Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 16:13:29 (1263)

2002-11-11 16:13:29# 128. lþ. 26.8 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[16:13]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Frumvarpið er að finna á þskj. 352.

Í frv. þessu er að finna nokkar breytingar sem lagt er til að gerðar verði á lögunum um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Helstu breytingarnar eru þær að lagt er til að heimilt verði að draga frá tekjum í atvinnurekstri eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu tíu árum í stað átta ára eins og verið hefur og tengist þessi breyting niðurfellingu svokallaðra verðbólgureikningsskila sem afgreidd voru hér á síðasta þingi.

Í öðru lagi er lagt til að sérstakur tekjuskattur manna, svokallaður hátekjuskattur, verði framlengdur um eitt ár, en hann hefði ella fallið niður um næstu áramót. Lagt er til að skatthlutfallið lækki um 2%, þ.e. úr 7% í 5% við þessa framlengingu, en tekjumörkin hækki um 2,75% sem er í samræmi við aðrar breytingar á tekjumörkum í skattalögum frá og með ársbyrjun 2003.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á vaxtaákvæðum laganna til samræmis við þær breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Samkvæmt gildandi lögum er miðað við að vextir vegna ofgreiddra skatta skuli vera jafnháir hæstu vöxtum óbundinna sparireikninga á hverjum tíma, en þar sem viðmiðunin ,,óbundnir sparireikningar`` er ekki lengur notuð er lagt til að vextir verði jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 og fjallar um vexti af skaðabótakröfum.

[16:15]

Þessi breyting mun leiða til nokkurrar hækkunar á vöxtum vegna ógreiddra skatta. Samkvæmt gildandi lögum eru slíkir vextir í október á þessu ári 4,85%, en verði frv. að lögum hefðu sambærilegir vextir orðið 6,7% samkvæmt síðustu auglýsingu Seðlabanka Íslands um vexti af skaðabótakröfum.

Í sömu grein frv. er lagt til að dráttarvextir verði þeir sömu og Seðlabankinn ákveður samkvæmt 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, sbr. 2. mgr. 1. gr. frv. eins og verið hefur samkvæmt gildandi lögum.

Í frv. eru einnig lagðar til nokkrar breytingar sem lúta beint að skattframkvæmdinni. Þannig er í 1. gr. frv. lagt til að ákvæði gildandi laga um skattfrelsi happdrættisvinninga taki einnig til happdrætta á Evrópska efnahagssvæðinu þegar þannig aðstæður eru fyrir hendi. Er þessi breyting m.a. lögð til með hliðsjón af athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA.

Í 3. gr. frv. er lagt til að regla 5. tölul. 52. gr. gildandi laga um að óheimilt sé að telja til rekstrarkostnaðar bifreiðakostnað framkvæmdastjóra eða annarra sambærilegra starfsmanna, nema hlunnindin hafi verið talin þeim til tekna, nái einnig til annarra starfsmanna án tillits til stöðu þeirra innan fyrirtækisins.

Í 4. og 12. gr. frv. er lagt til að fjmrh. gefi út reglur um hlunnindamat og reiknað endurgjald sem birtar eru í upphafi hvers árs að fengnum tillögum ríkisskattstjóra en í gildandi lögum er það ríkisskattstjóri sem gefur út þessar reglur.

Í 5. gr. frv. er að finna breytingu sem leiðir af breytingu á 2. gr. laganna um lögskráningu sjómanna en verði ekki ráðist í þá breytingu sem lögð er til hér í 5. gr. kynnu einhverjir sjómenn sem notið hafa sjómannaafsláttar að missa þann rétt.

Í 6. og 8. gr. frv. eru lagðar til breytingar sem varða skipulag skatteftirlits. Þannig er í 1. mgr. 6. gr. lagt til að samsköttuð félög verði skattlögð í því umdæmi þar sem móðurfélagið hefur aðsetur. Í 2. mgr. greinarinnar er lagt til að í þeim tilvikum þegar skattaðili flytur á milli skattumdæma geti ríkisskattstjóri ákveðið annan skattlagningarstað en leiðir af almennum reglum. Þetta gæti átt við í þeim tilvikum þegar skattstjóri hefur hafið skatteftirlit hjá skattaðila sem síðan flytur á milli skattumdæma. Að óbreyttum lögum þyrfti skattstjóri í hinu nýja umdæmi að taka við málinu og byrja upp á nýtt.

Í 8. gr. frv. er lögð til breyting sem felur í sér heimild til fjmrh. til að ákveða að sami skattstjóri fari með skatteftirlit í fleiri en einu skattumdæmi. Á árinu 1996 var skatteftirlit flutt frá skattstofunum úti á landi til ríkisskattstjóraembættisins. Ástæðan var sú að illa gekk að manna þessar stöður úti á landsbyggðinni. Einingarnar voru einnig litlar á hverjum stað og erfitt að vinna verkin sem ákjósanlegast. Með þessari breytingu er hins vegar gert ráð fyrir því að heimilt verði að færa landsbyggðarskatteftirlitið frá ríkisskattstjóra til tiltekinna skattumdæma í landinu. Væru þá flutt störf innan skattkerfisins frá Reykjavík til skattstofa úti á landsbyggðinni, einnar eða fleiri.

Í 9. gr. frv. er lögð til breyting í tilefni af athugasemd frá umboðsmanni Alþingis. Umboðsmaður taldi ekki koma skýrt fram í gildandi ákvæði að rannsókn skattrannsóknarstjóra ryfi fyrningarfest þann sem ákvæðið mælir fyrir um, og er ráðin bót á því með þeirri tillögu sem fram kemur í 9. gr.

Að lokum er í 10. gr. frv. lögð til breyting sem varðar innheimtu opinberra gjalda og varðar skiptingu fyrirframgreiðslu á gjalddaga. Er þetta gert til að koma í veg fyrir að sendir verði út gíróseðlar til gjaldenda með mjög lágum fjárhæðum. Ef fyrirframgreiðsla hljóðaði t.d. upp á 5.000 kr. yrði samkvæmt gildandi ákvæði þeirri fjárhæð skipt á 10 gjalddaga en samkvæmt tillögu þeirri sem gerð er í frv. mundi slík fjárhæð greiðast á þremur gjalddögum.

Ég hef nú rakið, herra forseti, meginatriði sem fram koma í þessu frv. um breytingar á lögunum um tekjuskatt og eignarskatt og legg til að frv. verði að þessari umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.