Lífeyrissjóður bænda

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 18:01:32 (1283)

2002-11-11 18:01:32# 128. lþ. 26.10 fundur 321. mál: #A Lífeyrissjóður bænda# (skylduaðild maka, skipting iðgjalda) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[18:01]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 12/1999, um Lífeyrissjóð bænda. Eins og fram kemur í greinargerð með frv. er með því kveðið á um tvær breytingar á lögunum um Lífeyrissjóð bænda en stjórn lífeyrissjóðsins hefur óskað eftir því við fjmrh. að þetta frv. verði flutt og umræddar breytingar gerðar á lögunum.

Annars vegar er lagt til að felld verði niður skylduaðild þeirra maka bænda að lífeyrissjóðnum sem ekki starfa að búrekstri. Eftir sem áður verður í gildi skylduaðild þeirra maka sem starfa að búrekstri. Hins vegar er lagt til að felld verði niður sú regla að iðgjöldum hjóna eða sambýlisfólks verði skipt til helminga á milli þeirra. Í stað þess er lagt til að aðalreglan verði sú að iðgjöld í sjóðinn verði í réttu hlutfalli við reiknað endurgjald hlutaðeigandi.

Varðandi fyrra atriðið er það að segja að með mökum sem starfa að búrekstri er átt við maka sem reikna sér laun í landbúnaði eða fá greidd laun frá einkahlutafélagi eða félagsbúi vegna bústarfa. Með lögum nr. 122/1997 var sjóðstjórn gefin heimild til þess að veita maka undanþágu frá sjóðsaðild ef hann var ekki aðili að búrekstrinum en átti sjálfsagða fulla aðild að öðrum lífeyrissjóði. Frá þeim tíma hafa undanþágur frá sjóðsaðild verið veittar.

Með lögum nr. 12/1999 sem tóku gildi 1. júlí 1999 varð sjóðstjórn skylt að veita framangreinda undanþágu. Í dag er staðan því sú að sjóðstjórn skal veita maka bónda udanþágu frá sjóðsaðild sé hann ekki aðili að búrekstrinum og eigi sjálfsagða fulla aðild að öðrum lífeyrissjóði og óski þess skriflega. Með hliðsjón af þessu er lagt til að felld verði niður skylduaðild þeirra maka bænda að lífeyrissjóðnum sem ekki starfa að búrekstri. Eftir sem áður verði í gildi skylduaðild þeirra maka sem starfa að búrekstrinum. Jafnframt verður sjóðstjórn skylt að veita þeim mökum bænda sem hvorki reikna sér endurgjald í landbúnaði né fá greidd laun vegna búrekstrar og stunda ekki aðra atvinnu sem veitir þeim lífeyrisréttindi aðild að sjóðnum óski þeir eftir því.

Varðandi síðara atriðið, þ.e. skiptingu iðgjalda, er þess að geta að frá 1984 hefur iðgjöldum bænda verið skipt jafnt á milli bónda og maka hans samanber 1. mgr. 6. gr. laganna. Hafi annað hvort hjóna eða sambúðaraðila atvinnutekjur af öðru en búrekstri sem skapa ótvíræðan rétt til lífeyris í öðrum lífeyrissjóði er sjóðstjórn heimilt að fallast á aðra skiptingu iðgalda samkvæmt skriflegri umsókn viðkomandi.

Á síðustu árum hafa þær raddir orðið háværari meðal bænda sem telja að ekki sé rétt að skipta iðgjöldum milli hjóna/sambýlisfólks heldur bóka þau á hvorn aðila í samræmi við reiknuð laun hvors um sig enda hafa iðgjöld verið miðuð við 4% af reiknuðum launum frá ársbyrjun 1998. Á búnaðarþingi 2002 var samþykkt ályktun þar sem því er beint til stjórnar Bændasamtaka Íslands ,,að beita sér fyrir að lög um Lífeyrissjóð bænda, nr. 12/1999, verði tekin til endurskoðunar, einkum til að tryggja að iðgjöld í sjóðinn verði ávallt í réttu hlutfalli við reiknað endurgjald hlutaðeigandi.`` Bændasamtök Íslands hafa óskað eftir því að stjórn Lífeyrissjóðs bænda beiti sér fyrir þeirri endurskoðun laganna sem hér um ræðir og birtist í frv. þessu.

Með þeirri breytingu sem hér er lögð til, þ.e. að iðgjöld í sjóðinn verði í réttu hlutfalli við reiknað endurgjald er jafnframt lagt til að heimilt sé ef maki er án launa sem skapa honum full lífeyrisréttindi að kveða á um skiptingu iðgjalds bónda millum hans og maka hans í þeim hlutföllum sem hann hefur óskað eftir skriflega. Að því leyti er opnað fyrir þann möguleika að skipta iðgjöldum sé makinn án launa sem skapa honum lífeyrisrétt og ávinnur makinn sér því sjálfstæð lífeyrisréttindi með þeim hætti.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.