Samþykkt Alþjóðasambands lækna um notkun gagnagrunna á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 13:32:04 (1284)

2002-11-12 13:32:04# 128. lþ. 27.91 fundur 234#B samþykkt Alþjóðasambands lækna um notkun gagnagrunna á heilbrigðissviði# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[13:32]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um störf þingsins vegna nýgerðrar samþykktar Alþjóðasambands lækna, World Medical Association, um notkun gagnagrunna á heilbrigðissviði. Þetta snertir okkur sérstaklega vegna ákvörðunar íslenskra stjórnvalda og þessarar löggjafarsamkundu að koma upp gagnagrunni á heilbrigðissviði án upplýsts samþykkis.

Ég tel mjög mikilvægt að niðurstaða Alþjóðasambands lækna verði þegar í stað tekin til umfjöllunar á Alþingi og þá væntanlega í þeim nefndum þingsins sem málið varðar, heilbrn. og hugsanlega einnig í allshn. Haft er eftir Jóni Snædal, varaformanni Læknafélags Íslands, sem sat fund Alþjóðasambands lækna að vinnureglur íslenska gagnagrunnsins samræmist ekki niðurstöðu Alþjóðasambands lækna en hún er á þá lund að ef leyfa eigi þriðja aðila að nota gögn úr sjúkraskrá einstaklings skuli leita samþykkis hans. Þetta eigi við um alla aðra notkun en þá sem snertir beina meðferð sjúklingsins. Vísað er í Helsinki-sáttmálann varðandi upplýst samþykki og síðan nánar kveðið á um hvað það felur í sér þegar kemur að heilsufarsgögnum.

Herra forseti. Ég vildi færa þetta mál inn á vettvang þingsins þegar í stað vegna þess að það snertir gjörð íslensks löggjafa, er alvarlegs eðlis og okkur ber að fara þegar í stað í saumana á því.