Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 17:29:28 (1272)

2002-11-11 17:29:28# 128. lþ. 26.8 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[17:29]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það orðið ansi hvimleitt hvernig hæstv. fjmrh. getur aftur og aftur matreitt fyrir okkur hér í þingsölum og þjóðina alla að það kosti lítið þegar hann kemur hér fram með skattalagabreytingar sem færir fyrirtækjum miklar skattaívilnanir eða þeim betur settu miklar skattalækkanir. Hæstv. ráðherra gerir jafnan mjög lítið úr því. En þegar menn leyfa sér að tala um að lækka skattbyrðina á lágtekjufólki, lífeyrisþegum eða þeim sem eru með meðaltekjur, þá vex ráðherranum mjög í augum að tala um það. Hann reiðir alltaf fram háar tölur um hvað þetta kosti. Ég held að þær tölur sem hæstv. ráðherra er að nefna varðandi þetta yfirfæranlega skattatap þurfi að taka vandlega til skoðunar í efh.- og viðskn. Það að gefa kost á að yfirfæra rekstrartap árið 1997 lækkaði skattstofninn um 8 milljarða tekjuárið 1997 og það voru 1.280 aðilar sem nutu þess. Þetta voru fyrirtæki sem skiluðu 6 milljörðum í hagnað. Við verðum auðvitað að fá það upp á borðið sem rétt er í þessu efni.

Herra forseti. Mér þykir miður að ráðherran skuli enn og aftur koma hér í ræðustól, eftir að hafa verið margspurður um hvað hann ætli að gera fyrir lágtekjufólk og fólk með meðaltekjur sem axlað hefur mestu skattbyrðina gegnum árin, og leyfi sér að svara bara með þögn. Ég ítreka enn og aftur óskir mínar um að hæstv. ráðherra svari nú fyrir það hvað hann ætlar að gera í þessum efnum. Það er óþolandi að þurfa aftur og aftur að hlusta á að skattbyrði verkamanna og annarra hafi aukist verulega umfram aðra og skýringin sé fyrst og fremst launahækkanir. Við höfum margsýnt fram á að launin hafa hækkað miklu minna en skattalagabreytingarnar. Það hefur verið sýnt fram á það með tölum en samt leyfir ráðherrann sér að halda þessu fram. Ég vil enn og aftur reyna að þráspyrja ráðherrann, sem alltaf svarar með þöginni, hvað hann ætlar að gera fyrir fólkið sem er með lægstu launin og lífeyrisþega. Skattbyrði þeirra hefur hækkað verulega til að hæstv. ráðherra eigi fyrir skattaívilnunum sínum til þeirra betur settu.