Rannsóknir á þorskeldi

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 15:40:20 (1240)

2002-11-07 15:40:20# 128. lþ. 25.5 fundur 35. mál: #A rannsóknir á þorskeldi# þál., Flm. KVM
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[15:40]

Flm. (Karl V. Matthíasson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Bjarnasyni, Gísla S. Einarssyni, Árna Steinari Jóhannssyni og Sigríði Ingvarsdóttur fyrir að taka þátt í þessari umræðu og fyrir þann áhuga sem fram hefur komið í máli þeirra. Það gleður mig að svo skuli vera. Við erum greinilega öll sammála í þessu máli um hversu miklir möguleikar geta verið fólgnir í þorskeldi ásamt öðru fiskeldi sem hér hefur verið talað um.

Hér er talað um þorskeldi og þessi þáltill. kemur eðlilega fram vegna þess að þorskur er sá fiskur sem við seljum mest af. Við erum að vinna mest af þorski og það er til nokkuð góð og mikil þekking á að markaðssetja þorskinn. Við höfum markaði fyrir hann og gætum útvíkkað okkur með aukinn afla. Staða okkar ætti að vera betri með þorskinn en kannski aðrar fisktegundir, sem gæti jafnvel verið auðveldara að ala, út af því að við höfum svo sterka markaðsstöðu í sambandi við þorskinn.

Það var hér umræða áðan út frá skýrslunni um hvað hægt væri að gera til að auka verðmæti sjávarafla og sjávarfangs. Hv. þm. Pétur Bjarnason minntist á að hentugra gæti verið að vera með eldið við Suðurland þar sem sjórinn væri hlýrri. Það má alls ekki skilja orð mín svo að ég sé mótfallinn því á nokkurn hátt að stundað sé fiskeldi eða þorskeldi við suðurströndina. Ég er mjög ánægður yfir því framtaki sem ætlunin er að leggja í í Vestmannaeyjum, þar sem eru stór og mikil áform sem ég vona svo sannarlega að gangi vel. Þar á að hrinda af stað seiðaframleiðslu. Ég vona að það gangi vel.

Margir eru farnir að horfa á þetta sem atvinnugrein og möguleika fyrir sig og því er mikilvægt að það sé samstarf í landinu um þetta, alveg eins og það er samstarf á milli frystihúsa og sjávarútvegsfyrirtækja um ýmislegt. Þó að menn séu í samkeppni þá er nauðsynlegt, herra forseti, að þeir sem koma að þessari grein séu samvinnufúsir hver við annan og loki sig ekki af með þekkingu sinni.

Það var því afar jákvætt þegar haldin var ráðstefna helgina 17. október þar sem margir aðilar sem hafa áhuga fyrir þorskeldi komu saman í Reykholti. Þar voru settir af stað starfshópar og voru flutt erindi um þetta. Síðan er verið að vinna niðurstöðu þessa ágæta fundar en þar kom margt fram. Mér skilst og ég veit að Valdimar Ingi Gunnarsson hefur haldið utan um það. Það er búið að gera drög að því hver séu helstu viðfangsefni í rannsóknar- og þróunarvinnu fram undan í sambandi við þorskeldið.

Þegar talað er um veiðar, í fyrsta lagi á þorski til áframeldis, þarf að rannsaka betur útbreiðslu og lífshætti núll til þriggja ára þorsks. Það leiðir hugann að þorskseiðunum og eins og kom fram í ræðu hv. þm. Sigríðar Ingvarsdóttur, ef ég man rétt, frekar en hv. þm. Péturs Bjarnasonar, hefur Hraðfrystihúsið Gunnvör verið að veiða mjög lítil þorskseiði og koma þeim í áframeldi. Þá er náttúran búin að sjá um klakið en engu að síður þarf að rannsaka hver útbreiðslan er á þessum seiðum. Ég tala nú ekki um þegar fullyrt er að margir þorskstofnar séu við landið.

[15:45]

Síðan þarf að veita vísindalega ráðgjöf um umfang og áhrif seiðaveiða til eldis --- þetta er eitt af því sem bent er á líka --- og rannsaka áhrif veiðitækni og umhverfisþátta á lifun og svo eru það veiðarfærarannsóknir, hönnun og þróun. Hvernig veiðarfæri eigum við að nota til að veiða svona lítil seiði, herra forseti? Þau eru náttúrlega allt öðruvísi en trollin í stóru togurunum fyrir norðan sem eru mjög góð veiðiskip sumir hverjir. Svo er spurning hvernig er best að flytja þennan fisk.

