Afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 14:27:42 (1224)

2002-11-07 14:27:42# 128. lþ. 25.95 fundur 233#B afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[14:27]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég held að engum dyljist það að hér hafa orðið á mistök, mistök af hálfu þeirra sem stóðu að undirbúningi að hlutafélagavæðingu og sölu bankanna, mistök af hálfu einkavæðingarnefndar og hugsanlega líka mistök af hálfu Ríkisendurskoðunar, sem fer með endurskoðun á fjárreiðum og bókhaldi bankanna. Hvernig ætli þessir hlutir hafi verið færðir til eignar og metnir til fjár?

Ég vil taka undir með hv. þm. Drífu Snædal sem sagði að við værum ekki endilega að tala bara um fjármuni heldur værum við að tala um menningarverðmæti þjóðarinnar. Bankarnir voru einmitt í eigu ríkisins og litu á það sem hluta af hlutverki sínu að styrkja og efla menningu landsins og þess vegna tóku þeir þátt í að kaupa málverk og önnur listaverk.

Fyrir þjóðinni, virðulegi forseti, eru þessi listaverk ekkert hjól undir bíl á bílasölu, eins og hv. þm. Gunnar Birgisson, vildi gefa þessu nafn hér áðan. Drottinn minn dýri!

Herra forseti. Ég held að við ættum að sameinast um og kanna allar leiðir til að ná þessum listaverkum til okkar og inn til þjóðarinnar, vera ekki að gera gælur við það eins og hæstv. ráðherrar að góðir eigendur banka gætu nú haldið sýningu hér og þar. Drottinn minn dýri! Þeir hafa ekkert yfir þessum bönkum að segja eftir að þeir eru seldir.

Ég vil draga athygli að öðru. Ríkið er líka að selja skóla, heimavistarskóla, sem einnig hafa verið menningarstofnanir í gegnum áratugi og jafnvel aldir og hafa líka fengið til sín listaverk, merkilega gripi í sögu þjóðarinnar. (Forseti hringir.) Hvernig er háttað sölu á þeim verkum á heimavistarskólunum t.d. sem búa yfir mörgum listaverkum og miklum menningararfi?