Verðmætaaukning sjávarfangs

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 14:01:03 (1213)

2002-11-07 14:01:03# 128. lþ. 25.94 fundur 232#B verðmætaaukning sjávarfangs# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[14:01]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir góðar undirtektir í þessari umræðu. Ég vil byrja á að benda hv. þm. Árna R. Árnasyni á að það kemur fram í texta skýrslunnar að verðmæti sjávarfangs er svipað í dag og fyrir áratug eins og mynd 3.1 sýnir. Þar kemur berlega í ljós að þetta eru u.þ.b. 130 milljarðar. Það er það sem við erum að tala um.

Ég árétta enn og aftur að ég held að skýrslan sé ágæt til að draga athygli okkar að þessum málum. Það kemur t.d. fram að nýting í pillaðri rækju er nú 28--36%. Fram kemur að tveir þriðju aflans fara í afurðir sem eingöngu nýtast í skepnufóður. Þetta er sú lína sem við þurfum að þekkja. 90--99% loðnuaflans hafa farið í fiskmjölsframleiðslu síðasta áratuginn. Árið 2001 fór 81% kolmunnaaflans í mjölvinnslu, en kolmunni er eins og kunnugt er ágætur matfiskur. Við sem stjórnmálamenn við þurfum ekki öðruvísi upplýsingar. Þess vegna held ég að skýrslan sé ágæt.

En það sem ég var að spyrja hæstv. sjútvrh. um hér var hvernig við á hinu háa Alþingi bregðumst við svona samantekt. Það hlýtur að þurfa að gera það á stjórnunarlegum nótum. Þá kemur að endurskoðun á stjórnkerfi fiskveiða, sem er algjört grundvallaratriði ásamt ýmsum öðrum aðgerðum til að beina mönnum í uppbyggingarfasa þar sem hráefni sem hingað til hefur ekki verið nýtt er fyrir hendi. Það er vinnan sem á að fara fram hér á hinu háa Alþingi. Við verðum að opna umræðuna um það því að þar er ekki lítið í húfi. Þó svo að við tökum kannski ekki undir ýtrustu markmið í skýrslunni er alveg ljóst að við eigum möguleika á tugmilljarða verðmætaaukningu ef við stöndum rétt að málum. Þar er stjórnkerfi fiskveiða grunnþáttur.