Afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 14:16:59 (1219)

2002-11-07 14:16:59# 128. lþ. 25.95 fundur 233#B afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[14:16]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það er kannski ekki að undra þótt menn rjúki upp með andfælum þegar þeim virðist sem hér sé verið að selja dýrmæt listaverkasöfn sem hafa verið í eigu almennings til einstaklinga. Ég á ekki margþætt erindi hingað nema að það getur ekki verið að listaverkasafn Landsbankans hafi verið selt eins og eitthvert ótilgreint fylgifé eins og borð og stólar. Það hlýtur að hafa verið selt eftir að mat hafði farið fram og ég vil fá að vita hverjir framkvæmdu það mat og vil fá nafngreinda þá listfræðinga sem það unnu, og hvað hvert listaverk var metið á því þarna hleypur einstaka listaverk á milljónum króna. Ég efast um að Landsbankinn hafi verið hálfdrættingur á við Búnaðarbanka að þessu leyti. Landsbankinn byrjaði miklu síðar.

Hér voru talin upp af málshefjanda nöfn listamanna hverra verk væri þar að finna, en þá er þess að geta að ég hygg að verk allra listamanna sem nokkru sinni hafa haft sýningu á Íslandi sé þarna að finna, því að þannig skipulagði Landsbankinn til að mynda síðari árin þá starfsemi sína að því leyti.

En sem sagt: Hvernig er þetta metið? Hvernig hyggjast menn meta safn, hið dýrlega safn Búnaðarbanka Íslands? Ég er sannfærður um að okkur verður ekki neitað hér, fulltrúum almennings, um nákvæma vitneskju um þetta stórmál, því hér hleypur ekki á neinum litlum fjárhæðum.