Rannsóknir á þorskeldi

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 14:53:23 (1232)

2002-11-07 14:53:23# 128. lþ. 25.5 fundur 35. mál: #A rannsóknir á þorskeldi# þál., Flm. KVM (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[14:53]

Flm. (Karl V. Matthíasson):

Herra forseti. Ég fylgi hér úr hlaði svohljóðandi till. til þál. um rannsóknir á þorskeldi sem ég flyt ásamt hv. þm. Kristjáni L. Möller, Gísla S. Einarssyni, Svanfríði Jónasdóttur, Össuri Skarphéðinssyni, Einari Má Sigurðarsyni og Þórunni Sveinbjarnardóttur:

,,Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að hlutast til um að skipulegar rannsóknir á þorskeldi frá klaki til slátrunar verði stórauknar, svo og að fjarða- og kvíaeldi á þorski verði eflt og stutt, með það að markmiði að Íslendingar geti framleitt eldisþorsk til útflutnings innan fárra ára.``

Þannig hljóðar þessi þáltill. Í greinargerðinni segir m.a., herra forseti:

Á Íslandi hefur ekki verið mótuð nein stefna varðandi eldi á þorski eða þorskseiðum.

Mikill vöxtur hefur orðið í öllu eldi á heimsvísu og samkvæmt Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna er fiskeldi sú grein matvælaiðnaðarins sem vex hraðast. Þess má geta að fiskeldi annaði heildaraukningu á fiskneyslu heimsins 1990--1997 og þannig er þetta áfram því að fiskeldi fer sívaxandi.

Það er náttúrlega mikil fólksfjölgun í heiminum. Þá þarf meiri mat. Því eykst fiskeldi í heiminum einnig, einfaldlega vegna aukins mannfjölda.

Við lifum að mestu leyti á því, herra forseti, að veiða fisk, vinna fisk og selja hann. Við höfum orðið áþreifanlega vör við að aflaheimildir hafa minnkað. Fiskveiðiheimildir hafa verið skornar töluvert niður, um tugi og jafnvel hundruð þúsunda tonna. Það dregur náttúrlega úr tekjum okkar. Það er líka ástæðan fyrir því að þáltill. er komin fram, að við getum mætt áföllum með því að vera með fiskeldi.

Þá má nefna aðra ástæðu, þ.e. að margir eru farnir að tala gegn því að fiskur sé veiddur í höfunum. Það má vera að við verðum vör við mótmæli gegn veiðum á þorski og öðrum fisktegundum. Ég ætla samt að vona að það verði ekki, herra forseti, en engu að síður ber að hafa þetta í huga í umræðunni. Það getur verið að eldisþorskur og eldisfiskur verði sú vara sem fremur njóti velþóknunar, að menn borði hann frekar fisk sem tekinn er úr náttúrunni. Reyndar er þetta nú allt mjög mótsagnakennt. Hvernig á að ala fiskinn í kvíunum? Auðvitað þarf að veiða loðnu, síld og aðra fiska til þess en engu að síður er þetta svona. Reyndar hef ég heyrt, herra forseti, að það sé verið að reyna að þróa fóður sem að miklu leyti sé unnið úr jurtaríkinu til að fæða þennan fisk. Það er nokkuð merkilegt.

Herra forseti. Þess er getið í þáltill. að rannsóknir fari fram á þorskeldi frá klaki til slátrunar og einnig á fjarða- og kvíaeldi. Eldisaðferðir eru í raun og veru þrenns konar. Hér ætla ég að leyfa mér að lesa, hæstv. forseti, úr blaði sem heitir Veiðar og áframeldi á þorski. Ritstjórar þess eru Valdimar Ingi Gunnarsson, Björn Björnsson, Einar Hreinsson, Gísli Jónsson, Hjalti Karlsson, Jón Árnason, Jón Þórðarson og Óttar Már Ingvarsson. Þeir hafa ritstýrt blaði um veiðar og áframeldi á þorski. Á bls. 3 í þessu ágæta blaði segir um eldisaðferðir, með leyfi forseta:

,,Í fyrsta lagi er hægt að fanga þorsk á veiðislóð og ala hann í sjókvíum til lengri eða skemmri tíma eftir aðstæðum. Í öðru lagi er hægt að fanga að hausti undirmálsfisk, þ.e. smáfisk, smáþorsk eða jafnvel seiði, og færa í strandeldisstöð. Fiskurinn er alinn þar yfir vetrarmánuðina fram til næsta vors og er þá fluttur í sjókvíar og fóðraður þar til markaðsstærð er náð. Þriðja leiðin er að klekja út þorsklirfum í sérstökum seiðaeldisstöðvum og ala síðan seiðin í strandeldi þar til þau ná stærð og þroska til dvalar í sjókvíum.``

Ég tel, herra forseti, að þróunin hafi verið mjög hæg í þessu. Árið 1993 fékkst eitt tonn af eldisþorski, árið 1994 45 tonn, árið 1995 35 tonn. Það minnkar þarna á milli ára. Afraksturinn vex svo aftur um tvö tonn 1996 þá er hann orðin 37 tonn, og 1997 fjölgar þeim um eitt. Árið 2000 eru þau 11, detta þar alveg niður, en á síðasta ári voru þetta 70 tonn. Það er vegna þess að áhuginn og umræðan hefur aukist mikið.

[15:00]

Sú þáltill. sem hér er fram borin er í rauninni flutt í þriðja sinn og hefur ekki fengið framgang í þinginu og þess vegna er hún enn flutt. Hún er jafnframt mjög gott innlegg í umræðuna, að fólk hugsi um þetta og velti fyrir sér möguleikunum í fiskeldinu.

