Uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 14:47:24 (1230)

2002-11-07 14:47:24# 128. lþ. 25.4 fundur 34. mál: #A uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs# þál., KVM
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[14:47]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Mig langar að leggja til nokkur orð í umræðuna. Ég tel þessa þáltill. góða. Hún vekur okkur til umhugsunar um hvernig litið er á fólk, oft eftir aldri og einnig kyni. Ég veit til þess að fólk sem hefur misst vinnu sína sem komið hefur verið á miðjan aldur hefur átt mjög erfitt með að fá vinnu aftur vegna aldursins. Það er mjög dapurlegt til þess að vita að fólk sem býr yfir mjög góðri reynslu og margháttaðri færni skuli ekki fá vinnu þegar það sækir um störf vegna þess að það sé talið of gamalt.

Það er mjög ánægjulegt þegar ungt fólk kemur út á vinnumarkaðinn, fær vinnu og býr við atvinnuöryggi. Því er þó reyndar ekki að heilsa í dag. Ég veit að það er orðið dálítið erfitt um vik hjá iðnaðarmönnum á þessu svæði hér en það er önnur saga. Það er gott þegar ungt fólk fær vinnu og þarf ekki að vera atvinnulaust. Hins vegar þarf líka að hugsa um það þegar fólk á miðjum aldri hættir störfum af einhverjum sökum, er sagt upp eða vill fá nýja vinnu og sækir um hana, en aldurinn er látinn ráða því að viðkomandi verði atvinnuleysingi.

Við þurfum líka að íhuga það, herra forseti. Það er svo sem líka til umræðu í samfélaginu, að fólk er farið að verða eldra. Við skulum vona að meðalaldurinn lækki ekki. Fólk í kringum sjötugt er gjarnan alveg í fullu fjöri. Öll okkar hér á þinginu þekkja dæmi um slíkt eins og aðrir í samfélaginu. Fólk sem er komið yfir sjötugt hefur margt gott starfsþrek og getur lagt margt gott til málanna með reynslu sinni og þekkingu.

Þess vegna tek ég undir orð hv. þm. sem jafnframt er formaður BSRB. Ég hygg að reynsla hans sem slíks sé ein af ástæðum þess að þetta mál er fram komið. Það er reyndar mjög alvarlegt ef þessi stefna er farin að eiga sér stað hjá ríkinu, að ríkið sjálft og sveitarfélög eru jafnvel farin að iðka þá stefnu að fólk fái ekki atvinnu vegna þess að það er talið of gamalt um fimmtugt. Ég tel það mjög alvarlegt mál.