Póstþjónusta

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 15:20:06 (1251)

2002-11-11 15:20:06# 128. lþ. 26.7 fundur 257. mál: #A póstþjónusta# (EES-reglur) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[15:20]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hæstv. samgrh. er mjög gamansamur maður. Hann segir að markaðsvæðing póstþjónustunnar sé til þess fallin að bæta þjónustuna við viðskiptavini Póstsins og geri hana auðveldari og greiðari, og þær breytingar sem hér séu lagðar til séu í þeim anda. Þetta var líka sagt þegar pósturinn var á sínum tíma aðskilinn frá símanum og pósturinn var settur á markaðsgrunn og við höfum verið að kynnast því að undanförnu hvaða afleiðingar þetta hefur haft í för með sér.

Póstur og sími bjuggu í ágætu sambýli á Íslandi. Á smáum stöðum var þetta hagkvæmur hagrekstur á milli símstöðvar og póstsins en eftir að síminn var gerður að hlutafélagi og pósturinn einnig, þá var sú starfsemi aðgreind. Afleiðingarnar hafa orðið þær að útibúum hefur fækkað stórlega og enn eru að berast fregnir af því að pósthúsum sé lokað á landsbyggðinni. En það er ekki aðeins hæstv. samgrh. sem er gamansamur í þessu efni því við minnumst þess þegar hæstv. iðn.- og viðskrh. sagði að lokun útibúsins í Skagafirði, í Varmahlíð, væri til þess gerð að bæta póstþjónustu í Skagafirði og þá væntanlega sérstaklega í Varmahlíð þar sem verið var að loka póstútibúinu. En starfsmönnum Póstsins er ekki skemmt. Starfsmenn Póstsins kunna ekki að meta þessa gamansemi, sérstaklega þeir sem hafa unnið hjá þeirri stofnun um áratuga skeið og missa nú starf sitt. Þetta er að gerast víðs vegar um landið vegna þessara kerfisbreytinga sem gerðar voru á Póstinum. Þetta hefur einnig valdið því að póstþjónustan er ekki aðeins komin fjær notandanum, hún er einnig orðin miklu dýrari en hún var áður.

Í vor voru boðaðar gjaldskrárbreytingar hjá Póstinum sem eru ekki að öllu leyti komnar til framkvæmda en hafa það í för með sér að félagsleg útgáfa í landinu er nánast að leggjast af, henni er stórkostlega ógnað. Hér bíður fyrirspurn sem ég setti fram til hæstv. samgrh. og verður vonandi svarað á morgun um hvernig tekið verði á slíkum málum, en það hefur komið fram í úttekt sem gerð var á vegum BSRB að félagasamtök á borð við Öryrkjabandalagið sem senda félagsrit sín til um 20 þús. manna að póstkostnaðurinn þar hækkar úr um 400 þús. kr. í 1,3 millj. fyrir að senda út eintak þegar gjaldskráin verður að fullu komin til framkvæmda sem hún er ekki enn. Og blaðaútgáfa eða aðstandendur blaðaútgáfu víðs vegar um landið hafa lýst miklum áhyggjum. Ég ætla ekki að fara út í þá sálma hér vegna þess að hæstv. samgrh. mun væntanlega svara fyrirspurn sem ég hef lagt fram um þetta efni á miðvikudag, ég ætla því ekki að fara út í þá sálma núna.

Hér er sem sagt boðað framhald á einkavæðingu Póstsins eða markaðsvæðingu póstþjónustunnar. Það sem menn hafa óttast í því efni þegar bent hefur verið á að það hljóti að vera til góðs að fá fleiri aðila inn í samkeppni, það sem líklegast er að gerist sé að fyrirtæki sem koma inn í þessa samkeppni muni reyna að taka þá bita sem gefa mest af sér en skilja annað eftir, einhenda sér t.d. á þéttbýlissvæðin en láta hin liggja milli hluta sem eru fjarlægari og þar sem byggðin er dreifð og kostnaðarsamt að dreifa póstinum af þeim sökum. Það er þetta sem menn óttast. Síðan hefur það náttúrlega sýnt sig að með tilkomu fleiri aðila verður allur tilkostnaður við yfirbyggingu til þess að skipuleggja þá samkeppni meiri. Það kostar meira að reka skrifstofuhaldið hjá mörgum fyrirtækjum en einu og allt veldur þetta því að kostnaðurinn fer upp.

Það sem hér er verið að boða er aukin markaðsvæðing og vísað er í tilskipun Evrópusambandsins frá því í júní í sumar. Eftir því sem ég skildi hæstv. ráðherra og eftir því sem ég skil það sem fram kemur í greinargerð með frv. þá hefur ekki verið nokkuð áhugi á Íslandi eða hjá stjórnvöldum að undanskilja Ísland þessari tilskipun, leita undanþágu, nokkuð sem við Íslendingar höfum ekki verið nógu vakandi fyrir, þ.e. meiri hlutinn, a.m.k. í þessum sal. Við höfum reyndar verið það í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. Við vöktum á sínum tíma athygli á því að það gæti verið ráð að undanskilja Ísland raforkutilskipuninni sem nú hefur komið á daginn að reyndist vera rétt vegna þess að í umsögnum allra rafveitna nánast á landinu um breytingar á því fyrirkomulagi í anda tilskipana Evrópusambandsins eru mjög gagnrýnar og taldar til ills. Við hefðum betur farið þá leið sem við lögðum til. En sama virðist vera uppi á teningnum hér.

Hæstv. ráðherra sagði að að uppistöðu væri póstdreifingin innan 100 g sem hægt er að undanskilja markaðsvæðingunni, talaði um 94% ef ég heyrði það rétt, og talað um að stjórnvöld þurfi ekki að markaðsvæða póstdreifinguna nema að hluta til. Fram til 1. janúar 2003 geti þau undanskilið póstdreifingu á pökkum eða sendingum innan við 100 g en 50 g frá 1. janúar 2006. Það er alveg ljóst hvert stefnir í þessum málum. En íslenska ríkisstjórnin er aldrei tilbúin að reyna að taka mið af íslenskum aðstæðum, gerir aldrei neina minnstu tilraun til þess. Hún horfir alltaf blint á það sem henni er skipað að gera í Brussel og áttar sig ekki á því að jafnvel undan þeim tilskipunum er hægt að undanskilja Ísland. Það er hægt að gera það ef menn leita eftir því.

Herra forseti. Ég legg áherslu á að hér er á ferðinni frv. sem við þurfum einfaldlega að skoða vel. Það verður væntanlega gert í samgn. þingsins. Þá verður farið yfir þessar tillögur að lagabreytingum, en þetta voru nokkur áhersluatriði sem ég vildi að fram kæmu og ákveðnar efasemdir sem ég vildi setja fram á þessu stigi.