Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2001

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 12:25:04 (1197)

2002-11-07 12:25:04# 128. lþ. 25.2 fundur 227#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2001# (munnl. skýrsla), Flm. HBl (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[12:25]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Samkvæmt lögum um starfsemi Ríkisendurskoðunar ber henni að semja skýrslu um störf sín á liðnu almanaksári og leggja fyrir Alþingi. Ársskýrslan fyrir liðið ár var gefin út og birt í maímánuði. Með sama hætti og gert hefur verið á liðnum árum mun ég á eftir gera grein fyrir því helsta úr skýrslunni.

Rekstrarútgjöld Ríkisendurskoðunar að frádregnum tekjum af seldri þjónustu námu alls rúmum 249 millj. kr. á árinu 2001. Til samanburðar er þess að geta að á árinu 2000 námu rekstrarútgjöld 219 millj. kr. Útgjöldin jukust því um 31 millj. kr. eða um 12%. Þegar tekið er tillit til verðlags- og launabreytinga nemur raunhækkun gjalda hins vegar tæplega 14 millj. kr. eða um 6% milli ára. Rekstrarkostnaður á árinu 2001 sundurliðaðist sem hér segir á milli sviða: 67,2% af kostnaðinum átti rætur að rekja til fjárhagsendurskoðunarsviðs, 20,4% til stjórnsýsluendurskoðunarsviðs, 6,6% til yfirstjórnar og loks 6,6% til lagasviðs.

Í árslok 2001 nam eigið fé stofnunarinnar, en það sýnir uppsafnaðan rekstrarárangur hennar gagnvart fjárlögum og fjárheimildum, tæplega 47 millj. kr. og hafði það hækkað um tæplega 21 milljón á milli ára. Hafa ber í huga í þessu sambandi að 28 millj. kr. af óráðstöfuðum fjárheimildum stofnunarinnar eru markaðar til viðbyggingar við Skúlatún 6.

Fastráðnir starfsmenn Ríkisendurskoðunar voru jafnmargir á árinu 2001 og á árinu áður eða 43. Til að leysa af hendi hin víðtæku verkefni, sem stofnuninni ber að lögum að sinna, hefur hún á liðnum árið samið við sjálfstætt starfandi löggilta endurskoðendur um að þeir annist endurskoðun á ársreikningum tiltekinna ríkisaðila. Í lok ársins voru samningar við 13 einkareknar endurskoðunarskrifstofur í gildi. Endurskoðun sem innt er af hendi á grundvelli þessara samninga er unnin í umboði Ríkisendurskoðunar og í samráði við hana. Ef hin samningsbundnu verkefni lúta að endurskoðun reikninga ríkisaðila í A-hluta ríkisreiknings ber Ríkisendurskoðun kostnaðinn af vinnunni, en annars er hann borinn uppi af viðkomandi stofnun eða fyrirtæki. Umfangsmestu verkefnin af þessum toga voru á sínum tíma boðin út í samræmi við lög um opinber innkaup og reglur sem gilda í því efni á Evrópska efnhagssvæðinu.

Alls var lokið við 123 skýrslur á vegum fjárhagsendurskoðunarsviðs en samsvarandi fjöldi fyrir árið 2000 var 105. Endurskoðunarskýrslum fjölgaði því um 18 milli ára eða sem samsvarar um 17%. Áritaðir voru samtals 317 ársreikningar en á árinu 2000 var samsvarandi fjöldi 174. Árituðum ársreikningum fjölgaði því um 143 eða rúmlega 82% milli ára.

Lokið var við 11 skýrslur á vegum stjórnsýslusviðs. Í þeim eru birtar niðurstöður stjórnsýsluúttekta og úttekta á upplýsingakerfum sem lokið var á árinu. Árið 2000 luku starfsmenn sviðsins við samtals sjö skýrslur og nemur fjölgunin milli ára 57%. Þess ber að geta að á hverju ári eru einungis birtar skýrslur vegna þeirra úttekta sem lokið er. Þannig vinna starfsmenn stjórnsýslusviðs jafnan að ýmsum úttektum á hverju ári sem ekki er lokið fyrr en almanaksárið á eftir.

Auk skýrslna og ársreikninga vinna starfsmenn stofnunarinnar jafnan nokkurn fjölda svonefndra greinargerða á hverju ári. Greinargerðir fela í sér umfjöllun um ýmis sértilvik og álitaefni sem tengjast lögbundnum verkefnum stofnunarinnar.

