Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 17:48:39 (1279)

2002-11-11 17:48:39# 128. lþ. 26.8 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[17:48]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nú alveg ótrúlegt. Þingmaðurinn heldur áfram að rugla saman hugtökum. Ég sagði í svari mínu, sem hann vitnaði til hér áðan, frá því 4. október hver áhrifin væru af hækkun skattfrelsismarkanna. Ég var ekkert að tala um persónuafsláttinn. En auðvitað er þetta hvort tveggja nátengt. Þetta hangir auðvitað allt saman. Menn verða bara að velja sér hvort hugtakið þeir ætla að tala um í hvert sinn. Þá var verið að tala um skattfrelsismörkin. Ég svaraði því eins og rétt er að ef þau hækka um 1.000 krónur þá aukast ráðstöfunartekjur skattgreiðandans um 385 kr. Þess vegna, herra forseti, tel ég að það sé ómarkvisst --- og ég held mig við það --- að hækka skattfrelsismörkin fyrir þennan mikla kostnað vegna þess að það gagnast öllum en ekki bara þeim sem lægst hafa launin og lægstar hafa tekjurnar.

Svo geta menn bara haldið áfram að tala um þetta eins og þeir vilja. En menn verða hins vegar að fara rétt með þau grundvallarhugtök sem verið er að tala um. Þessi tafla staðfestir nákvæmlega það sem ég sagði í máli mínu. Hún sýnir jafnframt að ef menn vilja auka persónuafslátt um 50 þús. kr. á ári, þ.e. 4 þús. á mánuði þá kostar það 9,2 milljarða tæpa. Þá fær hver og einn skattgreiðandi í landinu í vasann ríflega 4 þús. kr. í viðbót á mánuði. Og það verður bara hver og einn að gera það upp við sig hvort slík aðgerð, sem mundi hækka ráðstöfunartekjur okkar hér og allra í þjóðfélaginu um 4 þús. kr., sé 9,2 milljarða kr. virði.