Afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 14:19:14 (1220)

2002-11-07 14:19:14# 128. lþ. 25.95 fundur 233#B afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), DSn
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[14:19]

Drífa Snædal:

Herra forseti. Það er alveg ljóst að það sem vakti fyrir Samson-hópnum við kaup á Landsbankanum var ekki sérstök hagsmunagæsla fyrir almenning. Við kaupin var hópurinn einfaldlega að taka undir og notfæra sér þá stefnu ríkisstjórnarinnar að kaupendur ríkiseigna skuli fá eðlilegan arð úr fyrirtækjum og að þær séu betur komnar í fárra höndum en þjóðarinnar allrar. Ríkisstjórnin er nú vel á veg komin með að framfylgja þeirri stefnu með sölu á ríkiseignum, m.a. með sölu á Landsbankanum.

Nú er ljóst að gríðarleg menningarverðmæti hafa fylgt með í kaupunum og spurning hvernig arðgreiðslum af þeim verði háttað. Felur einkavæðingarstefnan það kannski í sér að ómetanleg listaverk séu betur komin í höndum fárra aðila en þjóðarinnar allrar? Eigum við að setja verðmiða á menningu okkar og selja hana hæstbjóðanda, helst fyrir erlendan gjaldeyri? Getur verið að við séum orðin svo blind í peningahyggjunni að við sjáumst ekki fyrir þegar arfleifð okkar og menningarverðmæti eru annars vegar?

Sala ríkisins á helmingshlut í ómetanlegu listaverkasafni hlýtur að vera vísbending um að þegar krónurnar eru taldar í milljörðum skiptir saga og menning þjóðarinnar litlu máli. Ef fólk er með nógu þrútna vasa af erlendum gjaldeyri þá er allt falt hér í landi.

Það gríðarlega starf sem unnið hefur verið til að bjarga og hlúa að menningu okkar og arfi, fer greinilega fyrir lítið í meðförum einkavæðingarnefndar. Ég skora á hæstv. viðskrh. að bæta fyrir blinda peningahyggju og vinna að því að listaverkum í eigu Landsbankans verði komið fyrir hjá stofnun í almenningseigu sem hefur það að markmiði að allir fái notið þeirrar listar.