Verðmætaaukning sjávarfangs

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 14:03:21 (1214)

2002-11-07 14:03:21# 128. lþ. 25.94 fundur 232#B verðmætaaukning sjávarfangs# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[14:03]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Á kosningavetri veit maður aldrei hvers konar viðbrögð maður fær við því sem lagt er fram. Ég verð þó að segja að viðbrögð hv. þingmanna Samfylkingarinnar eru andstæðan við að hafa farið fram úr mínum björtustu vonum. Ég átti aldrei von á svo neikvæðri afstöðu sem hér kom fram. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig stendur á því.

Sjálfur formaður flokksins, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, virðist bara ekki hafa lesið skýrsluna, hvernig sem á því stendur. Ég verð sennilega að afhenda honum áritað eintak persónulega. Hann talar um að ekki sé minnst á uppsjávarfisk og að gera hann að vermætari afurð með því að vinna hann til manneldis. Inn á það er hins vegar komið í kafla 2.3, 2.4, 4.2, 5, 5.1 og 5.5, alls staðar er verið að fjalla um þetta. Sjálfsagt er það á miklu fleiri stöðum í skýrslunni en ég var að telja upp.

Hann vitnar til norskrar skýrslu um svipað efni. Er það eitthvað slæmt að norsk skýrsla skuli komast að svipaðri niðurstöðu? Átti hv. þm. von á því að Norðmenn hefðu aðra möguleika en við, þjóð sem byggir jafnmikið á sjávarútvegi og Norðmenn gera?

Varðandi áhersluna sem fulltrúar Vinstri grænna leggja á fiskveiðistjórnarkerfið þá held ég að það sé rangt hjá þeim. Ég held að kerfið sé grundvöllur þess að við náum árangri en þá verðum við líka að hafa það í huga að mjög stór hluti af þeirri verðmætasköpun sem skýrslan telur möguleika í er í fiskeldi. Það hefur auðvitað mjög lítið með fiskveiðistjórnarkerfið að gera, auk þess líftæknin hefur lítið með fiskveiðistjórnarkerfið að gera.

Ég fagna þessari umræðu, herra forseti, og vonast til að hv. þm. Samfylkingarinnar líti þessa skýrslu bjartari augum í framtíðinni.