Uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 14:51:04 (1231)

2002-11-07 14:51:04# 128. lþ. 25.4 fundur 34. mál: #A uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs# þál., Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[14:51]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég kem fyrst og fremst í pontu til að þakka fyrir jákvæðar undirtektir við þessu þingmáli sem, eins og fram kom áður í máli mínu, hefur áður verið flutt.

Eru þetta bara ekki orð? kann einhver að segja. Eru þetta ekki bara innihaldslaus orð? Nei. Þetta eru ekki innihaldslaus orð. Þetta eru hins vegar orð og umræða og ég tel að umræða um þessi mál skipti máli, að við séum vakandi fyrir þessu vandamáli. Ég tel mikilvægt að við reynum að uppræta hvers kyns bábyljur og fordóma. Ég neita því ekki að mig rak í rogastans þegar ég sá greinargerð frá samtökum atvinnurekenda á sínum tíma, Samtökum atvinnulífsins, þar sem segir, með leyfi forseta, og ég endurtek það:

,,Löggjöf eins og hér er gerð tillaga um skapar hins vegar fleiri vandamál en henni er ætlað að leysa. Hún er eingöngu til þess fallin að skerða snerpu og viðbragðsflýti fyrirtækja og dregur þannig úr samkeppnishæfni þeirra og þá jafnframt atvinnumöguleikum starfsmanna.``

Þetta finnast mér vera fordómar. Bábiljur og fordómar. Með umræðu má uppræta og útrýma fordómum og bábiljum. Ég tel mikilvægt að um þessi mál sé rætt. Til þess er stofnað til þessarar umræðu en ég er einnig sannfærður um að hægt sé að styrkja réttarstöðu eldra fólks, bæði í kjarasamningum og í lögum og reglum sem gilda á vinnumarkaði.