Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 16:20:16 (1264)

2002-11-11 16:20:16# 128. lþ. 26.8 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[16:20]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þetta frv. felur í sér nokkrar breytingar á skattalögum. Þær ganga í raun og sanni í sömu átt og fyrri skattalagabreytingar þessarar ríkisstjórnar, að auka skatthlunnindi fyrirtækja og lækka skatta á þeim sem meira hafa á milli handanna meðan ekki bólar á því að hæstv. ríkisstjórn vinni nokkuð að því að lækka skatta á lágtekjufólki, lífeyrisþegum eða fólki með meðaltekjur, eða að huga að skattalegu umhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Það kom mér á óvart, herra forseti, hversu stutt framsöguræða hæstv. fjmrh. var miðað við efni máls. Hér eru nefnilega nokkrar stórar breytingar á ferðinni að mínu mati sem geta haft veruleg áhrif á skatttekjur ríkissjóðs.

Herra forseti. Nú við 1. umr. mun ég einkum fjalla um tvær breytingar, þ.e. lækkun á framlengingu á hátekjuskattinum og að heimilt verði að nýta eftirstöðvar rekstrartapa í tíu ár í stað átta eins og verið hefur.

Í fyrsta lagi, herra forseti, á það varla að vera forgangsverkefni að lækka hátekjuskattinn, eins og hér er lagt til, meðan ríkisstjórnin gerir ekkert til þess að létta skattbyrði af lágtekjufólki, fólki með meðaltekjur eða af lífeyrisþegum. Ástæða er til að rifja upp afstöðu Samfylkingarinnar á síðasta þingi þegar ríkisstjórnin fór í stóru skattalagabreytinguna. Þá var meginmarkmið ríkisstjórnarinnar að létta sköttum af stórfyrirtækjum og þeim sem mest höfðu fyrir en það hefur, eins og ég nefndi, herra forseti, einmitt verið skattstefna þessarar ríkisstjórnar, að færa skattbyrðina af fjármagni og fyrirtækjum yfir á launatekjur og lífeyri.

Í nál. okkar í minni hlutanum, fulltrúa Samfylkingarinnar í efh.- og viðskn., þegar stóra skattalagabreytingin var til umræðu fyrir um ári nefndum við að við hefðum efasemdir um að rétt væri, miðað við ýmsar aðstæður og að ekki átti að ganga neitt verulega í átt til þess að lækka almennt tekjuskatta eða skatta af lágtekjufólki, að vera að lækka hátekjuskattinn. Við minntum á það í nál. að sú breyting sem gera átti á hátekjuskattinum mundi leiða til þess að þeir sem væru með 2 millj. kr. í tekjur fengju 6.600 kr. skattalækkun en meðallækkun á skatthlutfalli væri um 0,3% á sama tíma, og þeir sem væru með 8 millj. kr. í tekjur fengju skattalækkun sem næmi 104 þús. kr., þ.e. meðallækkun á skatthlutfalli um 1,2%. Þannig var skattalækkunin vegna þessara breytinga á hátekjuskatti langmest til þeirra sem mest höfðu fyrir og minna til þeirra sem voru á mörkunum varðandi hátekjuskattinn.

ASÍ gerði líka miklar athugasemdir við hátekjuskattinn fyrir ári síðan og sagði að mörkin í frítekjumarki hátekjuskattsins væru langt frá því sem hægt væri að tala um varðandi meðaltekjur einstaklinga, og nefnd voru dæmi þar um.

Samkvæmt því sem ég skoða núna reiknast hátekjuskatturinn við 322 þús. kr. tekjur og tvöfalt meira hjá hjónum. Þeir sem greiða hátekjuskatt greiða nú 45,76% en skattbyrði þeirra lækkar niður í 43,76%. Þetta viðmið, 322 þús. kr., er verulega hærra en meðaltekjur, en meðaltekjur á öðrum ársfjórðungi 2002 samkvæmt útreikningum kjararannsóknarnefndar eru tæpar 244 þús. kr. Útreikningar kjararannsóknarnefndar ná gróflega til 2/3 hluta á vinnumarkaðnum. Þegar verið er að segja að hátekjuskatturinn sé bara skattur á meðaltekjur er þó viðmiðið, sérstaklega þegar við erum að tala um hjón, miklu hærra, þ.e. um 640 þús. kr. Meðaltekjurnar eru sem sagt 244 þús. meðan hátekjuskatturinn reiknast af 322 þús.

