Póstþjónusta

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 16:11:01 (1262)

2002-11-11 16:11:01# 128. lþ. 26.7 fundur 257. mál: #A póstþjónusta# (EES-reglur) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[16:11]

Kristján L. Möller (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari yfirlýsingu hæstv. ráðherra. Ég mun berjast fyrir því í samgn. að þetta verði skoðað og fundinn verði flötur á þessu. Þetta er grundvallaratriði í mínum huga í því dæmi sem við ræðum hér um, þ.e. um þá nýju leið að opna leiðir fyrir endursölufyrirtæki sem geta komið með nokkur tonn af pósti og knúið fram mikinn afslátt af flutningsgjöldum. Þetta er grundvallaratriði.

Það má eiginlega segja sem svo ef við hugsum til næstu kosninga að ég vil að Sjálfstfl. í Norðvesturkjördæmi sitji við nákvæmlega sama borð við að dreifa sínum 20.000 eintökum um Norðvesturkjördæmi af blaði sínu í væntanlegum kosningum og ef Sjálfstfl. á landsvísu kæmi með allt hér á höfuðborgarsvæðið og dreifði um hundrað þúsund eintökum eða svo. Þetta er grundvallaratriði, herra forseti, sem vert er að fara yfir, en ég sé og heyri að samgn. hefur fullan stuðning hæstv. samgrh. við það verkefni og það er gott.

Að hinu atriðinu, að búa til verkefni fyrir pósthúsin, að það sé vandamál að búa til verkefni, ég tel svo ekki vera, herra forseti. Vandamálið er að það var farið allt of seint af stað við það. Það var fyrirsjáanleg mikil breyting á rekstrarumhverfi pósthúsanna, nú eru menn ekki alltaf að senda bréfapóst, menn senda tölvupóst o.s.frv.

Ef hefði verið gripið til þessara þátta fyrr, þá hefðum við kannski ekki þurft að byrja svo snemma að loka pósthúsum. Ég tel reyndar að þá hefðum við styrkt rekstrargrundvöll pósthúsa á landsbyggðinni með því að fara yfir þau atriði. Ég nefni þetta bara sem dæmi.

Ég get tekið ótal dæmi sem fólk hefur nefnt þegar maður hefur ferðast um landið og talað við fólk á þeim stöðum þar sem það kvíðir fyrir því að pósthúsinu þeirra verði lokað og starfsmönnunum sagt upp.

Það eru ótal mörg atriði fleiri sem mætti nefna sem hefði verið hægt og verið gráupplagt að setja inn á pósthúsin, en of seint var farið af stað með það.