Afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 14:06:09 (1215)

2002-11-07 14:06:09# 128. lþ. 25.95 fundur 233#B afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[14:06]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins í dag eru listaverk í eigu Landsbankans og Búnaðarbankans hátt í 1.200 talsins, þar af um 300 í Landsbankanum og á níunda hundrað í Búnaðarbankanum. Alls eru verkin reyndar fleiri, 600 verk eru þannig á skrá hjá Landsbanka Íslands en 300 þeirra eru skilgreind sem verðmæt listaverk.

Haft er eftir Hannesi Sigurðssyni, forstöðumanni Listasafns Akureyrar, að þetta séu örugglega dýrmætustu einkasöfn með íslenskri myndlist síðustu aldar sem til eru. Verðmæti margra verkanna hlaupa á milljónum og líkir forstöðumaðurinn þeim við gullmola.

Áður hefur komið fram að á meðal listaverkanna eru málverk eftir Kjarval, Ásgrím Jónsson, Jón Stefánsson, Erró, Kristján Davíðsson, Louisu Matthíasdóttur, Svavar Guðnason, Þorvald Skúlason og fleiri.

Í fjölmiðlum kemur fram að engin tilraun hafi verið gerð að því er vitað væri til að aðskilja listaverkin öðrum eignum bankanna eins og dæmi eru um þegar stofnunum í ríkiseigu hefur verið breytt í hlutafélög. Það er þó rétt að leggja áherslu á að þótt slíkt hafi verið gert í einhverjum undantekningartilvikum hafa svokallaðir sérfræðingar ríkisstjórnarinnar í einkavæðingarmálum, þeir sem sitja í einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar, sýnt undarlegan sofandahátt við sölu ríkiseigna hvað þetta varðar. Það eru ekki bara listaverk sem þeir láta fylgja með í sölu almannaeigna heldur iðulega aðrar dýrmætar eignir.

Spurningin er hvort um er að ræða gleymsku eða glópsku í þessu tilviki eða hvort þetta sé gert að yfirveguðu ráði og þá hugsanlega í samvinnu og í samráði við ráðherra og ríkisstjórn. Var e.t.v. tekin um það yfirveguð ákvörðun í ríkisstjórn að láta Kjarval, Ásgrím og Jón Stefánsson fylgja með í kaupbæti til að eggja menn til fjárfestinganna og liðka fyrir sölunni? Ég leyfi mér að fullyrða að almennt hafi menn trúað því að ríkisstjórnin mundi passa betur upp á menningararf þjóðarinnar en hér hefur sýnt sig enda þurfti framsóknarmann og stjórnarliða til að láta sér detta í hug að ríkisstjórnin hefði hlunnfarið þjóðina með þessum hætti.

Ég vil beina því til ríkisstjórnarinnar að kanna hvort fyrir því kunni að vera lagastoð á þessu stigi, eins og málum er nú komið, að undanskilja frá sölu á bönkunum þann menningararf sem varðveittur er innan veggja þeirra. Þá vil ég minna á að meiri hluti í stjórn Landsbankans samanstendur af fulltrúum skipuðum af ríkisstjórninni. Sá meiri hluti, hugsanlega í góðri samvinnu við aðra stjórnarmenn, gæti ákveðið að færa Listasafni Íslands málverkin að gjöf eða beita sér fyrir því að stofnaður yrði um verkin sérstakur sjóður. Nýir eigendur eru að koma til sögunnar til að reka bankana, ekki til að annast listaverkavörslu.

Það er þó góðra gjalda vert, og á það vil ég leggja áherslu, að stofnanir og fyrirtæki festi kaup á listaverkum. En það sem hér er um að tefla er verðmætur menningararfur sem er og á að vera í eigu þjóðarinnar allrar. E.t.v. er til of mikils mælst að ætlast til að menn sýni slíkan stórhug. Eitt er þó víst, að ríkisstjórnin hefur sýnt ótrúlegan sofandahátt og ábyrgðarleysi. Hvorki fyrr né síðar hafa setið jafnslakir hagsmunagæslumenn fyrir almenning í Stjórnarráði Íslands. Fróðlegt væri að heyra á hvern hátt hæstv. viðskrh. réttlætir þessi vinnubrögð og hvað ráðherra og ríkisstjórn telur nú til ráða.