Póstþjónusta

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 16:06:48 (1260)

2002-11-11 16:06:48# 128. lþ. 26.7 fundur 257. mál: #A póstþjónusta# (EES-reglur) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[16:06]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Það eru aðeins tvö atriði sem ég vildi ræða um sem komu fram í seinni ræðu hæstv. ráðherra. Það er annars vegar til að taka af öll tvímæli, þá segi ég það fyrir mitt leyti að ég vil að það sé alveg skýrt og allir möguleikar á því að t.d. bæklingar sem prentaðir væru í miklu magni til dreifingar um allt Ísland og væru prentaðir á Akureyri, væru kannski um 500 kíló eða svo, og skilað inn á pósthús þar, að aðilinn þar sitji við nákvæmlega sama borð hvað varðar flutningsgjöld við að dreifa þeim um allt Ísland eins og sá aðili sem væri að prenta sama magn til að dreifa um allt Ísland og mundi setja það inn í endursölufyrirtæki sem hugsanlega og næstum því örugglega verður staðsett á höfuðborgarsvæðinu, vegna þess að rekstrarskilyrði fyrir endursölufyrirtæki eru ekki á mörgum stöðum á landinu. Ég vil að það sé alveg skýrt að fyrirtækin sitji þá við nákvæmlega sama borð og fái nákvæmlega sama afslátt. Að öðru leyti, ef þetta verður ekki, þá sé ég það fyrir mér að fyrirtæki mundu hugsanlega flytja prentunina hingað suður og koma þessu inn í þetta endursölufyrirtæki, sem kemur þá með þetta mikla magn og krefjast þess að fá miklu meiri afslætti en gengur og gerist. Þetta er nú einu sinni lögmál markaðarins sem hagar sér á þennan veg. Þetta er grundvallaratriði í mínum huga.

Hitt atriðið sem ég vildi nefna og hæstv. ráðherra nefndi er um stjórn Íslandspósts, um hlutverk pósthúsa. Ég hef nefnt það á mörgum vígstöðum en gallinn við þetta er sá að það eru alltaf heimamenn sem eru spurðir: Hvað viljið þið koma með inn í pósthúsin til að auka starfsemi? Það hefði alveg mátt hugsa sér að stjórnsýslan í landinu hefði gripið til þess strax þegar sást í hvað stefndi, að pósthúsin gegndu hlutverki fulltrúa skattstjóra, fulltrúa sýslumanna. Pósthúsin gætu meira að segja tekið að sér símsvörun þess vegna fyrir opinberar stofnanir í Reykjavík, verið umboðsaðilar fyrir happdrætti, veitt upplýsingar fyrir ferðaþjónustu, hvað sem er. En þetta er alltaf lagt á þá sem starfa á stöðunum og sagt: Ef þið getið fundið eitthvað þá skulum við skoða það. Það hefði verið betra að snúa þessu við og segja: Stjórn Íslandspósts á að athuga hvort ekki er hægt að auka í samræmi við opinbera aðila umfang og rekstrarskilyrði pósthúsa, ef nota má það orð, á landsbyggðinni.