Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 16:40:11 (1265)

2002-11-11 16:40:11# 128. lþ. 26.8 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[16:40]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er ekki nauðsynlegt að hafa mjög mörg orð um frv. á þessu stigi. Það á eftir að fara til umfjöllunar í efh.- og viðskn. þingsins. Þar verða allar 14 greinar frv. grandskoðaðar. Sumt þarf að athuga frá tæknilegu sjónarhorni, annað pólitísku. Sumar greinar þessa frv. eru í senn tæknilegar og pólitískar.

Reyndar er frv. í þeim anda sem áður hefur komið frá þessari ríkisstjórn og ríkisstjórnum undir forsæti Sjálfstfl. allar götur frá 1991, fyrst í samstarfi við Alþfl. og frá 1995 í samstarfi við Framsfl. Á þessum tíma hafa nánast allar skattkerfisbreytingar sem framkvæmdar hafa verið verið í þeim anda að þær hafa ívilnað hátekjufólki og þeim fyrirtækjum sem eru stöndug. En jafnan er gengið á kjör láglaunafólks.

Rétt er að staðnæmast við tvær lagagreinar í frv.

Í fyrsta lagi er lengdur viðmiðunartíminn sem fyrirtæki hafa til að draga frá tekjum af atvinnurekstri eftirstöðvar rekstrartapa. Þessi tími er lengdur úr átta árum í tíu.

Í öðru lagi er rétt að staðnæmast við 13. gr. frv. Þar er hátekjuskatturinn lækkaður úr 7% í 5% og tekjumörkin eru jafnframt færð upp um 2,75%.

Allar þessar breytingar þarf að skoða í samhengi. Ekki er unnt að rífa þær úr samhengi og skoða þær einar sér. Á sama hátt og það kom að sjálfsögðu fyrirtækjum til góða á fyrri hluta tíunda áratugarins þegar tekjuskattur var lækkaður verulega á fyrirtækjum, aðstöðugjaldið afnumið, þá var það til hagsbóta fyrir þau fyrirtæki sem fengu sköttum létt af sér með þeim hætti. Aðstöðugjaldið gaf í sjóði hins opinbera á milli 5 og 6 þús. millj. kr. Tekjuskattur fyrirtækja var fyrir rúmum tíu árum yfir 50%. Hann er kominn núna niður í 18%. Að sjálfsögðu hagnast fyrirtækin á þessu þegar málin eru skoðuð afmarkað.

En það gagnar ekki vegna þess að með einhverjum hætti þarf að mæta þessu tekjutapi, annaðhvort með niðurskurði hjá hinu opinbera eða með því að leita eftir skattlagningu annars staðar. Og það var gert. Þegar aðstöðugjaldið var skorið niður í ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. þá var það gert með því að skera niður barnabætur. Í einu vetfangi eitt árið voru barnabætur skornar niður um 500 millj. kr. Og á sama tíma var farið að setja alls konar álögur á sjúklinga sem ekki höfðu þekkst áður.

Nýlega var gerð á því könnun á hvern hátt gjöld sem sjúklingar þurfa að bera hafa aukist frá því 1991. Sú könnun leiddi fram að útgjöld á sjúklinga hafa aukist um mörg hundruð prósent. Mest var þetta á þeim árum þegar sköttum var mest létt af fyrirtækjum, þegar aðstöðugjaldið var afnumið í stjórnartíð Sjálfstfl. og Alþfl. Þá voru álögur settar á sjúklinga og þá voru skert kjör þeirra sem búa við erfiðastan kostinn í húsnæðiskerfinu svo dæmi sé tekið. Þetta þurfa menn að sjálfsögðu allt að skoða í samhengi.

Það er því alveg rétt sem fram kemur hjá hæstv. fjmrh. að hækkun viðmiðunarmarka hátekjuskatts um 2,75% er í samræmi við aðrar hækkanir í skattkerfinu. En þá þurfum við einnig að skoða hinn endann, ekki einvörðungu þá sem búa við best kjörin heldur einnig hina sem lakast standa að vígi.

[16:45]

Atvinnulaus maður fær í atvinnuleysisbætur 73.765 kr. á mánuði. Hann fær með hverju barni 2.947 kr. á mánuði. Þetta eru 76.712 alls. Af þessu greiðir viðkomandi í skatt 2.380 kr. Öryrki sem hefur engar tekjur aðrar en þær sem hann fær frá Tryggingastofnun og fær allar þær greiðslur sem hugsanlegt er að fá, fær 87.015 kr. í sinn hlut. Af þeirri upphæð greiðir hann 6.192 kr. í skatt.

Ég vil taka undir það sem fram kom hjá hjá hæstv. fjmrh. og hefur margoft gert að undanförnu. Það er í sjálfu sér ekki ámælisvert að fólk greiði skatta, nema síður sé. Spurningin hlýtur hins vegar að snúast um hvað fólk hefur til ráðstöfunar á eftir. Það sem mér finnst vera ámælisvert í þessu efni er ekki það eitt að teknir séu skattar af þessum lágu tekjum heldur fyrst og fremst hitt hve lágar þessar tekjur eru, tekjur sem á engan hátt duga til framfærslu. Þegar við setjum kjör atvinnulauss fólks og öryrkja sem einvörðungu hafa tekjur sínar úr almannatryggingum í annað samhengi, í kjaraþróun annarra samfélagshópa, kemur í ljós að þeirra hlutur er miklu rýrari en annarra.

Þetta gerðist vegna þess að bætur í almannatryggingakerfinu voru á sínum tíma slitnar úr samhengi við almenna launataxta. Þær tóku áður mið af tilteknum kauptöxtum á vinnumarkaði. Þær voru rifnar úr þessum tengslum og nokkur tími leið þar til ný viðmiðunarregla var sett inn í lögin og gekk út á að bætur almannatrygginga skyldu fylgja öðru tveggja almennri launaþróun eða neysluvísitölu og taka mið af þeirri sem væri hærri.

Þetta er í sjálfsögðu ekki slæm regla. Hún ver þessa hópa fyrir tekjuhrapi þegar kaupmáttarrýrnun verður á markaði, þegar launaþróun er lægri en nemur verðbólgunni er komin ákveðin vörn fyrir þessa hópa. En hið níðingslega sem gert var á sínum tíma var að slíta almannatryggingar úr tengslum við kauptaxtann einmitt þegar séð var að lægstu kauptaxtarnir, sem almannatryggingarnar voru bundnar við, yrðu hækkaðir langt umfram almenna launaþróun. Það er á þennan hátt sem komið var aftan að öryrkjum og öldruðum sem fyrst og fremst þurfa að reiða sig á almannatryggingar um tekjur sínar.

Herra forseti. Það er í þessu samhengi sem við þurfum að skoða alla þessa þróun. Það er rangt að taka út einstaka þætti og skoða þá eina sér. Við þurfum að líta á breytingar sem gerðar eru á skattkerfinu heildstætt. Það munum við að sjálfsögðu gera þegar þetta frv. kemur til frekari umfjöllunar, fyrst í efh.- og viðskn. þingsins og síðan hér í þingsölum.