Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2001

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 12:47:48 (1200)

2002-11-07 12:47:48# 128. lþ. 25.2 fundur 227#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2001# (munnl. skýrsla), GE
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[12:47]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Árleg skýrsla Ríkisendurskoðunar er hér til umræðu. Ríkisendurskoðun er sú stofnun sem Alþingi reiðir sig hvað mest á til að fylgja eftirliti fram um reikningsskil og efnahagsstöðu stofnana ríkisins. Það er einnig möguleiki fyrir Alþingi að kalla eftir úttekt á starfsháttum stofnana og ráðuneyta og meðferð á fjármunum og málefnum, að þar sé farið að lögum.

Virðulegur forseti. Ég tel að skilvirkni og/eða verklag hafi breyst mjög til hins betra hjá hinu opinbera með aukinni þekkingu á bókhalds- og eftirlitskerfum og þeim vinnuaðferðum sem Ríkisendurskoðun beitir. Sjálfstæði Ríkisendurskoðunar verður að vera yfir allan vafa hafið, stofnunin þarf að geta fylgt eftir áliti og skýrslum, og þá kem ég að því --- þarf að geta fylgt eftir áliti og skýrslum sem hún gefur út og geta gert athugasemd við það sem ekki er sinnt í kjölfar ábendinga. Þarna er í rauninni komið að hlutverki Alþingis, þegar gerðar eru skýrslur þarf raunverulega að verða ákveðin eftirfylgni. Ég hef áður nefnt það hér í þessum ræðustól og beint til hv. forsn. að tekið sé á því að nefndum, þó að þær geti gert þetta sjálfar, sé falið að fara yfir þau málefni sem snúa að viðkomandi fagnefnd. Ég kem þessu, virðulegi forseti, enn einu sinni á framfæri.

Ég tel að stofnun eins og Ríkisendurskoðun þurfi að gefa umsögn um t.d. fjárlagafrv. sem byggist á athugun á fjárlagatillögum og fjárlagabeiðnum. Þetta er, held ég, dálítið annað en gert hefur verið en ég segi þetta vegna þess að í fjárlagabeiðnum felast oft tillögur sem er hafnað, að mínu mati allt of oft að ógrunduðu máli. Það felst í því að fjárfestingum sem leiða til hagkvæmni eða skilvirkni er hafnað án athugunar.

Virðulegi forseti. Gerð hefur verið skýrsla um fjárlagaferlið sem kemur inn á þessi mál en ekki nákvæmlega á þann hátt sem ég er að tala um, að gerð sé úttekt og samanburður á fjárlagabeiðnum og fjárlagatillögum einmitt í þessu markmiði. Í mínum huga er engum vafa undirorpið að það er auðvitað meiri hluti Alþingis sem tekur allar lokaákvarðanir varðandi fjárlög en með úttekt eins og þeirri sem ég er að nefna gæti legið fyrir álit á t.d. því hvort daggjöld á heilbrigðisstofnunum standast, hvort úthlutun fjármuna standast lög ásamt svo mörgu öðru. Það gæti legið fyrir álit um hvort beiðnir um fjármuni leiði til þess markmiðs sem fylgir sem skýring í hverju tilviki fyrir sig. Þegar fjárlagabeiðnir koma fylgja að sjálfsögðu skýringar og yfir þær þarf að fara í einstökum tilvikum.

Í þessari skýrslu sem við ræðum hérna, sem er virkilega aðgengilegt og vel unnið plagg og til fyrirmyndar, er um að ræða útdrætti úr 5 skýrslum af 123 vegna ársins 2001. Þar koma fram athugasemdir í þá veru sem ég hef lítillega nefnt. Það eru mörg dæmi um aðgerðir í kjölfar ábendinga og úttekta Ríkisendurskoðunar.

Ég vil sérstaklega geta um það að þetta eru ekki bara skýrslur sem lagðar eru fram án athugasemda, heldur er þeim mörgum fylgt mjög ágætlega eftir. Þó held ég að það þurfi að gera betur í því máli, og beini því til virðulegs forseta Alþingis og til hv. forsn. Ég nefni dæmi sem ég man um tollafgreiðslu notaðra bifreiða, þar hafa komið ábendingar sem hafa leitt til upplýsinga um margt sem aflaga hefur farið, t.d. varðandi vörugjöld sem innflytjendur eiga að greiða samkvæmt lögum. Það hefur leitt til aðgerða sem vekur athygli. Ég gæti nefnt fleiri dæmi um vinnubrögð og vinnuaðferðir Ríkisendurskoðunar en tel þess ekki þörf í þessu tilviki.

En ég vil ljúka þessari stuttu umfjöllun um starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar með ósk um farsæld í störfum þeirra 43 starfsmanna sem starfa við vandasöm störf stofnunarinnar í þágu almennings, og ég tek það sérstaklega fram, í þágu almennings á Íslandi.