisstjórninni eða hæstv. viðsk.- og iðnrh. Ég hygg að umræðurnar í dag sýni glögglega að óvissan í þessum efnum er óþolandi. Það verður að sjálfsögðu að gera sömu kröfur til sveitarfélaga, sem eru opinberir aðilar, og ríkisins um að bregðast vel við þegar umboðsmaður Alþingis gerir athugasemdir eða setur fram leiðbeiningar um viðkomandi málefni.

Ég tek undir að það vantar lagaramma til að átta sig sérstaklega á hver réttarstaða fyrirtækja sem eru algerlega í eigu opinberra aðila er, hvort sem um er að ræða fyrirtæki í eigu sveitarfélaga, ríkisins eins eða ríkis og sveitarfélaga. Eins og menn geta glöggvað sig á þá hefur umboðsmaður Alþingis komist að þeirri niðurstöðu að starfsemi, rekstur og ákvarðanataka hjá Landsvirkjun sé alfarið undir áhrifum opinberra aðila í krafti eignarhaldsins. Það er auðvitað útúrsnúningur ef menn hugsa sér að Lína.Net sé að þessu leyti öðruvísi sett en Landsvirkjun.

Í öðru lagi vil ég, vegna þeirra orða sem hér féllu um frumkvæðismál og réttarstöðu afplánunarfanga, minna á það sem hér stendur í skýrslunni. Unnið er að athugun á þeim málum í dómsmrn. og þess er að vænta að frumvörp þess efnis verði lögð fyrir Alþingi, kannski ekki á því þingi sem nú situr, enda er þetta óvenjustutt þing. En ég vil leyfa mér að vænta þess að slíkt frv. geti a.m.k. legið fyrir á hausti komanda og mun gera hæstv. dómsmrh. grein fyrir þeim ummælum sem hér hafa fallið um það efni.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram. Ég vil að gefnu tilefni, vegna orða hv. 3. þm. Vesturl., taka fram að á hausti komanda telji ég rétt að athygli þingmanna sé sérstaklega vakin á því í stafsáætlun hvenær forseti geri grein fyrir skýrslu umboðsmanns Alþingis og skýrslu ríkisendurskoðanda.