Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 17:50:26 (1280)

2002-11-11 17:50:26# 128. lþ. 26.8 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[17:50]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi 50 þúsund kall er þá allt í einu orðinn að 50 þúsund kalli og engu minna og um það snýst málið. Ef menn vilja hækka persónuafsláttinn þá gildir það að fullu. Ég tel að það sé aðferð sem eigi að hafa. Mér finnst menn hafa gengið allt of langt í því að láta persónuafsláttinn rýrna á undanförnum árum. Er það bara þannig, af því að menn geta fundið út tölur eins og hæstv. ráðherra nefndi hér áðan, að við eigum kannski að halda áfram að lækka hann af því að það er svo dýrt að hafa þetta í því sem það er?

Ég held einfaldlega að menn verði að horfast í augu við það að einhver mörk þurfi þeir að hafa þarna. Þau mörk eru allt of lág eins og sakir standa. Það er búið að láta persónuafsláttinn lækka allt of mikið. Auðvitað kostar mikið að rétta það af. En ef það kostar 9,1 milljarð eins og kemur fram í svarinu þá hafa menn líka fært 9,1 milljarð til þeirra sem borga skatt og það er ekkert undan slegið í því. Það er bara þannig. Menn geta auðvitað haft mismunandi skoðanir á því hvort hafa eigi nokkurn persónuafslátt yfirleitt. Sumir þingmenn hafa talað fyrir því í sölum Alþingis að ekki eigi að hafa hann heldur hafa hér flatan skatt á allt og láta menn borga af öllum tekjum sínum hversu litlar sem þær eru. En stefnan sem hefur ríkt á undanförnum árum hefur verið sú að það eigi að vera einhver vörn fyrir þá sem minnst hafa. Sú vörn hefur verið að minnka og minnka og ef menn þora ekki að horfast í augu við hvað það kostar þá heldur hún áfram að minnka og við lendum í þessum endalausa skatti sem sumir vilja hafa.