Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 17:08:00 (1267)

2002-11-11 17:08:00# 128. lþ. 26.8 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[17:08]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Nokkrum spurningum hefur verið beint til mín í framhaldi af framsögu minni fyrir þessu tiltölulega litla frv. um skattamál, litla a.m.k. miðað við ýmislegt sem flutt hefur verið hér á liðnum árum í tengslum við breytingar á skattalögunum alveg eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gat um réttilega. En auðvitað er, herra forseti, hægt að tala endalaust um skattamálin út frá ýmsum sjónarhólum.

Ég heyri að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir tala í raun og veru fyrir gjörbreyttu kerfi að því er varðar tekjuskatt einstaklinga. Og það sagði hv. þm. reyndar áðan. Hann vill hafa mismunandi prósentur innan kerfisins, nefndi einar þrjár slíkar. Hann vill gjörbreyta þessu kerfi og ég býst við að það sé það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er alltaf að tala utan af. Þau eru svo óánægð með núverandi kerfi. Það er eins og það er að því leyti til að það er óhjákvæmileg stærðfræðileg staðreynd að þegar menn fara úr lágum tekjum og upp eftir skalanum í hærri tekjur hækkar hin svokallaða skattbyrði. Hún hækkar þar af leiðandi mest þegar menn fara yfir skattfrelsismörkin og byrja að borga skatt því þá fer hún úr núlli upp í einhverja aðra tölu. Það er auðvitað hrein svívirða að fara úr núlli upp í einhverja aðra tölu, er það ekki, hv. þingmenn?

Mér finnst þetta vera hundalógík og ég tel að það sé aðalatriðið sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði í utandagskrárumræðu um daginn: ,,Aðalatriðið er það sem situr eftir.`` Þess vegna er mikilvægast að auka tekjurnar, koma sem flestum sem hæst í tekjuskalanum, gera fólki kleift að afla sér tekna og hækka kaupmáttinn. Þá skiptir hitt ekki öllu máli, þ.e. hvort skattbyrðin hefur aukist við þetta. Þeir sem afla teknanna hafa það betra fyrir vikið. Þeir hafa meira í vasanum.

En þau tvö, þessir hv. þm. sem hér hafa talað um þetta mál virðast hafa verið lítt hrifin af skattkerfinu sem hér var komið á 1988 með lagabreytingum sem samþykktar voru 1987. Þau hafa mikið talað um hvað núverandi ríkisstjórn hafi komið hneykslanlega fram að því er varðar þetta kerfi. Þau gleyma því að aldrei í sögu þessa kerfis hefur svokallað frítekjumark rýrnað jafnmikið og þau þrjú ár sem þessir ágætu fyrrverandi ráðherrar sátu í ríkisstjórn, á árunum 1988--1990. Aldrei. Og þessi skattfrelsismörk hafa verið meira og minna lítið breytt að raungildi frá 1994--1995 vegna þess að það gerðist líka í samsteypustjórninni með Alþýðuflokknum að skattfrelsismörkin rýrnuðu í upphafi síðasta áratugar. Þetta er nú bara svona.

Ég hef auðvitað margoft farið yfir það að það er mjög ómarkviss aðgerð að ætla að koma til móts við almenning og skattgreiðendur með því að hækka hin svokölluðu skattfrelsismörk. Og ég bendi þingmönnum á að lesa svar mitt við fyrirspurn hv. þm. Jóhanns Ársælssonar um þetta efni á þskj. 348 þar sem fram kemur hvaða áhrif það mundi hafa að hækka persónuafsláttinn um tilteknar fjárhæðir. Þá breytast skattfrelsismörkin um tilteknar fjárhæðir, og þá sér maður hvað hver og einn fengi meira í vasann við slíka breytingu og jafnframt hvað það kostaði ríkissjóð mikla peninga. Þetta eru ágætar upplýsingar sem fyrirspurn hv. þm. Jóhanns Ársælssonar hefur kallað hér fram.

Ég vil þá, herra forseti, víkja að nokkrum öðrum atriðum sem fram hafa komið. Þingmenn hafa sagt að eitt af stóru málunum í þessu frv. sé sú tillaga sem hér er gerð um að lengja þann tíma sem fyrirtæki geta nýtt sér uppsafnað rekstrartap úr átta árum í tíu. Og vissulega er þetta ein af hinum mikilvægari breytingum í frv., það er rétt. Hvaða áhrif hefur hún á ríkissjóð? Það er auðvitað ekki hægt að fullyrða um það vegna þess að breyting sem þessi hefur ekki áhrif fyrr en hugsanlega eftir átta eða tíu ár. Við getum ekki sagt það fyrir víst en við teljum að þetta sé eðlileg aðgerð í kjölfarið á því að hér er búið að afnema verðbólgureikningsskil enda eru tíu ár í meira samræmi við það sem tíðkast í nágrannalöndum þar sem ekki hafa verið verðbólgureikningsskil. Menn verða að segja sem svo: Annaðhvort á ekki að leyfa yfirfæranlegt rekstrartap --- fyrirtækin verða bara að sitja uppi með það og borga svo skatt ef þau hafa hagnað --- eða að menn verða að reyna að átta sig á því hver hinn skynsamlegi fjöldi ára er sem kemur til greina í þessu tilfelli.

