Vitamál

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 15:08:14 (1249)

2002-11-11 15:08:14# 128. lþ. 26.6 fundur 258. mál: #A vitamál# (vitagjald, sæstrengir) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[15:08]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Hæstv. samgrh. hefur mælt fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um vitamál sem felst í því að hækka vitagjald um 10,40 kr., um 14% miðað við verðlagsbreytingar og lágmarksgjald úr 3.000 kr. í 3.500 kr. Þetta var töluvert rætt þegar við ræddum um vitamál ekki alls fyrir löngu á hinu háa Alþingi og í samgn. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það hálfhjákátlegt og illa farið með tíma Alþingis að þurfa að flytja slíkt frv. til laga til að gera jafnsjálfsagðar breytingar og hér er kveðið á um, þ.e. að færa þetta gjald upp miðað við verðlagsbreytingu. En svona er þetta víst. Menn segja að Alþingi verði að taka ákvörðun um að leggja á skatta og ekki megi hækka skatta nema í gegnum Alþingi en engu að síður er þetta ekki vitaskattur heldur vitagjald.

Ég vil leggja áherslu á þetta, herra forseti, og minna á. Vitagjöld gefa ríkissjóði 90 millj. og fara, eins og kom fram í máli hæstv. samgrh., til rekstrar vita og veðurdufla og þess háttar. Erlendir aðilar greiða af þessu 72 millj. kr. og ég held að ekki þurfi að ræða þetta mikið. Frv. kemur til hv. samgn. og hlýtur að fá þar fljóta afgreiðslu vegna þess að önnur og brýnni mál bíða afgreiðslu Alþingis.

Í öðru lagi, herra forseti, er í 2. gr. kveðið á um að gera breytingu sem er sjálfsögð. Til að tryggja öryggi siglinga sé leitað samþykkis Siglingastofnunar fyrir því að leggja sæstrengi. Þetta er í rauninni alveg sjálfsagt mál og alveg stórundarlegt að þetta skuli ekki vera komið löngu inn (Gripið fram í.) og sjálfsagt mál að þetta fari í gegn og samþykkja þurfi hvar þetta er sett niður. --- Nú heyrði ég ekki hvað hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason greip fram í. (Gripið fram í: Jábræður.) Hann vill kannski að við ræðum þetta á einhverjum öðrum nótum en ég tel ekki ástæðu til þess og mundi miklu frekar vilja ræða við hv. þm. Ísólf Gylfa Pálmason um stefnu Framsfl. í byggðamálum eða eitthvað þess háttar en ég ætla ekki að misnota tíma minn hér þó að ég eigi nóg eftir til að ræða þau. Ég held að það sé ekki vert að ræða þau mál sem snúa að framsóknarmönnum þar og sleppa þeim alla vega við það í dag.