Það er vissulega, herra forseti, hægt að gagnrýna hátekjuskattinn. Hann kemur illa við fólk sem leggur á sig mikla yfirvinnu til að láta enda ná saman meðan það kemur sér upp húsnæði og fjölskyldu. Engu að síður er það hart að lagðir skuli vera skattar á fólkið sem er tekjulægst í þjóðfélaginu, það sem er með tekjur undir 90 þús. kr. í mánaðarlaun. Sú álagning gaf t.d. ríkissjóði á sl. ári um 1 milljarð í tekjur á sama tíma og hægt er að lækka skatta á fólki sem hefur tekjur vel yfir meðaltekjum, t.d. hjónum sem hafa samtals nálægt 650 þús. kr. í tekjur á mánuði, eins og ég nefndi. Núna er verið að lækka skatta á þessu fólki.

Það er ástæða til að halda til haga því sem fram kom í umræðunni um daginn, að skattstefna ríkisstjórnarinnar hefur leitt til þess að skattbyrði verkamannsins hefur aukist frá árinu 1995 um 109 þús. á ári á meðan skattbyrði meðaltekjumannsins hefur aukist um 77 þús. kr. á ári. Skattbyrði þess sem er með 350 þús. kr. hefur aukist um 29 þús. kr. á sama tíma og skattbyrði á verkamanninn hefur aukist um 109 þús. kr. Þetta er auðvitað fráleit skattstefna hjá þessari ríkisstjórn, og það hlýtur að verða eitt fyrsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar sem tekur við völdum að loknum næstu kosningum að breyta henni.

Ég hef því allan fyrirvara á þessu ákvæði frv. og hlýt að ganga eftir því þegar við ræðum lækkun á hátekjuskattinum, herra forseti, að hæstv. ráðherra svari nú því sem ég spurði hann um í utandagskrárumræðu um daginn. Hæstv. ráðherra sá ekki ástæðu til að svara fyrirspurnum sem var beint til hans þá. Ég ætla að leyfa mér að gera tilraun við þessa umræðu og spyrja hæstv. ráðherra: Hver eru viðbrögð hans við því sem fram hefur komið um skattbyrði á verkafólk og lífeyrisþega, að hún hafi þyngst mun meira en hinna efnameiri? Hæstv. ráðherra vill rekja það alfarið til þess að launin hafa hækkað í landinu en við höfum farið í gegnum það og hafnað þeirri leið. Vissulega hafa launin hækkað en skattbyrðin hefur hækkað langt umfram það sem launabreytingar gefa tilefni til. Ég tefldi fram gildum tölum við utandagskrárumræðuna fyrir stuttu.

Ég spurði ráðherra líka --- og ég ítreka þá spurningu þótt hæstv. ráðherra fari þá tvívegis í ræðustól af því að hann svaraði ekki þeirri spurningu þá --- hvort hann væri reiðubúinn til þess að beita sér fyrir breytingum sem lækka skatta á lífeyrisþegum og fólki með lágar og meðaltekjur og jafna hér eðlilega skattbyrðina í landinu. Hæstv. ráðherra hlýtur að þurfa að svara því hvenær hann telji tímabært að lækka skattana á þessu fólki.

Herra forseti. Ég vil fara hér í annað meginatriði frv. sem er að heimilt verði að nýta eftirstöðvar rekstrartapa í tíu ár í stað átta eins og verið hefur. Þar er á ferðinni, að mér sýnist, enn ein skattabreytingin sem færir skattbyrðina til með óeðlilegum hætti. Það eru engin rök færð fram sem réttlæta sérstaklega þessa breytingu sem þýtt getur verulegt tekjutap fyrir ríkissjóð. Ég spyr hæstv. ráðherra hvaða áhrif sú breyting sem hann leggur til um framlengingu á þeim tíma sem fyrirtæki geta nýtt sér vegna yfirfæranlegs rekstrartaps geti þýtt fyrir ríkissjóð. Hvaða skattalegu áhrif hefði þetta fyrir ríkissjóð?

Ég hef lagt fram fyrirspurn hér á þingi sem enn hefur ekki verið svarað. Ég vænti þess að henni verði svarað á næstu dögum þannig að hún geti þá komið til umræðu í tengslum við þetta frv. Þar spyr ég í fyrsta lagi hvert sé uppsafnað yfirfæranlegt rekstrartap fyrirtækja í ársbyrjun 1999, 2000 og 2001; í öðru lagi hvað nýting rekstrartapsins hafi leitt til mikillar lækkunar á skattstofni fyrirtækja á þessum árum og hverjar skattgreiðslurnar hefðu orðið án þessarar lækkunar tekjuskattsstofnsins; í þriðja lagi hef ég spurt hvert hafi verið ónýtt yfirfæranlegt rekstrartap í árslok 2001; og í fjórða lagi hversu mörg fyrirtæki hafi sýnt hagnað á árunum 1999, 2000 og 2001 en verið skattlaus vegna nýtingar á yfirfæranlegu tapi.