Auðvitað er það svo, m.a. vegna breytinga sem við höfum áður gert á skattkerfinu, að meiri líkur eru á því að fyrirtækin verði öflug og skili hagnaði á komandi árum heldur en áður var. Líkurnar á því að þetta skipti verulegu máli fyrir ríkissjóð minnka. En það getur átt við um tiltekin fyrirtæki við tilteknar aðstæður að það sé réttlætanlegt að þau geti nýtt sér þetta yfirfæranlega rekstrartap með þessum hætti. Markmið okkar er auðvitað það að auka hagnað fyrirtækjanna þannig að þau geti greitt hærri laun og staðið skil á eðlilegum skattgreiðslum.

Varðandi lagaskilin og gildistökuákvæði laganna að því er þetta atriði varðar er það auðvitað tæknilegt atriði sem þarf að fara yfir ef það er vandamál og ganga úr skugga um að það geti gengið eðlilega fyrir sig. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki leitt mjög hugann að því atriði.

[17:15]

Að því er varðar spurninguna um hvort flytja eigi mat á hlunnindum og reglur um svokallað reiknað endurgjald frá ríkisskattstjóra til fjmrn. varð það niðurstaða okkar á þessu ári að eðlilegt væri að gera þá breytingu að pólitískur aðili bæri ábyrgðina á þessari breytingu. Ég hygg að margir muni að í upphafi ársins vöknuðu ýmsir upp við vondan draum þegar nýtt hlunnindamat á vef ríkisskattstjóraembættisins hafði í raun í för með sér að skattbyrði eða skattlagning af ýmsu tagi sem því tilheyrði hækkaði. Ég tel eðlilegt að ef það yrði gert, sem kann vel að vera réttlætanlegt í einhverjum tilvikum --- auðvitað þarf að endurskoða slíkar reglur árlega --- geti t.d. hv. þm. í stjórnarandstöðunni geti beint spjótum sínum að pólitískt ábyrgum aðila í þinginu þyki slíkar ákvarðanir gagnrýni verðar. Þess vegna er þetta eðlileg breyting. Á að láta fólk greiða hlunnindaskatt af tiltekinni aðstöðu sem ekki hefur áður verið greiddur skattur af, t.d. af persónulegum tölvum? Ef það er gert tel ég að það eigi að vera pólitísk ákvörðun og hana eigi þá að taka annaðhvort á Alþingi eða í tengslum við mat af þessu tagi og á ábyrgð ráðherrans. Að sjálfsögðu er lagt til að áfram verði þessar reglur settar að fengnum tillögum ríkisskattstjóraembættisins og þeirra sérfræðinga sem þar eru. Ég tel að þetta sé betri stjórnsýsla eins og hér er lagt til. Um það snýst þetta atriði.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spurði um 8. gr. frv. og þá heimild sem þar er gert ráð fyrir, að flytja skatteftirlit frá embætti ríkisskattstjóra á nýjan leik að einhverju leyti til skattstofanna úti á landi. Ég hygg að hann hafi a.m.k. að einhverju leyti gert sér grein fyrir því hvað þar væri verið að fjalla um. Ég tel reyndar ekki að það hafi verið mikil miðstýringarárátta í skattkerfinu. Við höfum hér níu skattstofur og engin sérstök áform um að breyta því. Ég kannast ekki við þau. Hins vegar höfum við haft vinnuhóp í gangi á vegum ráðuneytisins sem hefur verið að velta fyrir sér, með aðild skattstjóranna, hvort breyta ætti verkaskiptingu eða samnýta betur kraftana í þessum embættum. Því miður eru þau í sumum tilfellum lítil og kannski frekar veikburða. Auðvitað kemur ýmislegt til greina í þeim efnum þó ekki sé búið að fullþróa og fullþroska allar hugmyndir um það. Þetta er vissulega eitt af því, að flytja skatteftirlit í einhverjum mæli á nýjan leik til einnar eða fleiri skattstofa á landsbyggðinni. Ég tel nauðsynlegt að heimildar fyrir því verði aflað og síðan verða menn að vinna frekar í málinu eins og gert hefur verið að undanförnu og rakið hefur verið í greinargerð og í máli mínu. Þetta er skýringin á því.

Hv. þm. spurði síðan spurningar í lokin sem ég get ekki svarað, þ.e. hvort gert hafi verið samkomulag um það milli stjórnarflokkanna að sú framlenging á hátekjuskatti sem hér er lögð til verði í síðasta sinn. Það eina sem ég veit um það mál er að ef þessi framlenging nær ekki fram að ganga þá fellur skatturinn niður um næstu áramót vegna þess að hann gildir bara út þetta ár. Hann er að vísu svolítið undarlegur í innheimtu vegna þess að menn greiða hann fyrir fram og hafa verið að greiða fyrir fram á þessu ári af því sem þeir eiga að greiða á næsta ári. Það gæti komið til endurgreiðslu ef hann félli niður um áramótin en það eina sem ákveðið hefur verið af hálfu núverandi ríkisstjórnarflokka er að framlengja hann um eitt ár. Síðan verða menn þá að taka einhverja nýja ákvörðun ellegar að hann renni sjálfkrafa úr gildi.

Hins vegar er það ekkert launungarmál að ég tel að það eigi að koma þessum skatti fyrir kattarnef, hvort sem það verður gert í einu lagi eða í tveimur áföngum. Ég tel að hann hafi mjög óæskileg og óheppileg jarðaráhrif í kerfinu og sendi fólki sem vill leggja hart að sér, afla sér tekna, algerlega röng skilaboð. Það er það sem ég tel um þetta mál. --- Þar með tel ég mig hafa svarað þeim spurningum, herra forseti, sem fram hafa komið.