Eins og jafnan áður er mestum hluta þess tíma sem Ríkisendurskoðun hefur til ráðstöfunar á hverju ári varið til hefðbundinnar fjárhagsendurskoðunar hjá stofnunum, fyrirtækjum og sjóðum í eigu ríkisins. Á árinu 2001 var um 65% af heildarfjölda vinnustunda varið til verkefna á sviði fjárhagsendurskoðunar. Rúmlega fjórðungi eða 26% af vinnustundunum var varið til verkefna á vegum stjórnsýslusviðs og 4% til verkefna lagasviðs. Aðrir starfsmenn, þar með talin yfirstjórn stofnunarinnar, skiluðu sem nemur 5% af heildarfjölda vinnustunda á árinu 2001.

Þegar könnuð er skipting vinnuframlags eftir ráðuneytum kemur í ljós að mestum tíma var varið til að endurskoða fjárlagaliði sem heyra undir fjmrn. eða um 28%. Næstmestum tíma var ráðstafað til að endurskoða fjárlagaliði heilbr.- og trmrn. eða rúmlega 21%. Tæplega 11% af heildartímafjölda var ráðstafað til endurskoðunar hjá dóms- og kirkjumrn. og um 10% hjá menntmrn. Til endurskoðunar á fjárlagaliðum sem heyra undir landbrn. var um 5% af tímanum varið og svipaður tími fór í endurskoðun á fjárlagaliðum sem heyra undir samgrn. Samtals 25% tímans var varið til endurskoðunar fjárlagaliða annarra ráðuneyta og yfirstjórnar ríkisins.

[12:30]

Eins og ég gat um áðan var lokið við 123 skýrslur er tengdust fjárhagsendurskoðun hjá stofnunum, fyrirtækjum og sjóðum ríkisins. Þessar skýrslur eru að jafnaði ekki birtar opinberlega en ríkisendurskoðandi lætur í ljósi álit sitt á reikningsskilum einstakra aðila með áritun sinni. Í skýrslu um endurskoðun ríkisreiknings er þó jafnan að finna samandregið yfirlit um alla þá vinnu sem unnin er við fjárhagsendurskoðun á vegum stofnunarinnar. Stjórnsýslusviðið lauk svo sem áður segir við 11 skýrslur á liðnu ári og voru þær allar birtar opinberlega. Eins og oft áður voru nokkrar þeirra gerðar að beiðni eða frumkvæði annarra, svo sem forsætisnefndar Alþingis. Skýrslur af þessum meiði eru jafnan lagðar fyrst fram á Alþingi.

Skýrslur þær sem hér um ræðir fjölluðu um margbreytileg efni, svo sem um ferliverk á sjúkrahúsum, fjárlagaferlið með sérstaka áherslu á útgjaldastýringu, skipulag verkefna og rekstur Landhelgisgæslunnar, samning um hjúkrunarheimili í Sóltúni, feril, fjölda og afgreiðslu skattsvikamála 1997--1999, framkvæmd fjárlaga o.fl. Undir stjórnsýslusviðið heyrir endurskoðun upplýsingakerfa. Sá þáttur starfseminnar beinist að því að kanna virkni og öryggi tölvu- og upplýsingakerfa hjá fyrirtækjum og stofnunum ríkisins með það fyrir augum að ganga úr skugga um að þau uppfylli þær kröfur sem til þeirra eru gerðar og að þau séu í samræmi við lög, reglur og staðla.

Á síðasta ári lauk á vegum sviðins úttekt á tölvukerfum 26 framhaldsskóla. Áður höfðu komið út rit um rafræn viðskipti sem geymir, auk ýmissa upplýsinga um rafræn viðskipti, ýmsan fróðleik um þau öryggisatriði sem ríkisaðilar verða að huga að og þær meginreglur sem þeir verða að fylgja ætli þeir sér að taka upp og stunda rafræn viðskipti. Einnig tók sviðið saman leiðbeiningar um eignaumsýslu í tengslum við hugbúnað og tölvuvélbúnað ríkisstofnana. Þetta þótti nauðsynlegt að gera til að fylgja eftir athugun og skýrslu stofnunarinnar um lögmæti hugbúnaðar hjá ríkisaðilum frá árinu 1999.