Þetta er sambærileg fyrirspurn og ég lagði fyrir hæstv. fjmrh. fyrir nokkrum árum, sennilega 1997 eða 1998, en þá fékk ég tölur um uppsafnað yfirfæranlegt rekstrartap fyrirtækja í ársbyrjun 1996 og 1997. Ég spyr núna um árin eftir það. Þar kom fram að heildarrekstrartap í árslok 1996 var rúmlega 83 milljarðar kr.

[16:30]

Í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn um hvað nýting rekstrartapsins hefði leitt til mikillar lækkunar á skattstofni fyrirtækja tekjuárin 1996 og 1997 og hvert hafi verið tekjutap ríkissjóðs af þeim ástæðum á þessum árum kemur fram, með leyfi forseta, að nýting yfirfæranlegs taps þessara lögaðila tekjuárin 1997 til lækkunar á skattstofni hafi samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra verið 8 milljarðar kr., hvorki meira né minna, herra forseti. Skatthlutfall hlutafélaga þetta ár var 33% og skatthlutfall í sameignarfélagi 41%.

Það var líka athyglisvert að í því svari --- og við hljótum einnig að fá svar á næstu dögum varðandi síðustu ár --- kom fram að samkvæmt upplýsingum úr rekstrarframtölum lögaðila árið 1998 sem skilað var í tölvutæku formi voru 1.280 lögaðilar skattlausir vegna nýtingar á rekstrartapi. Hagnaður þessara 1.280 aðila sem voru skattlausir út af nýtingu á þessu rekstrartapi, var hvorki meira né minna án yfirfæranlegs taps samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra, 6,3 milljarðar kr.

Við erum því að tala hér um verulegar fjárhæðir. Og nú er verið að lengja þann tíma úr átta árum í tíu ár sem fyrirtæki geta nýtt sér þessi skattahlunnindi, þessa skattaívilnun, og þetta hlýtur að hafa veruleg áhrif á skattgreiðslur fyrirtækja til ríkissjóðs.

Herra forseti. Ég býst við því að við munum sjá verulega aukningu á yfirfæranlegu rekstrartapi vegna gengistaps á lánum í erlendri mynt og gengislækkunar og að skattalegu áhrifin geti því orðið mjög mikil, t.d. vegna síðasta árs og þessa árs, og að þetta ákvæði muni létta sköttum af fyrirtækjum upp á einhverja milljarða kr.

Það er auðvitað nauðsynlegt að skoða þetta í samhengi við afnám verðbólgureikningsskila sem samþykkt voru á liðnu ári, en þar hefði verið rétt að afnema heimild til þess að færa í yfirfæranleg rekstrartöp gengistöp m.a. vegna lána í erlendri mynt.

Hæstv. ráðherra verður að svara því hvert áætlað tap ríkissjóðs verður með þessari rýmkun á möguleikum til að nýta eftirstöðvar rekstrartaps á lengri tíma en lög gera nú ráð fyrir.

Af því við höfum engin efni á því, samkvæmt því sem þessi ríkisstjórn telur, að lækka skatta á venjulegu launafólki og fólki með lágar tekjur og meðaltekjur, að ég tali nú ekki um lægst launaða fólkið í landinu sem borgar 1 milljarð í skatta til hins opinbera á ári, þá spyr ég eðlilega, herra forseti: Þolir ríkissjóður það tekjutap sem verður af því að lengja þennan tíma?

Ég spyr einnig, herra forseti: Er ekki kominn tími til að snúa af þessari röngu braut sem ríkisstjórnin er á og huga að því að létta skattbyrðinni af því fólki sem skattbyrðin hefur mest aukist á á undanförnum árum, eins og lágtekjufólki?

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra vegna þessara breytinga á yfirfæranlegu rekstrartapi: Hvernig verða lagaskilin varðandi þetta ákvæði ef frv. verður að lögum? Þarf ekki að kveða á um það í gildistökuákvæðinu hvort hugmyndin sé þegar tvö ár bætast nú við, þ.e. hvort þau eigi að ná til þeirra sem eru að ljúka sínum möguleikum til fyrningar á rekstrartapi, eða hafa þegar lokið þeim? Fá þeir þessi tvö ár til viðbótar eða hvernig eru lagaskilin hugsuð varðandi framkvæmdina? Ég hygg að eitthvað verði að huga að því í gildistökuákvæði greinarinnar.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra um ástæðu þess sem fram kemur nú í öðru efnisatriði þessa frv., þ.e. hvaða ástæður séu til þess að taka það vald af ríkisskattstjóra að setja reglur um reiknað endurgjald en færa það til fjmrh.? Ég sé engin sérstök rök fyrir þeirri breytingu og tel að það ákvörðunarvald sé betur komið hjá ríkisskattstjóra sem hefur yfirsýnina og sérþekkinguna á skattasviðinu, en hjá fjmrh. Sama gildir raunar um mat á hlunnindum sem lagt er til að verði hjá fjmrh. en ekki ríkisskattstjóra.