Þeir menn sem eru ritstjórar þessa ágæta fræðirits, sem er reyndar ekki mjög stórt í sniðum en engu að síður mjög gott og væntanlega fyrsta svona rit sem gefið er út á Íslandi og er þannig að mörgu leyti sögulegt, leggja líka áherslu á að við gætum okkar og vöðum ekki alveg algjörlega á fullu og lendum í sömu vandamálum og við lentum í í sambandi við laxeldið á sínum tíma. Margir hafa sýnt því áhuga að vera með þorskeldi og brautryðjendur eru nú nokkrir. Ég leyfi mér að nefna Magnús Guðmundsson í Tungu í Tálknafirði, sem hefur verið mjög ötull og duglegur í því starfi og hefur verið ánægjulegt að sjá hjá fyrirtækinu Þórsbergi þar hversu vel þetta gengur. Þeir hafa líka verið í samráði við Hafrannsóknastofnun.

Skoðun mín er sú, herra forseti, að við ættum að bretta betur upp ermarnar, því að nágrannaþjóðir okkar sem eru í samkeppni við okkur og eru að selja fisk, eru komnar alveg á fullt í þessu máli. Í Noregi eru t.d. 20 strandeldisstöðvar sem eru eiginlega komnar á laggirnar. Þar eru tvær seiðastöðvar þar sem hvor ætlar sér að framleiða 10 milljónir seiða, sem gerir það að verkum að væntanlega munu um 60 þús. tonn koma út úr því. Og ef við hugsum út í það, herra forseti, þá sjáum við hve 60 þús. tonn af þorski, bara út úr þessu, er orðinn stór hluti af allri þorskframleiðslu okkar.

Ég ber mikla virðingu fyrir því starfi sem Hafrannsóknastofnun hefur verið að vinna, en allir sem ég hef rætt við á þessu sviði eru sammála því að setja mætti meira fjármagn í þetta þannig að það stuðli að hraðari þróun í þessu máli.

Ég nefndi Noreg, en Nýfundnaland og Austur-Kanada eru komin með mjög góðar rannsóknir líka, eru komin töluvert á veg í þorskeldi sínu. Okkur er því ekki til setunnar boðið. Þess vegna er þessi þáltill. nú lögð fram.

Ég leyfi mér í þessu sambandi, herra forseti, að minna einnig á þáltill. sem lögð hefur verið fram í þinginu af hv. þm. Vestf., Norðurl. v. og Vesturl. þar sem talað er um miðstöð atferlis- og eldisrannsókna á þorski. Þar er 1. flm. hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. Þar er einmitt verið að tala um --- þetta er svona hliðstætt og ber að þakka fyrir þá þáltill. líka --- að fela ríkisstjórninni að setja á laggirnar miðstöð atferlis- og eldisrannsókna á þorski á Vestfjörðum. Og það er ekkert óeðlilegt að þessi þáltill. komi fram því þar eru nokkrir brautryðjendur og eru nokkrar stöðvar komnar, í Álftafirðinum og við Skutulsfjörðinn og svo náttúrlega á Nauteyri. Þar voru menn að þreifa sig áfram með seiði sem komu frá Hafró í Grindavík. Það er því fullkomin ástæða til að gefa hinni ágætu þáltill. þeirra ágætu þingmanna fullan gaum líka og vona ég að þessar tillögur verði báðar samþykktar, sem eru systur ef svo má að orði komast.

Herra forseti. Við ræðum hér annan hvern dag um byggðamál og hvernig betur mætti vera búið að byggðum landsins með ýmsum aðgerðum sem auðvelt er að gera, eins og t.d. að styðja við það að byggja skólakerfið betur upp, framhaldsskólana og annað sem líka var rætt í þinginu í gær. Hér er mál sem er mjög mikið og gott byggðamál. Við skulum taka sem dæmi venjulegt sjávarpláss sem hefur aflaheimildir. Skipin þar veiða og þar eru duglegir sjómenn og allt það, en einn góðan veðurdag gæti það gerst, af því að fiskveiðistjórnarkerfi okkar er þannig háttað í dag enn sem komið er en vonandi verður því nú breytt, að þau byggðarlög gætu bara misst kvótann. En hugsum okkur ef viðkomandi byggðarlag væri með þorskeldi, það er ekkert hægt að fara með það í burtu og vinna fólksins verður þá tryggari og betri, auk þess sem hægt er með þorskeldi að stýra betur stærðinni á fiskinum sem mundi henta hverjum markaði. Þetta er allt mjög jákvætt sem hlýst af því að vera með gott og öflugt þorskeldi.

Sú viðleitni sem verið hefur er mjög virðingarverð, ég vil taka það fram, ég vil ekki vera með neina neikvæðni út í það en það er skoðun mín, herra forseti, og ég held ég sé að segja algjörlega satt með því að segja að allir þeir sem ég hef talað við og eru í þessari grein eru hlynntir því að sett verði meira fjármagn í þetta. Í þessu sambandi hefur auðlindagjaldið verið nefnt. Því ekki að nota það til að efla greinina og styrkja? Og síðan þegar hún er orðin sterk og öflug þá gæti sú grein farið að gefa af sér fjármagn út í aðrar greinar, iðnað eða eitthvað annað sem tengist þessu öllu saman eða jafnvel eitthvað óskylt. Þetta er því mjög mikið þjóðþrifamál að minni hyggju, og ég vona, herra forseti, að þáltill. verði samþykkt einróma í hv. Alþingi.