Í sambandi við seiðaeldið þarf að rannsaka frekar eldi á klakfiski, seiðaframleiðslunni og stórseiðaeldi frá 10 grömmum og upp í 300 grömm. Þarna vantar líka auknar rannsóknir. Hv. þm. Sigríður Ingvarsdóttir vék að kynbótununum sem líka þarf að huga að, þ.e. kynbótum á þorski. Eigum við að blanda saman stofnum og reyna að ná fram ákveðnum þáttum? Hérna eru gríðarleg verkefni fram undan.

Í hrossarækt er verið að reyna að rækta upp hross sem eru fljót að hlaupa, hafa ákveðna eiginleika og vöxt. Ég er nú ekki mikill hestamaður. Auðvitað er hægt að gera þetta í fiskeldinu líka. En þetta þarf að rannsaka líka.

Í sambandi við matfiskeldið þá þarf að huga að afföllum í sjókvíum og hönnun og prófun á sjókvíum. Hvernig sjókvíar eru bestar? Hvaða möguleikar eru á að hafa sjókvíar sem bestar? Það er talað um ljósastýringu --- er það unnt? --- til að draga úr kynþroska því hann getur verið ákveðið vandamál í fiskeldi eins og sagt var í sambandi við laxinn og ekki síst bleikjuna. Og svo er það fóðrunarbúnaðurinn.

Svo eru það náttúrlega umhverfismálin í sambandi við sjúkdóma og margt annað. Hvernig koma þörungar inn í þetta? Geta eitraðir þörungar komið upp drepið allt á svipstundu í stórum kvíum? Allt þetta þarf að rannsaka, herra forseti, og efla því við erum bara í raun að stíga fyrstu skrefin í þessari atvinnugrein.

Fóðurrannsóknir þarf náttúrlega að stunda. Stöðugleiki umhverfis er nefndur hérna líka og streituálag fisksins, ónæmiskerfi fisksins einnig og rannsóknir á eiginleikum skilgreindra sjúkdómavalda og áhrifum einstakra sýkiþátta á þorski.

Svo kemur í sambandi við slátrunina gæðastjórnun og slátrun og vinnsla. Hvernig er með kælinguna? Það þarf að kanna áhrif á sveltitíma. Hv. þm. Sigríður Ingvarsdóttir talaði einmitt um það. Í Tálknafirði hefur fiskurinn væntanlega verið sveltur til að lifrin sé ekki eins stór og fiskurinn ekki eins feitur, allt of feitur, og líka til að flökin haldi sér betur, séu ekki laus í sér og trosni, ef svo má að orði komast.

Hægt er að kanna sníkjudýr í eldisþorski og margt annað, herra forseti, markaðsmál og fleira.

Ég er sem sagt ánægður yfir þeim áhuga sem hefur verið og vaxið í landinu fyrir þorskeldi frá þeim tíma sem þessi þáltill. kom fyrst fram, en það var fyrir þremur árum. Það hefur verið mjög ánægjulegt að sjá greinina þróast og vaxandi áhuga. Það er líka mjög ánægjulegt að umræðan er leidd nokkuð vel af góðu fólki sem varar við því að við önum út í einhverja vitleysu í græðgi og fljótheitum og ætlum að fá allt sem fyrst.

Herra forseti. Hér hefur verið talað um þorskeldi á Vestfjörðum og nokkur gaumur verið gefinn að því og er það nú ekki síst vegna þess að þar eru frumkvöðlar. En Austfirðingar voru líka nefndir og það er svo sem ánægjulegt að segja frá því í ræðustóli hv. Alþingis að í Morgunblaðinu er einmitt frétt frá því í dag þar sem segir að slátrun á eldisþorski hafi hafist í morgun á Eskifirði. ,,Slátrun á eldisþorski á Eskifirði hófst í morgun``, segir, með leyfi forseta, í þessari frétt. Hraðfrystihús Eskifjarðar hefur staðið fyrir þessu tilraunaeldi frá því í fyrravetur. Víða er því verið að vinna. Áætlað er að slátrað verði 7--12 tonnum að þessu sinni og þarna eru 55 tonn í kvíum.

Herra forseti. Þetta er, að ég held, þorskur í áframeldi en ekki alin seiði, enda hafa seiði frá Hafró farið bara á tvo staði, að Nauteyri og til ÚA á Akureyri og þau seiði eru nýkomin út í sjókvíar að því er ég best veit.

Ýmislegt er sem sagt að gerast. En ég legg áherslu á það hér að þó að ýmislegt sé að gerast þá eigum við ekki að líta á þorskeldi sem einhverja smáhliðargrein í sjávarútveginum. Við eigum að líta á þorskeldi og reyndar fiskeldi sem atvinnugrein framtíðarinnar á Íslandi. Því mæli ég með því, herra forseti, að þessari þáltill. verði vísað til hæstv. sjútvn. og vona að hún fái þar góða og jákvæða umfjöllun, enda veit ég að hv. formaður sjútvn., Einar K. Guðfinnsson, mun örugglega styðja þetta mál.