Uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 14:37:03 (1228)

2002-11-07 14:37:03# 128. lþ. 25.4 fundur 34. mál: #A uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs# þál., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[14:37]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Hér mæli ég fyrir till. til þál. um að spornað verði við uppsögnum eða mismunun í starfi vegna aldurs. Þáltill. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna á hvern hátt unnt er með lagasetningu að sporna við því að fólk sé látið gjalda aldurs á vinnustað, hvort heldur er með uppsögnum eða mismunun í starfi. Skipuð verði nefnd þar sem fulltrúar samtaka launafólks eigi aðild auk fulltrúa stjórnmálaflokka á þingi og skili nefndin áliti innan eins árs.``

Það skal tekið fram að þáltill. svipaðs eðlis hefur áður verið lögð fram án þess að hljóta afgreiðslu og er þessi tillaga því endurflutt frá síðasta löggjafarþingi. Ég vil aðeins í örstuttu máli gera grein fyrir henni.

Það er margt sem bendir til þess að það færist í aukana að stjórnendur á vinnustöðum leggi við mannaráðningar áherslu á að ráða fremur ungt fólk til starfa en eldra fólk, jafnvel þótt síðarnefndi hópurinn búi að lengri starfsreynslu. Sums staðar er jafnvel gengið lengra, eldra fólki sagt upp störfum til að rýma fyrir því sem yngra er. Jafnhliða þessari þróun hefur verið losað um ráðningarfestu þar sem hún hefur verið hvað traustust, og þá horfi ég einkum til opinberra starfsmanna. Sumar stofnanir og fyrirtæki hafa jafnvel gengið svo langt að taka þá stefnu upp að segja fólki upp störfum þegar það hefur náð tilteknum aldri, langt innan við þau aldursmörk sem lög og samningar kveða á um.

Það hefur komið fram, m.a. við umræðu um þessa tillögu á fyrri þingum, að ýmsar stofnanir, þar á meðal stofnanir í almannaeign, hafi beinlínis fylgt þessari stefnu. Ásakanir komu upp t.d. í garð stjórnar Póstsins, Íslandspósts á sínum tíma. Ég skal ekkert fullyrða um þetta en þessu var haldið fram, m.a. í mín eyru. Reyndar er það svo með þá stofnun að annað veldur því að fólk þar á bæ missir vinnuna, það er vegna einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar. Hverju útibúi Póstsins á fætur öðru er nú lokað, og ég hef heyrt frá starfsmönnum sem hafa misst vinnu sína, bæði hér á þéttbýlissvæðinu en þó fyrst og fremst úti á landsbyggðinni. Það er meira en að segja það að vera kominn hugsanlega hátt á sextugsaldur og missa vinnuna í mjög fámennu byggðarlagi. Þá er oft ekki í önnur hús að venda, fólk stendur uppi atvinnulaust og svipt réttindum, ávinnslurétti til lífeyris svo dæmi sé tekið.

Það er rétt að benda á í þessu sambandi að þegar lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna var breytt árið 1996 var tekin upp sú nýbreytni að ráða embættismenn aðeins til fimm ára í senn. Þetta á einnig við um heilar starfsstéttir og má þar nefna lögreglumenn, tollverði og fangaverði. Hefur þetta valdið óöryggi hjá eldra fólki, og ekki að ástæðulausu. Það er mikilvægt að fram fari endurskoðun á lögum með það fyrir augum að tryggja stöðu einstaklinga þannig að þeir verði ekki látnir gjalda aldurs síns á vinnustað. Þannig yrðu t.d. mjög veigamikil rök að liggja fyrir fengju þeir launamenn sem starfa samkvæmt framangreindri fimm ára reglu ekki endurráðningu. Mikilvægt er að endurskoðun laganna fari fram í nánu samstarfi við samtök launafólks.

Í þessu sambandi má benda á að Samband íslenskra bankamanna og fleiri samtök hafa lýst þungum áhyggjum yfir því misrétti gegn eldra starfsfólki sem viðgengst á vinnustöðum og segja þau að það færist mjög í vöxt að fólk sé látið gjalda aldurs.

Meðal ábendinga sem fram hafa komið má nefna að Mannréttindaskrifstofa Íslands telur ástæðu til að ítreka grundvallarreglu Sameinuðu þjóðanna um eldra fólk sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti árið 1991. Þar kemur m.a. fram að eldra fólk eigi að hafa um það að segja hvenær og á hvern hátt starfslok verða. Nú bendir margt til þess að gerðar verði breytingar á lögum sem snerta þessi málefni í kjölfar þess að nefnd sem starfaði á vegum forsrn. um sveigjanleg starfslok skilaði áliti en þar er lagt til að í stað þess að skylda fólk sem starfar hjá hinu opinbera til að ljúka starfi við 70 ára aldur verði heimilað að fólk starfi lengur, eða til 72 ára aldurs, en einnig verði settur meiri sveigjanleiki inn í þau lög og reglur sem gilda um lífeyrissjóðina hvað þetta varðar.

Í umsögnum sem Alþingi hafa borist vegna þessa máls hafa almennt komið fram mjög jákvæð viðbrögð og er hvatt til þess að málið fái framgang. Á meðal þeirra sem tekið hafa undir efni þáltill. má nefna Landssamband eldri borgara, Mannréttindaskrifstofu Íslands, BHM, BSRB, þjóðkirkjuna, Eyþing, Öryrkjabandalag Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Það er athyglisvert hins vegar að finna gagnrýnisraddirnar og varnaðarorð sem uppi hafa verið. Þannig segir í umsögn Samtaka atvinnulífsins, með leyfi forseta:

,,Löggjöf eins og hér er gerð tillaga um skapar hins vegar fleiri vandamál en henni er ætlað að leysa. Hún er eingöngu til þess fallin að skerða snerpu og viðbragðsflýti fyrirtækja og dregur þannig úr samkeppnishæfni þeirra og þá jafnframt atvinnumöguleikum starfsmanna.``

Ég tel að þetta sjónarmið eigi ekki við rök að styðjast. Þvert á móti hafa komið fram sterkar vísbendingar um að æskudýrkun sem svo hefur verið nefnd geti komið fyrirtækjum í koll og beinlínis orðið til þess að veikja stöðu þeirra. Við eigum ekki að gera lítið úr reynslu fólks á vinnustað.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það getur verið erfitt að finna með hvaða hætti markmið þessarar þáltill. eru tryggð, hvernig réttur eldra fólks er tryggður á vinnustöðum. Ég hef hér bent á ýmsar leiðir sem megi fara í því efni og tiltók þar sérstaklega þær starfsstéttir sem nú búa við fimm ára skipunartíma, fangaverði, lögreglumenn og tollverði, að því aðeins sé heimilt að segja starfsmönnum upp að fyrir því liggi gildar, rökstuddar ástæður. Tillagan gengur hins vegar út á það að skipuð verði nefnd, að henni komi hagsmunaaðilar, fulltrúar samtaka launafólks og atvinnurekenda, auk fulltrúa stjórnmálaflokka og setjist yfir þessi mál. Nefndin skili áliti innan eins árs.

Herra forseti. Ég legg til að þessari þáltill. verði vísað til umfjöllunar í félmn.