Afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 14:32:14 (1226)

2002-11-07 14:32:14# 128. lþ. 25.95 fundur 233#B afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[14:32]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Í upphafi velti ég því upp hvað hér byggi að baki, hvort það væri glópska, gleymska, sofandaháttur eða hvort tekin hefði verið um það yfirveguð ákvörðun að hafa þessi verðmæti af þjóðinni til þess að gera bankana að fýsilegri söluvöru, að þetta hefði verið gert með opin augu. Að vísu vitum við að þessi ríkisstjórn er harla sljó til augnanna þegar hagsmunir almennings eru annars vegar en gerist mjög fráneygð þegar um er að tefla hagsmuni fjármálamanna og fjárfesta. Þá fyrst vottaði fyrir tilfinningaþunga hjá hæstv. ráðherra þegar hún spurði hvort menn gerðu sér ekki grein fyrir því að hagsmunir nýrra hluthafa væru í húfi, hvort menn ætluðu virkilega að hafa þessar eignir af þeim.

Ég tek undir það sem fram kom hjá hæstv. menntmrh., hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni og fleiri aðilum sem hafa bent á mikilvægi þess að stofnanir og fyrirtæki kaupi listaverk. Ég er ekki að gagnrýna það. Mér finnst það æskilegt og gott. En hér er um allt aðra hluti að ræða. Við erum að tala um drjúgan hluta af menningararfi þjóðarinnar, 1.200 listaverk sem eru metin á mörg hundruð milljónir króna. (Gripið fram í.) Og ef það er rétt að ekki hafi verið lagt fjárhagslegt mat á þessa eign þarf að upplýsa um það.

Ég tek undir þá spurningu sem hér kom frá hv. þm. Sverri Hermannssyni: Var þessi eign metin? Eða varð þarna handvömm? Varð ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum, þeim meiri hluta sem hún styðst við hér á Alþingi, á í messunni? Þetta þarf að upplýsa.