Rannsóknir á þorskeldi

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 15:30:07 (1238)

2002-11-07 15:30:07# 128. lþ. 25.5 fundur 35. mál: #A rannsóknir á þorskeldi# þál., GE
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[15:30]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Sem meðflutningsmaður þessarar þáltill. sem við ræðum hér um, um þorskeldi, hvet ég til að hún hljóti afgreiðslu sem fyrst. Ég hvet til þess að tillaga hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, Sigríðar Ingvarsdóttur, Einars Odds Kristjánssonar, Vilhjálms Egilssonar, Helgu Guðrúnar Jónasdóttur og Guðjóns Guðmundssonar hljóti afgreiðslu samtímis. Ég tel að þessar tillögur eigi samleið og eigi að vera samferða.

Ástæðan fyrir áherslu minni á að fara þessa leið er að rannsóknir á þorskeldi verða að aukast. Fóður, sjúkdómar, umhverfi, kynþroski þorsks við eldisskilyrði, svo eitthvað sé nefnt, allt þetta þarf að skoða. Rannsóknir á réttu umhverfi fyrir eldið við Ísland eru of litlar. Þessi atriði, til viðbótar því sem ég áður hef nefnt, eru hvatning til að þessi tillaga verði samþykkt og orðum fylgt með athöfnum. Við þurfum að auka kraftinn í þessu málum til að verða ekki eftirbátar annarra þjóða.

Herra forseti. Til viðbótar því sem hér er sagt þyrfti í raun að gefa heimild til áframeldis á meðafla í rannsóknaskyni, án þess að sá meðafli teljist til kvóta. Slíkar heimildir gerðu það einnig að verkum að menn fengju vísbendingu um raunverulegt aflamagn, væri frjálst að taka meðafla til áframeldis. Það þarf ekki endilega að vera þorskur.

Í raun ber það sem er í tillögunum sem ég hef nefnt, tillögu sem hv. þm. Karl V. Matthíasson er 1. flm. að og tillögu þar sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er 1. flm., allt að sama brunni. Möguleikarnir eru góðir en þorskeldið er samt langt frá því að vera í hendi. Þess vegna þarf skipulegt rannsóknastarf og öflugt frumkvæði einstaklinga ásamt því sem sem hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson nefndi hér áðan, þ.e. þolinmótt fjármagn. Þetta þarf að að fara saman svo vel takist til, svo þessar þáltill. nái í raun fram að ganga.

Það er ljóst að rannsóknir eru of takmarkaðar. Menn vita um yfir 100 tegundir af sníkjudýra í þorski. Hér á landi hafa fundist tugir sníkjudýra og menn kunna ekki alveg að bregðast við slíku. Menn þekkja heldur ekki hvað þrífst við þorskeldið.

Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja um þáltill. frekar en legg þó sérstaka áherslu á að ástæða sé til að þessi tvö mál fari sameiginlega til afgreiðslu hjá hv. sjútvn.