Ríkisendurskoðun sinnir ýmsum öðrum verkefnum sem ekki verða heimfærð beint undir endurskoðun. Má í þessu sambandi nefna eftirlit með ríkistekjum, eftirlit með staðfestum sjóðum og sjálfseignarstofnunum, yfirstjórn, námskeið, endurmenntun starfsmanna o.fl. Námskeiðahald í tengslum við endurmenntun starfsmanna var nokkuð umfangsmikið og fjölbreytt í fyrra rétt eins og á liðnum árum. Það fjölþætta hlutverk sem ríkisvaldið hefur í samfélaginu hefur í för með sér að ríkisreksturinn er bæði flókinn og viðamikill. Miðað við þá takmörkuðu fjármuni sem Ríkisendurskoðun hefur til ráðstöfunar er ljóst að á hverju ári kemst stofnunin aðeins yfir að endurskoða hluta þeirrar starfsemi sem undir ríkið heyrir. Fjárhagsendurskoðunarsvið stofnunarinnar setti sér fyrir nokkrum árum það markmið að endurskoða öll viðfangsefni í fjárlögum a.m.k. einu sinni á hverju þriggja ára tímabili. Allar stofnanir utan A-hluta ríkisreiknings eru þó endurskoðaðar á hverju ári sem og stærstu A-hluta stofnanirnar. Þá hefur frá árinu 2000 verið lögð aukin áhersla á gerð ársreikninga fyrir stofnanir og aðra fjárlagaliði og er stefnt að því að allir ársreikningar stofnana í A-hluta verði áritaðir á hverju ári. Stofnunin hefur sett sér það markmið að ársreikningar verði gerðir fyrir allar stofnanir ríkisins innan tveggja ára. Vegna þeirra aðstæðna sem stofnunin býr við er mikilvægt að hún leiti sífellt nýrra leiða til að nýta sem best þá fjármuni sem henni eru skammtaðir. Þetta felur í sér að stofnunin verður ávallt að vera reiðubúin að endurmeta forgangsröð og starfsaðferðir sínar og vera opin fyrir nýjungum í því sambandi.

Á síðustu árum hefur rekstrarumhverfi stofnana og fyrirtækja ríkisins breyst mikið. Tölvuvæðing, aukin menntun starfsmanna og skipulagsbreytingar af ýmsu tagi hafa haft mikil áhrif á alla umsýslu þeirra með fjármuni. Um leið og fjársýsla stofnana hefur að mörgu leyti orðið markvissari og faglegri, t.d. með efldu innra eftirliti, er hún um leið orðin flóknari og vandamálin sem upp koma eru gjarnan erfiðari viðfangs. Þetta þýðir að endurskoðun er að sumu leyti orðin vandasamari en áður og útheimtir annars konar aðferðir en áður tíðkuðust. Í ljósi þessa hefur Ríkisendurskoðun nú boðað nýjar áherslur í fjárhagsendurskoðuninni. Markmið þeirra er að auka gæði endurskoðunarinnar, þ.e. að stuðla að því að eftirlit og aðhald stofnunarinnar verði enn virkara en hingað til, og þar með að bæta nýtingu þeirra fjármuna sem kostað er til starfseminnar. Í grundvallaratriðum felast breytingarnar í tvennu:

Breytt nálgun: Ríkari áhersla verður lögð á að velja markvisst þau viðfangsefni innan stofnana sem tekin eru til skoðunar hverju sinni.

Bætt þjónusta: Áhersla verður lögð á að bæta þjónustu við stofnanir, til að mynda með aukinni ráðgjöf um áhættu og eftirlit.

Nánari grein er gerð fyrir þessum áherslum í ársskýrslunni. Um þessi atriði sem og verkefni og störf stofnunarinnar á árinu 2001 að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til skýrslunnar sjálfrar.

Að lokum vil ég geta þess að á næstunni hefjast framkvæmdir við stækkun húsnæðis í eigu ríkisins að Skúlatúni 6. Ríkisendurskoðun hafa verið tryggð afnot af þriðju og fjórðu hæð hússins, samtals um 300 fermetrar. Umrædd viðbygging mun tengjast núverandi húsnæði stofnunarinnar að Skúlagötu 67. Áformað er að framkvæmdum þessum ljúki um mitt næsta ár. Við þetta mun öll aðstaða starfsmanna batna til mikilla muna. Í hinum nýju salarkynnum mun auk skrifstofuaðstöðu verða mötuneyti svo og bætt funda- og kennsluaðstaða.

Að lokum vil ég fyrir hönd forsætisnefndar, herra forseti, flytja Ríkisendurskoðun og starfsmönnum hennar þakkir fyrir vel unnin störf á því ári sem hér hefur verið fjallað um.