Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 12:12:59 (1191)

2002-11-07 12:12:59# 128. lþ. 25.1 fundur 228#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001# (munnl. skýrsla), HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[12:12]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er svona smátt og smátt að skýrast hvað vakir fyrir hv. þm. en gallinn er sá að hann misskilur hlutina gersamlega. Í fyrsta lagi er Síminn ekki alfarið í eigu ríkisins. Þar eiga aðrir hluthafar hlut að máli þannig að það er ekki hægt að líta svo á.

Í öðru lagi er Landssíminn samkeppnisfyrirtæki og starfar á markaði. Það er augljóst að Landssíminn verður t.d. að gefa Samkeppnisstofnun upplýsingar um eitt og annað sem hún telur nauðsynlegt að fá upplýsingar um til að hún geta áttað sig á því hvernig þetta fyrirtæki starfar á markaðnum. Á hinn bóginn hefur Samkeppnisstofnun ekki heimild til þess að velta þeim upplýsingum út í þjóðfélagið eða inn í umræðuna í gegnum fjölmiðla eða með öðrum hætti, þótt Samkeppnisstofnun búi yfir slíkum upplýsingum og sé opinber stofnun.

Jafnframt er ljóst að öðru máli gegnir um fyrirtæki sem eru einokunarfyrirtæki. Auðvitað hlýtur upplýsingskylda slíkra fyrirtækja að vera mun ríkari og óhjákvæmilegt að borgararnir fái að vita hvernig slíkt einokunarfyrirtæki verðleggur sína þjónustu. Þetta ætti öllum að vera alveg ljóst. Það er um það sem málið snýst og einsdæmi að ég hygg í víðri veröld að einokunarfyrirtæki geti synjað eða neitað stjórnarmönnum um upplýsingar. Það er algerlega út í hött fyrir hverja venjulega manneskju að skilja slíkt og ekkert nema valdníðsla. Það vekur auðvitað miklar spurningar og vantrú á fyrirtækinu og grun um að þar sé eitthvað sem þurfi að fela.