Verðmætaaukning sjávarfangs

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 13:58:39 (1212)

2002-11-07 13:58:39# 128. lþ. 25.94 fundur 232#B verðmætaaukning sjávarfangs# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[13:58]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á því að kvótakerfið hefur með ákveðnum hætti skilað vissum árangri.

Hv. þm. Jón Bjarnason kom inn á að það sætti undrun í skýrslunni hve mikill flutningur væri á sjávarafla á milli landshluta. Hvers vegna skyldi það nú gerast? Það er vegna þess, hv. þm. Jón Bjarnason, að menn eru farnir að sérhæfa sig frekar í fiskvinnslu en áður var. Við þekktum það að ýmsum tegundum sjávarafurða var hent, en nú hafa margir smáir aðilar í fiskvinnslu tekið upp vinnslu á þeim tegundum og það hefur bætt verulega úr. Ekki eru mörg ár síðan lög voru sett um að í fiskiskipum skyldu vera sérstakir geymslutankar fyrir mjölvinnslu sjávarafurða, eða meltu. Það kom síðar í ljós að ekki var greitt meira fyrir þær sjávarafurðir heldur en það að það borgaði ekki einu sinni þá maurasíu t.d. sem þurfti að nota í þessa tanka vegna meltunnar. Af fleiru er að taka.

Ég tel hins vegar að eðlilegt sé og sjálfsagt að botnrannsóknir verði enn frekar efldar, t.d. á hafsvæðinu frá Reykjaneshrygg að Færeyjum. Margir útgerðarmenn og skipstjórnarmenn kvarta yfir því að enn frekar þurfi að leggja áherslu á að möguleiki sé á því án þess að valda miklu tjóni að reyna nýjar leiðir í veiði botnfisktegunda.

Það er alveg ljóst að skýrslur sem koma fram með þær hugmyndir að einkavæða eigi eða setja sölu sjávarafurða á fárra hendur, er náttúrlega rugl í nútímaþjóðfélagi, það er alveg ljóst. Auðvitað á að gefa þetta frjáls sem mest. Hins vegar hlýtur sú spurning að vakna þegar menn ætla að fara að leggja útgerðinni orð í belg eða stýra henni hvernig með skuli fara, þá lýsi ég megnasta vantrausti á það, vegna þess að það hlýtur að vera útgerðin og fiskvinnslan sjálf sem hlýtur að ráða för og ekki er hún að sóa fjármunum sjávarútvegsins í vitleysu.