Póstþjónusta

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 15:36:49 (1256)

2002-11-11 15:36:49# 128. lþ. 26.7 fundur 257. mál: #A póstþjónusta# (EES-reglur) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[15:36]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Hæstv. samgrh. hefur mælt fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um póstþjónustu, lögum sem við vorum með í vinnslu á hinu háa Alþingi á síðasta þingi. Þar sem ég sit í samgn. er svo sem ekkert nýtt sem kemur hér fram, a.m.k. ekki annað atriðið. Okkur var kunnugt um það og vissum að í gangi væri vinna hjá Evrópusambandinu og umræður um einkarétt í póstþjónustunni. Við vissum að skiptar skoðanir hefðu verið um þetta mál og segir m.a. í athugasemdum með 1. gr.:

,,Í sumum Evrópulöndum hefur einkaréttur ríkisins verið afnuminn en í öðrum löndum er andstaða við breytingar á umfangi hans.``

Hér er síðan tilskipun sem hæstv. samgrh. leggur fyrir Alþingi núna, frá árinu 2002 nr. 39, þar sem farin er málamiðlunarleið um einkaréttinn.

Eins og ég sagði áðan á ég sæti í samgn. og mun ég ekki taka tíma Alþingis við að ræða mál þetta hér og nú. Þetta var töluvert rætt í hv. samgn. á síðasta þingi í tengslum við póstþjónustulögin. Ég geri ráð fyrir að við tökum þá umræðu upp aftur. Þetta er sem sagt málamiðlun og í sjálfu sér bæði gaman og alvara að sjá ráðherra Sjálfstfl. flytja svo fljótt inn tilskipanir Evrópusambandsins.

Annað atriði í þessu frv. kemur fram í 2. gr. og er nýtt. Þar er verið að opna fyrir nýjung:

,,Rekstrarleyfishafa er heimilt að setja sérstaka gjaldskrá fyrir þá sem afhenda mikið magn póstsendinga ...``

Þetta er nýtt sem hér er verið að setja inn. Rætt er um að erlendis hafi verið sett á laggirnar endursölufyrirtæki, þ.e. fyrirtæki sem taka að sér að koma bréfum notenda á afhendingarstað rekstrarleyfishafa. Þetta eru söfnunarfyrirtæki sem taka að sér að safna frá hinum mörgu stóru og flytja í einum pakka til rekstrarleyfishafans --- Íslandspóstur væri það í þessu tilfelli ef við tölum hér íslensku. Þau krefjast þess að fá töluverðan afslátt. Út af fyrir sig er það ágætt. Það skapar kannski minni vinnu hjá Póstinum, ég veit það ekki. Hins vegar er verið að opna fyrir þetta hér.

Nú vaknar spurning, herra forseti, um hvort ekki sé í leiðinni verið að búa til enn eina mismunun milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Ég skal taka dæmi og vil spyrja hæstv. samgrh. út í þetta atriði vegna þess að það er ákaflega mikilvægt að fá fram hjá hæstv. ráðherra hvort þetta gæti farið á þá leið. Þetta mun gera það að verkum að stórir aðilar á höfuðborgarsvæðinu sem láta prenta gögn sín hér, sama hvers konar bæklingum er þar verið að dreifa og prenta. Segjum að stærri fyrirtæki færu til endursölufyrirtækis sem yrði hér á höfuðborgarsvæðinu --- væntanlega er aðeins rekstrargrundvöllur fyrir því hér --- sem færi til Póstsins og fengi afslátt eins og áður var lýst. Hver er þá staða þeirra fyrirtækja og félagasamtaka sem vilja gera þetta úti á landsbyggðinni? Landsbyggðaraðilarnir munu ekki hafa tækifæri til þess að semja við þetta endursölufyrirtæki, nema þá að opnað verði fyrir það hér í lögunum og það látið koma þannig inn. Eða það sem verra er: Þetta getur þýtt að prentunin færist frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins til þess að spara sér flutning frá landsbyggðinni til þessa endursölufyrirtækis eða hvernig sem við getum sett þetta upp.

Hér er ákveðin hætta á ferðinni sem getur að mínu mati opnað enn frekar fyrir mismunun milli fyrirtækja á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að heyra frá hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki til í að beita sér fyrir því eða samþykki, ef við í hv. samgn. mundum vilja taka þetta þannig upp, að fyrirtæki á landsbyggðinni sitji við nákvæmlega sama borð og fái sömu afslætti fyrir hið prentaða mál og þeir sem dreifa þessum fjölpósti eða hvað við eigum að kalla hann, sama hvar honum er skilað inn á pósthús, hvort það er á Raufarhöfn eða Reykjavík.

Þetta er ákaflega mikið atriði. Ég vil ekki að við séum að samþykkja enn einn lagabálkinn frá Alþingi sem gerir að verkum að fyrirtækjarekstri verði mismunað og félagasamtökum, hvort sem er á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu, eða að sumum verði póstsendingar dýrari en öðrum. Ég vil að allir sitji við sama borð. Ég hef ekkert á móti því að svona endursölufyrirtæki verði sett upp ef út í það fer en þetta vildi ég nefna og óska eftir því að hæstv. samgrh. segi okkur hug sinn í þessu máli rétt á eftir.

