Póstþjónusta

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 15:58:55 (1258)

2002-11-11 15:58:55# 128. lþ. 26.7 fundur 257. mál: #A póstþjónusta# (EES-reglur) frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[15:58]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hér hafa menn talað í sig hita um það sem liðið er, m.a. aðskilnað símans og póstsins. Hv. þm. Vinstri grænna gera sér vonir um að póst- og símaþjónustan taki þeim breytingum að sú ólíka þjónusta verði sett aftur inn í eitt og sama fyrirtæki. Ég tel ekki miklar líkur á því, enda ekkert sem mælir með því að svo verði. Þarna er um mjög ólíka starfsemi að ræða og eins og lög gera ráð fyrir er það bara þannig að mjög stór partur af starfsemi póstþjónustunnar, á vegum Íslandspósts, er á forsendum alþjónustu sem vissulega er veitt alls staðar og á að veita alls staðar.

[16:00]

Aðeins örstutt. Hv. þm. Ögmundur Jónasson talar hér eins og verið sé að stórskera niður póstþjónustu í landinu. Það er auðvitað fjarri öllu lagi og færi ég honum þar með tækifæri til þess að halda enn eina ræðuna um það hér. Ég er alveg reiðubúinn til þess að fara yfir þau mál.

Við höfum verið að gera breytingar á starfsemi póstþjónustunnar í landinu vegna þess að umhverfið er að breytast og við höfum verið að leggja áherslu á að bæta þjónustu eins og hér hefur komið fram, kom m.a. fram í ræðu hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar, 5. þm. Suðurl., að þó gerðar séu breytingar á rekstri, þá er verið að bæta þjónustu Póstsins engu að síður, fjölga dögum sem dreift er í mesta dreifbýlinu o.s.frv. Mér finnst því að hv. þm. Ögmundur Jónasson verði að bera meiri virðingu fyrir því fólki sem starfar hjá Íslandspósti en svo að hann geti talað svona. Það ágæta starfsfólk sem þar er leggur sig fram um að bæta og auka þessa þjónustu, en ekki hið gagnstæða eins og mér heyrist á þingmanninum að hann sé að reyna að draga fram. (ÖJ: Hvers konar útúrsnúningar eru þetta?) Ég geri ráð fyrir að hv. þm. fái tækifæri til þess að tala hér um þetta ef hann hefur áhuga á.

Aðeins út af því sem hv. þm. Kristján L. Möller nefndi, þá er ekkert sem á að geta komið í veg fyrir það að fyrirtæki úti á landsbyggðinni fái afslátt vegna magndreifingar. Það er alveg ljóst að prentverk sem er starfandi utan höfuðborgar getur sent í gegnum Póstinn og fengið væntanlega þann afslátt sem magnið gefur tilefni til. (Gripið fram í.) Ég get ekki séð að neitt í þessu frv. gefi tilefni til að ætla að annað geti verið.

Aðeins vegna þess sem hv. þm. Kristján L. Möller nefndi um verkefni pósthúsanna. Ég get alveg tekið undir að það væri mjög æskilegt ef hægt væri að fela pósthúsunum aukin verkefni. Ég veit að stjórnendur Íslandspósts hafa unnið að því að reyna að finna verkefni sem væri hægt að setja inn í pósthúsin og við höfum átt fundi um það í ráðuneytinu með forsvarsmönnum Póstsins og ég er sannfærður um að stjórnendur leggja sig fram um að finna leiðir til þess. Og ég er meðmæltur því að sjálfsögðu.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um það sem kom hér fram, en tek undir með hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni 6. þm. Norðurl. e., að auðvitað þurfum við að tryggja þessa þjónustu um allt land og reyna að hafa verðið sem hagstæðast fyrir neytendur, en til þess að svo geti verið þarf auðvitað að finna þær leiðir sem valda minnstum kostnaði.

En ég vil bara undirstrika það að við erum ekki að gera neinar breytingar á löggjöfinni um póstþjónustu sem ættu að leiða til lakari þjónustu í hinum dreifðu byggðum.