Verðmætaaukning sjávarfangs

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 13:51:22 (1209)

2002-11-07 13:51:22# 128. lþ. 25.94 fundur 232#B verðmætaaukning sjávarfangs# (umræður utan dagskrár), ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[13:51]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að mér var ekki nokkur vandi á að nálgast þessa skýrslu á heimasíðu ráðuneytisins og prenta hana út. Ég sé ekki að það ætti að vera öðrum mikill vandi sé notaður til þess einfaldlega sá búnaður sem við höfum á skrifstofum okkar.

En það er merkilegt að heyra hér sagt, herra forseti, í umræðu um skýrslu og tillögur nefndar um aukið verðmæti sjávarfangs, samanber orð síðasta ræðumanns, að það beri að skilja eitthvað í skýrslunni þannig að nauðsynlegt sé að breyta stjórnkerfi fiskveiða. Þá verður líka að segjast að málshefjandi spurði sérstaklega eftir því hvort ráðherra mundi beita sér fyrir umræðum um þetta efni vegna þess sem fram kæmi í skýrslunni og vegna þess sem hann sagði, að á þeim tíma sem við hefðum beitt núverandi stjórnkerfi fiskveiða hefði verðmæti sjávarfangs ekki aukist. Ég hygg ég fari nokkuð rétt með þau orð eða þau sjónarmið sem hann orðaði þannig.

Þá verður að geta þess, herra forseti, að einungis á árinu 1991 þegar afli hafði minnkað um á annað hundrað þúsund tonn frá tveimur árum fyrr hafði verðmæti hans aukist um fjórðung í krónum talið. Það var á tíma þessa stjórnkerfis fiskveiða. Allan þann tíma sem stjórnkerfið hefur verið í gildi hefur verðmæti sjávarfangs farið vaxandi og er í dag nær helmingi meira, nær tvöfalt meira en það var fyrir áratug. Það var 75 milljarðar kr. árið 1991, en tíu árum seinna um 130 milljarðar kr.

Þá verður að geta þess, herra forseti, að ég get ekki tekið með jöfnu undir allar tillögur nefndarinnar, þó flestar virðist mjög greinargóðar og verða til þess að færa þetta verkefni fram ef úr verður. Mér finnst einna sérkennilegast að sjá tillögu um nýtt og sérstakt sölufyrirtæki.

Að öðru leyti tek ég undir tillögur nefndarinnar um átaksverkefni og tel að það ætti að verða sjávarútveginum í heild til mikilla framfara.