Ég ætlaði svo að blanda mér í umræðu sem komið hefur upp í framhaldi af þessu, nokkuð sem hv. þm. Ögmundur Jónasson impraði á, þ.e. hin litlu pósthúsin á litlum stöðunum vítt og breitt um landið sem verið er að loka. Það er ákaflega dapurlegt að sjá hvernig þetta er að þróast þó að sums staðar hafi tekist nokkuð vel þar sem þetta hefur verið fært til. Hins vegar eru til staðir þar sem þetta hefur ekki tekist vel og er auðvitað ákaflega sárt fyrir fólk í þessum litlu byggðum að horfa jafnvel á eftir eina ,,opinbera`` starfsmanninum, þ.e. starfsmanni Íslandspósts, hverfa á braut vegna þess að verið er að loka og hagræða.

Ég tel, herra forseti að það hefði átt að fara miklu fyrr í að finna þessum litlu pósthúsum vítt og breitt um landið ýmiss konar aðra starfsemi, jafnvel á vegum opinberra aðila, til að styrkja rekstur þeirra. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni um að það var mjög slæmt þegar skorið var á milli Íslandspósts og Landssímans. Reyndin er sú að á fjölmörgum litlum stöðunum um allt land var þetta mjög gott saman, pósturinn og síminn, þjónusta við símnotendur, sala á símtækjum og þjónusta.

Við getum séð hvernig þetta er í dag. Þessi fyrirtæki áttu miklar húseignir. Sums staðar standa þær auðar vegna þess að ekki er hægt að nota þær. Þetta vildi ég segja hér líka um þetta atriði, herra forseti, vegna þess að þetta er ákaflega dapurlegt. Það er slæmt að sjá hvernig þetta er að gerast. Það rifjast upp fyrir mér er við þingmenn vorum að taka á móti á sveitarstjórnarmönnum á Austurlandi til að ræða þessi mál. Ég minnist þess að fulltrúar eins sveitarfélags voru þar með miklar áhyggjur af því að pósthúsinu ætti hreinlega að loka á viðkomandi stað.

Þessi þróun er ekki góð ofan á allt annað sem er að gerast, landsbyggðinni í óhag vegna aðgerðaleysis hæstv. ríkisstjórnar í byggðamálum, stundum fyrir hreinar árásir hæstv. ríkisstjórnarflokka á landsbyggðina.

Ég vil rétt í lokin minnast á þá gjaldskrárbreytingu sem gerð var. Ég bið menn að hugsa það aðeins vegna þess að kosningar eru í nánd og hinir pólitísku flokkar vilja örugglega nota sér þjónustu Íslandspósts til að senda blöð og bæklinga til kjósenda vítt og breitt um landið. Ég hygg að hinir íslensku pólitísku flokkar muni fá töluvert sjokk þegar þeir fá reikninginn fyrir þeim póstútburði. Hækkunin sem sett var fram af stjórn Íslandspósts er það svakaleg að hún gerir allt að því út af við slíka útgáfu, slíkar hópsendingar, fjöldasendingar til fólks, sama hvort er á vegum pólitískra flokka, íþróttafélaga eða Öryrkjabandalagsins eins og hér hefur verið rætt.

Ég vildi einnig segja að Íslandspóstur er ekki að selja þjónustu sína neitt voðalega ódýrt sé litið á flutningskostnað. Mér er það t.d. ákaflega minnisstætt þegar ég frétti af því að það kostaði íbúa í tilteknu sveitarfélagi á landsbyggðinni ekki krónu að fá sendan bjórkassa frá Reykjavík og út á land. Það kostaði ekki krónu. Áfengisverslunin borgar flutninginn. Ef viðkomandi bjórkassi var sendur frá næsta pósthúsi í 60 km fjarlægð þá kostaði það 1.200 kr. að flytja þennan kassa. Jafnframt hefur Íslandspóstur hækkað flutningsgjöld á því sem er undir tveimur kílóum að mig minnir, frekar en einu kílói um 100%. Þar varð 100% hækkun, á sendingarkostnaði á smápakka. Það kostaði áður 240 kr. en fór upp í 480 kr. við gjaldskrárbreytingu Íslandspósts.

Ég vildi halda þessu til haga, herra forseti, og nefna að það eru ekki bara einkareksturinn í landinu, flutningafyrirtæki eða stór fyrirtæki sem enn þá sigla með ströndinni, sem halda uppi hinum svimandi háa flutningskostnaði til og frá landsbyggðinni sem íþyngir öllu rekstri og fólki á landsbyggðinni heldur hefur ríkisfyrirtækið, Íslandspóstur, gengið hart fram í því líka. Það væri reyndar full ástæða til að ræða þá gjaldskrárbreytingu sem þá var gerð. Þegar maður fer að skoða það bregður manni mjög við vegna þess að það er töluvert kostnaðarsamt að senda póst með póstþjónustunni, þó svo ég vilji taka skýrt fram að Íslandspóstur veitir frábæra og góða þjónustu við að flytja póst og pakka. Segja má að sá póstur sem er að koma inn á pósthús í dag, í þessum töluðu orðum rétt fyrir fjögur, getur verið kominn á áfangastað víðs vegar um landið í fyrramálið kl. 9. Það er sannarlega góð þjónusta.

Þetta vildi ég segja, herra forseti, um þetta frv. Um afnám einkaréttar, þ.e. þá málamiðlun sem hér er flutt tillaga um ætla ég að ræða frekar í samgn. Ég hygg að hér sé ekki stórmál á ferðinni.