Póstþjónusta

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 15:32:13 (1254)

2002-11-11 15:32:13# 128. lþ. 26.7 fundur 257. mál: #A póstþjónusta# (EES-reglur) frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[15:32]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Það kvað við örlítið annan tón þegar hv. þm. svaraði andsvari mínu en þegar hann flutti ræðu sína áðan. Við höfum gengist undir samninga eins og EES-samninginn og annað slíkt sem hefur þýtt að fyrirtæki hafa endurskipulagt starfsemina, m.a. Pósturinn. Það er auðvitað ekki bara gert á Íslandi heldur og víðast annars staðar. Við erum líka að ganga í gegnum mjög miklar tæknibyltingar. Menn notast við tölvupóst og ýmislegt annað þannig að hér er um tæknibreytingar að ræða líka.

Hv. þm. talaði um að algengast væri að flytja póststöðvarnar inn í olíudreifingarstöðvar, verslanir og svoleiðis. Það eru undantekningar. Ég ímynda mér að í á að giska 80--90% tilfella hafi þessi starfsemi verið flutt inn í bankastofnanir og í mörgum tilfellum hefur það orðið til að styrkja starfsemi þessara bankastofnana, þ.e. í fámenninu. Það er verið að styrkja þessar stofnanir.

Ég tek fullkomlega undir það að allar svona breytingar reyna mjög mikið á hæft og traust starfsfólk sem unnið hefur hjá þessum fyrirtækjum. Oft á tíðum er það í raun undirstaða þess að hægt sé að halda úti góðri þjónustu. En tæknibreytingar eru gríðarlega miklar, m.a. með tölvupósti og ýmsum öðrum nýjungum. Ég veit til þess að Íslandspóstur hefur verið að leita að þjónustu til að setja inn í pósthúsin. En það hefur reynst erfitt án þess að fyrirtækið lendi í samkeppni við einstaklinga á landsbyggðinni. Menn hafa auðvitað verið mjög óánægðir með það og Íslandspóstur hefur ekki farið út í að veita þjónustu í samkeppni við einstaklinga á svæðinu.