Póstþjónusta

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 16:04:34 (1259)

2002-11-11 16:04:34# 128. lþ. 26.7 fundur 257. mál: #A póstþjónusta# (EES-reglur) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[16:04]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. samgrh. að ýmislegt sem gerst hefur í tæknilegum efnum á undangengnum árum er til bóta og til þess fallið að bæta þjónustu, þar á meðal Póstsins, bættar og auknar samgöngur og þar sem því er að dreifa að póstinum sé dreift tíðar en áður var, það er að sjálfsögðu til framfara og því ber að fagna.

Það sem ég hef verið að gagnrýna er tilkostnaðurinn við póstdreifinguna og set spurningarmerki við að það verði einhverju til að dreifa á annað borð, vegna þess að félagslegir aðilar hafa af því áhyggjur að stóraukinn tilkostnaður við póstdreifingu sé þess valdandi og muni verða þess valdandi þegar gjaldskráin er að fullu komin til framkvæmda, að þeir geti ekki sent frá sér póst. Það er þetta sem ég er að gagnrýna. Þetta felur í sér eða leiðir til lakari þjónustu.

Þá er ég einnig að benda á að aðgengi að pósthúsunum sjálfum er að sjálfsögðu minna eftir því sem þeim fækkar og þeim lokað.

Að lokum, herra forseti, vil ég vísa á bug útúrsnúningi hæstv. samgrh. á þá lund að ég beri ekki virðingu fyrir því fólki sem vinnur við Póstinn. Ég geri það. Það vill nú svo til að ég er í félagasamtökum með því fólki og þekki mjög vel til og ber mikla virðingu fyrir því fólki sem þarna starfar. Ég efast ekkert um að hæstv. samgrh. geri slíkt hið sama. Hins vegar finnst mér það vera áhyggjuefni þegar fólki, einkum í fámennum byggðarlögum, er sagt upp störfum eins og dæmin sanna og er að gerast núna í hverju byggðarlaginu á fætur öðru, að fólki sem margt hefur starfað um áratuga skeið við Póstinn er sagt upp störfum. Og ég spyr: Er það að bera virðingu fyrir fólki, reynslu og hæfni starfsmanna, að vísa því með þeim hætti út á gaddinn?