Meðferð einkamála

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 15:55:00 (1243)

2002-11-07 15:55:00# 128. lþ. 25.6 fundur 36. mál: #A meðferð einkamála# (málskostnaður) frv., 37. mál: #A greiðsla ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota# (umsóknarfrestur) frv., Flm. GE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[15:55]

Flm. (Gísli S. Einarsson):

Virðulegur forseti. Þau mál sem hér eru lögð fram til umræðu eru frv. til laga. Hvort tveggja málið varðar einstaklinga og réttindabaráttu einstaklinga við ríkjandi lagaumhverfi og er nauðsynlegt í báðum tilvikum að breyta lögum vegna þess að ekki er nægjanleg rýmd í lögunum til þess að sé hægt að rétta hlut fjölmargra einstaklinga í hliðstæðum málum.

Í fyrra frv., 36. máli, er um það að ræða að við 130. gr. laga um einkamál bætist ný málsgrein sem orðast svo:

,,Látist maður sem dæmdur hefur verið til greiðslu málskostnaðar eða hafi hann verið úrskurðaður gjaldþrota eftir að dómur gengur í máli hans og eignir dánar- eða þrotabúsins duga ekki til greiðslu málskostnaðar skal málskostnaður eða það sem eftir stendur af honum greiðast úr ríkissjóði.``

Hér er um það að ræða að einstaklingur tapaði launum sínum vegna þess að eigandi fyrirtækis sem hafði verið gerður gjaldþrota, féll frá. Eins og segir í greinargerð þá er eitt af grundvallaratriðum íslenskrar stjórnskipunar það að einstaklingar og lögaðilar geta leitað réttar síns með því að bera álitaefni undir dómstóla og fá niðurstöður. Eitt af því sem kemur í veg fyrir að einstaklingar leita réttar síns er sú staðreynd að jafnvel þótt dómur falli viðkomandi í hag getur hann þurft að greiða málskostnað vegna þess að sá sem er sóttur ýmist er eða lýsir sig gjaldþrota áður en til greiðslu málskostnaðar kemur og því fellur það á þann sem sækir rétt sinn að greiða kostnaðinn.

Virðulegur forseti. Þetta er lykilatriði málsins. Þetta mál og það síðara hafa bæði verið komin langt á veg í umfjöllun hjá hv. allshn. Þegar liggja fyrir jákvæðar umsagnir þannig að það sem ég fer fram á með endurflutningi þessa og næsta máls er að málin verði kláruð. Þetta eru flókin réttindamál einstaklinga sem þurfa að komast í framkvæmd.

Ég mæli þá fyrir 37. máli, þ.e. frv. til laga um breytingu á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69/1995, með síðari breytingum. Meðflutningsmenn mínir að síðara málinu eru hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir og hv. þm. Jóhann Ársælsson og svo ég taki það fram þá eru meðflutningsmenn mínir að fyrra málinu hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir.

1. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Heimilt er að víkja frá skilyrði 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I ef gildar ástæður eru fyrir hendi að mati bótanefndar. Í þeim tilvikum þar sem bótanefnd hefur hafnað umsókn um greiðslu bóta á grundvelli 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I er henni heimilt að endurskoða ákvörðun sína berist um það ósk frá umsækjanda. Umsókn um bætur eða beiðni um endurskoðun ákvörðunar skal hafa borist bótanefnd innan árs frá gildistöku þessa ákvæðis.``

Þeir einstaklingar sem eiga í hlut varðandi svona mál eru t.d. þeir sem hafa lent í misþyrmingum. Í því tilviki sem varð orsök þessa máls var t.d. manni misþyrmt af félaga sínum og hlaut við það mikið tjón.

Þeir sem í hlut eiga eru dæmdir gjaldþrota og eftir stendur að viðkomandi verður að bera allan skaðann, bæði af atvinnutapi og síðan af lækniskostnaði sem hlaust af þessu. Má margt telja til m.a. urðu foreldrar viðkomandi að flytja úr byggðinni þar sem þau bjuggu. Allt tengdist þetta þessum misþyrmingum sem um er að ræða.

Virðulegur forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjalla um þetta mál mikið frekar en fyrra málið vegna þess að fyrir liggja öll gögn hjá hv. allshn. sem ég bið um að þessum málum verði vísað til. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna ætti að vera hægt að afgreiða málin. Það er mjög nauðsynlegt til þess að þeir einstaklingar sem í hlut eiga geti sótt rétt sinn. Þetta er ekki fjárhagsspursmál fyrir ríkissjóð. Þetta er miklu frekar prinsippmál sem gæti létt kvöl þeirra sem í hlut eiga.

Virðulegur forseti. Ég hef ekki fleiri orð um þessi mál, enda ástæðulaust. Þau liggja fyrir, eins og ég sagði áður, hjá hv. allshn. og ég vona að þau verði afgreidd sem fyrst.