Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 12:15:03 (1192)

2002-11-07 12:15:03# 128. lþ. 25.1 fundur 228#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[12:15]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Tvær örstuttar athugasemdir. Ég er ósammála þeirri staðhæfingu hv. þm. Halldórs Blöndals að breyta hafi þurft Landssímanum í hlutafélag til að tryggja þá viðskiptahagsmuni sem um er að tefla í samskiptum Landssímans við erlend símafyrirtæki og gott ef ekki var vísað til Norðurlandanna. Hvað þetta atriði varðar, að nauðsynlegt væri að gera Símann að hlutafélagi til að sveipa um hann einhverjum leyndarhjúp, þá er það sjónarmið sem er á útleið. Það er alls staðar verið að reyna að opna slík fyrirtæki almenningi og hluthöfum, draga þau undan þessari leyndarhulu.

Varðandi hitt atriðið að dómsmrn. sé að bregðast við kröfu umboðsmanns eða ábendingum um réttarfarsbætur í fangelsismálum, þá er það einmitt mergurinn málsins að sá vilji hefur komið fram allar götur frá 1999. Þá tók umboðsmaður þetta upp og hér segir, með leyfi forseta:

,,Ráðuneytið svaraði með bréfi til mín, dags. 16. nóv. 1999, þar sem kom fram að ráðuneytið hefði uppi ráðagerðir um að setja reglur um ákveðin atriði jafnvel þegar á árinu 2000 og gera úrbætur á þeim sviðum sem fyrirspurnir mínar beindust að. Þessi áform ráðuneytisins höfðu ekki gengið eftir þegar ég sendi álitið frá mér.`` Það er haustið 2001. Síðan segir áfram, með leyfi forseta: ,,Í framhaldi af álitinu hef ég síðan bæði bréflega og á fundum leitað eftir viðbrögðum dóms- og kirkjumrn. og Fangelsismálastofnunar og hefur ekki annað komið fram en vilji sé til þess af hálfu þessara aðila að gera nauðsynlegar breytingar í samræmi við þau sjónarmið sem ég setti fram í áliti mínu.``

Með öðrum orðum: Það er engin nýlunda að viljinn sé fyrir hendi en skortur á verkunum.