Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 12:20:21 (1196)

2002-11-07 12:20:21# 128. lþ. 25.1 fundur 228#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001# (munnl. skýrsla), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[12:20]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég vil bara bæta örfáum orðum við það sem hér fór fram áðan, sérstaklega vegna þess að hv. 1. þm. Norðurl. e. hljóp á það lagið að tala um Landssímann eins og hann væri eina fyrirtækið sem þetta mál snerist um sem við höfum verið að ræða. Ég tel að menn ættu að geta orðið sammála um að hlutafélög sem eru alfarið í eigu ríkisins og hlutafélög sem eru alfarið í eigu sveitarfélaga ættu að hafa yfir sér sambærilegar reglur hvað varðar aðgang að upplýsingum almennings að því sem fer fram hjá þeim hlutafélögum. Það kann vel að vera að menn geti skýlt sér bak við það að þegar er búið að selja einhver fáein hlutabréf í slíkum hlutafélögum, þá eigi menn ekki kost á því að fá upplýsingar. Mér finnst það haldlítil rök og það eigi ekki að vera þannig. Mér finnst að þeir sem kaupa hlutafé í slíkum fyrirtækjum eigi að vita af því að þessi fyrirtæki hafi ríka upplýsingaskyldu og að þau lokist ekki gagnvart henni á meðan ríki og sveitarfélög eigi þar stóran meiri hluta og þannig gætu reglur verið.

Ég nefndi áðan að ekki hefðu menn hjá Reykjavíkurborg kosið að fara þá leið sem hæstv. ríkisstjórn hefur farið og þeir sem hafa stjórnað málum hér á Alþingi. Sú leið er í því fólgin að það er einhver tiltekinn ráðherra sem hefur yfir að ráða viðkomandi fyrirtæki sem skipar alla stjórnarmennina þannig að aðkoma einhverra annarra sem hugsanlega hefðu pólitískar ástæður til að gagnrýna það sem gert er í stjórn slíkra fyrirtækja er ekki fyrir hendi í ýmsum tilfellum. Þetta hafa menn sem betur fer ekki gert hjá Reykjavíkurborg. Ég teldi það vera afar slæmt ef menn villtust út á þá braut sem gerst hefur á vegum ríkisstjórnar og Alþingis, að menn skuli hafa valið þann kostinn að hafa enga í stjórn eða láta ráðherra eina véla um það hverjir eigi að sitja í stjórn fyrirtækja. Þeir hafa síðan ítrekað svarað því til hér á Alþingi að þessi fyrirtæki, þó þau séu alfarið í eigu ríkisins, hafi ekki skyldu til að upplýsa þingmenn um hvað fari þar fram. Um þetta snerist málið.

Ég verð að segja að ég tel að þetta hljóti að enda með því að menn fari í það að setja almennar reglur sem gilda um þau sambærilegu tilvik sem ég er að tala um og það verði skýrar reglur sem kveði á um hvar línurnar verði dregnar. Hvenær er fyrirtæki ekki það mikið í eigu almennings, þ.e. með almennum hætti í eigu ríkis eða sveitarfélaga, að það fari þá undan þeirri ríku skyldu sem hér er um að ræða? Það á ekki að gerast þó menn selji eitt hlutabréf. Mér finnst að þeir sem kaupa lítinn hlut í slíkum fyrirtækjum eigi bara að vita af því að þau fyrirtæki hafi ríkar skyldur til upplýsinga. Ég sé ekki að það sé neitt óskaplega erfitt vandamál að leysa þetta en til þess að það leysist þarf að verða stefnubreyting hjá stjórnvöldum í landinu. Ég geri ráð fyrir að þeir geti komist til vits hjá Reykjavíkurborg ef þeir hafa verið að halda einhverju meiru leyndu heldur en eðlilegt er í starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur eða öðrum fyrirtækjum. Þeir munu auðvitað skilja það vel og fara eftir því ef á Alþingi verða sett lög og reglur sem leiðbeina þeim á réttan veg.