Herra forseti. Þær breytingar eru að mínu viti ekki til bóta að færa ákvarðanir í hendur pólitískra valdhafa í fjmrn. frá þeim sem hafa sérþekkinguna og búa yfir faglegu mati á skattasviðinu.

Vissulega eru fleiri breytingar í þessu frv. sem ég hef því miður ekki haft tíma til að skoða sérstaklega, en mun gera í efh.- og viðskn. sem fær málið til skoðunar. Það eru vissulega ýmis atriði þarna sem ég tel að efh.- og viðskn. þurfi að fara mjög náið í önnur en þau tvö veigamestu atriði í frv. sem ég hef sérstaklega gert að umræðuefni.

Herra forseti. Auðvitað væri líka freistandi að taka upp almenna umræðu hér um skattamálin og ræða ýmislegt sem fram hefur komið að undanförnu varðandi þá þætti, ýmislegt sem fram hefur komið t.d. hjá ASÍ sem sett hefur fram ýmsar athugasemdir vegna frv. til fjárlaga sem hér liggur fyrir, hvaða áhrif það hefur að óbreyttum skattalögum, en þar kemur fram að skattar almenns launafólks og tryggingagjald umfram verðlagsbreytingar hafi hækkað um 7 milljarða kr. 2,3 milljarðar af því er hækkun á tryggingagjaldi og það hefur sömu áhrif á rekstur fyrirtækja og launagreiðslur. Sumir halda því fram að með þessum álögum á tryggingagjald sé verið að takmarka möguleika fyrirtækja til þess að hækka launin í landinu. Því hljóta menn að gera sérstaka athugasemd við og vilja ræða nokkuð áhrifin af þeirri hækkun á tryggingagjaldi sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir og hefur veruleg áhrif á lítil og meðalstór fyrirtæki, sprotafyrirtækin, sem fá þyngstan skellinn af þessu tryggingagjaldi meðan önnur fyrirtæki sem skila hagnaði þurfa ekki að greiða neitt til ríkissjóðs, m.a. vegna þess að ríkisstjórnin gekk mun lengra en hún þurfti í lækkun á sköttum á fyrirtækjum sem aðallega gagnast nú stórfyrirtækjum á fjármálamarkaði og tryggingafélögum og þeim sem skila verulegum hagnaði. Fyrir þetta greiða litlu og meðalstóru fyrirtækin og launafólk almennt í landinu, að ekki sé talað um þá sem þyngstar skattbyrðarnar hafa fengið vegna álagna þessarar ríkisstjórnar. Þeir eru að greiða fyrir þetta með því að frysta skattleysismörkin verulega. Persónuafslátturinn ætti að vera 40.000 kr. í dag en ekki 26.000 kr. og svo væri ef ríkisstjórnin hefði ekki fryst hann með þeim hætti sem hún hefur gert. Meginmálið var að þessu var öllu kippt úr sambandi varðandi skattleysismörkin og persónuafsláttinn og geðþóttaákvörðun ræður því í hvert skipti við fjárlagagerðina hvar þau lenda. Það hefur gjarnan orðið til þess að þau hafa hækkað mjög lítið eða verið fryst til þess að eiga fyrir þessum skattahlunnindum og skattaívilnunum sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir fyrir þá sem síst þurfa á því að halda.

Herra forseti. Ég hef lagt hér nokkrar spurningar fyrir hæstv. ráðherra sem snerta það sérstaka tekjuskattsmál sem hæstv. ráðherra hefur lagt fyrir, sérstaklega varðandi áhrifin af þeim á tekjur ríkissjóðs og hvort ekki hefði nú verið ástæða til þess einu sinni að setja í forgang skattamál þeirra sem helst þurfa á því að halda, þeirra sem borga skatta af nánast engum launum sem ekki einu sinni nægja til að brauðfæða fjölskylduna hvað þá til að greiða skatta af til ríkissjóðs eða hins opinbera.

Herra forseti. Mér finnst, og það er mín skoðun, að kominn sé tími til þess að ríkisstjórnin fari að huga að því hvort ekki eigi að setja fjármagn í að lækka skatta á þessu fólki, vegna þess að ríkisstjórnin virðist ævinlega hafa peninga þegar kemur að þeim sem meira hafa milli handanna í þjóðfélaginu eða stórfyrirtækja. Þá er alltaf svigrúm til einhverra skattalækkana fyrir þá hópa og það er einmitt það sem við erum að sjá í því frv. sem hér er til umræðu.